Ofurhljómsveitin Crosby, Still, Nash og Young endurborin.
Ofurhljómsveitin Crosby, Still, Nash og Young endurborin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Crosby, Stills, Nash & Young eru enn komnir af stað með nýja skífu eftir tólf ára hlé. Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður er mikill aðdáandi gamalla tónlistarmanna og brá sér vestur um haf til að sjá þá félaga á tónleikum.

ÞAÐ ERU meira en 30 ár liðin síðan fjórir ungir menn tóku heiminn með trompi á umtöluðustu tónlistarhátíð sem haldin hefur verið, Woodstock. Þetta voru þeir David Crosby sem áður hafði verið í hljómsveitinni Byrds, Graham Nash úr Hollies, og þeir Stephen Stills og Neil Young úr Buffalo Springfield. Þeir stofnuðu eina fyrstu "súpergrúppuna", Crosby, Stills, Nash & Young, og heilluðu fólk uppúr skóm og sokkum, fyrst á Woodstock og svo á plötunum Déja Vu og tónleikaplötunni "Four Way Street". CSN&Y voru útnefndir besta nýja hljómsveitin þegar Grammy-verðlaunin voru afhent í mars 1970 en það liðu heil 18 ár þar til næsta stúdíóplata hljómsveitarinar kom út, hét American Dream og Young tók ekki þátt í tónleikaferð til að fylgja henni eftir. Á síðasta ári kom svo út þriðja breiðskifa þeirra félaga, Looking Forward.

Sérstakt samband

Samband þeirra karlanna hefur alla tíð verið dálítið sérstakt. Þeir hafa stundum unnið saman tveir og tveir, Stills og Young annars vegar, Nash og Crosby hinsvegar auk þess sem Crosby, Stills og Nash hafa sent frá sér nokkrar plötur í gegnum tíðina. Það þótti því tíðindum sæta þegar það fréttist að Crosby, Stills og Nash ásamt Neil Young væru að vinna saman að plötu og ekki þótti það síður merkilegt að þeir væru auk þess að spá í að leggja upp í tónleikaferð um Bandaríkin. Platan sem kom út seint á síðasta ári heitir Looking Forward og er sú besta sem fjórmenningarnir hafa gert saman síðan 4 Way Street kom út 1971, enda er það svo sem ekkert skrýtið því American Dream frá 1988 þykir ekki mjög merkileg plata.

Tilviljun fyrst og fremst

Eins og svo oft áður var það nánast tilviljun sem réð því að "Looking Forward" varð til með Neil Young innanborðs. Það atvikaðist þannig að þeir Young og Stills voru á búgarði Youngs í Kaliforníu að undirbúa útgáfu á stórum kassa með öllu efni hljómsveitarinnar Buffalo Springfield sem þeir voru báðir í undir lok sjöunda áratugarins. Stills spilaði þá fyrir Young gamla vin sinn lag sem hann sagði að ætti að fara á plötu sem hann væri að gera með þeim Crosby og Nash. Young hreifst svo af þessu lagi að hann sagðist vera til í að koma og aðstoða þá. Þegar hann var svo kominn á staðinn og hitti þessa gömlu félaga sína fannst honum svo gaman að vera með þeim að hann lagði til að hann yrði með sem fullgildur hljómsveitarmeðlimur og bauð þeim að velja úr einum 15 lögum sem hann var þá búinn að taka upp fyrir næstu sólóplötu sína. Þeir slógu til, völdu fjögur lög (sem eru að mínu mati bestu lög plötunnar) og þar á meðal er titillagið "Looking Forward".

Tónleikaferð til að kynna Looking Forward hófst svo í Michigan 24. janúar sl. við góðar viðtökur, og þegar ég ásamt litlum hópi Íslendinga sá þá karlana í Boston 27. mars sl. voru þeir búnir að ná vel saman.

Fyrri hálfleikur

Tónleikarnir fóru fram í Fleet Center sem er nýlegt risastórt íþróttahús og heimavöllur Boston Celtics körfuboltaliðsins. Það var mikil eftirvænting í salnum þegar ég kom inn og auðvitað var ég spenntur líka því Neil Young og öll hans tónlist er mikið áhugamál hjá mér og hefur verið það um árabil. Ég var fyrst og fremst kominn til að sjá hann og heyra, en auðvitað hina líka. Ég var einn af fjórum ljósmyndurum sem fengu að mynda þetta kvöld og hafði miklar áhyggjur af því að ná ekki nógu góðum myndum. Þetta gengur þannig fyrir sig hjá svona stjörnum einsog CSN&Y að þeir eru með blaðafulltrúa í vinnu hjá sér og blaðafulltrúinn sem er kona lagði okkur lífsreglurnar vel og vandlega áður en hún leiddi okkur upp að sviðinu. Við máttum taka myndir af þeim í tveimur fyrstu lögunum og eftir það myndi hún sækja okkur og fylgja okkur út.

Rétt uppúr kl. 8 birtust þeir á sviðinu, veifuðu þessum 16 eða 17 þúsundum karla, kvenna, drengja og stúlkna sem komin voru til að sjá og heyra í þeim, spenntu á sig gítarana og byrjuðu á laginu "Carry On". Strax í kjölfarið fylgdi svo gamla góða "Southern Man" eftir Young sem þeir fluttu óaðfinnanlega. Blaðafulltrúinn sótti mig og hina "ljósmyndarana" eftir að því lauk og fylgdi okkur út, en ég var auðvitað búinn að tryggja mér miða áður en ég fór vestur um haf fyrir litlar 17.000 krónur, en dýrustu miðarnir kostuðu það á Netinu.

Þrjár og hálf klukkustund liðu eins og korter

Ég sé svosem ekkert eftir þeim þúsundköllum því í hönd fóru þriggja og hálfrar klukkustundar tónleikar sem liðu eins og korter.

Næstu tvö lög á eftir "Southern Man" voru ný lög "Stand And Be Counted" eftir Crosby og "Heartland" eftir Nash, bæði af nýju plötunni "Looking Forward". Þar á eftir kom "49 Reasons" eftir Nash líka, þá "Slowpoke" af Looking Forward og þá var röðin komin að því að bregða sér aðeins aftur í tímann með laginu "Marrakesh Express".

Crosby endurfæðist

"Faith In Me", upphafslag nýju plötunnar, kom næst og þar á eftir kom eiginlega, mér algjörlega að óvörum, hálfgerður hápunktur kvöldsins. David Crosby tók salinn með trompi þegar hann, með aðstoð hinna auðvitað, þrumaði yfir viðstadda laginu "Almost Cut My Hair". Hann tókst næstum á loft karlinn og ég átti von á að hann myndi hrökkva uppaf á hverri stundu, sívalur eins og hann er, sköllóttur og lufsuhærður með stórskaddaðan líkama eftir inntöku allskyns ólyfjanar í gegnum tíðina. Stills og Young spiluðu gargandi gítarsóló á víxl og ég átti ekki til eitt aukatekið orð, enda var ég kominn til að sjá Young taka hina kallana í nefið, og næsta lag, hið rafmagnaða "Cinnamon Girl" eftir Young, fór næstum framhjá mér. Ég var ekki alveg búinn að ná mér eftir þessa endurfæðingu Crosbys. En þegar "Cinnamon Girl" var búið veifaði Nash og sagði í hljóðnemann að þeir kæmu aftur eftir smástund með kassagítarana sína. Það var komið hlé.

Hlé - reykingar bannaðar

Mér leið næstum einsog ég hefði orðið fyrir hreindýri en skrapp á klósettið þar sem fjölmargir stóðu reykjandi. Sumir voru með Winston, aðrir með Marlboro, og enn aðrir voru með heimatilbúna vindlinga sem gáfu frá sér skrýtna lykt, karlar á sextugsaldri með velmegunarbumbu og derhúfu á höfðinu. Lyktin sem þessir vindlingar gáfu frá sér var reyndar sú sama og sveimaði um í loftinu inní tónleikasalnum stóra. Það er stranglega bannað að reykja allstaðar í Boston nema undir berum himni og á nokkrum börum, það er búið að banna reykingar á öllum opinberum stöðum.

Seinni hálfleikur

Eftir 20 mínútna hlé birtust gömlu mennirnir aftur og sumir búnir að skipta um föt að ofan. Þeir byrjuðu á "Helplessy Hoping" og þar á eftir var það gamla góða "Our House" þar sem Nash var í aðalhlutverki og spilaði á píanó. Young kom ekki úr pásu fyrr en hinir þrír höfðu lokið við "Our House" en næsta lag var hans, "Old Man" sem er að finna á "Harvest" plötu Youngs frá 1972.

Næstu þrjú lög á eftir mynduðu einskonar heild, öll af nýju plötunni. Fyrst kom "Dream For Him" eftir Crosby sem hann tileinkaði "Django" fjögurra ára gömlum syni. Young leiddi félaga sína í næsta lagi, titillagi "Looking Forward" en í laginu syngur hann m.a. "það eina sem ég sé í framtíðinni er eitthvað gott fyrir mig og þig". Þvínæst kom "Someday Soon" eftir Nash sem hann tileinkaði elskunni sinni og bað fólk endilega um að reyna að halda í ástina.

Young við pípuorgelið

Þegar þessum hálfgerða þríleik lauk fór Young aftast á sviðið og settist þar við gamalt fótstigið pípuorgel, smellti á sig munnhörpu og söng og spilaði "After The Goldrush" við frábærara undirtekir allra sem heyrðu. Hann breytti textanum aðeins þannig að hann ætti betur við nútímann, og svo þegar orðin "getting high" komu fyrir í textanum var einsog KR hefði orðið Íslandsmeistari í fótbolta, svo mikil voru gleðilætin. Crosby og Nash stóðu rétt hjá Young og sungu bakraddir einsog englar.

Eftir að laginu lauk lét Young sig hverfa og hinir þrír spiluðu "Guinevere" eftir Crosby áður en þeir skelltu sér í lag sem þeir spiluðu þetta kvöld í annað sinn í túrnum. Suite: Judy Blue Eyes eftir Stills. Stills einn sá um spilamennskuna og Crosby og Nash bara sungu með. Fólk hafði verið dálítið að kvarta undan því að þetta lag vantaði í efnisskrá tónleikanna en ástæðan fyrir því að það hafði ekki verið með frá upphafi er sú að þetta er langt og mikið fjórskipt lag sem ekki hafði gefist tími til að æfa áður en lagt var upp í ferðalagið. Þeir Donald "Duck" Dunn bassaleikari og trommarinn Jim Keltner voru ekki ráðnir fyrr en viku áður en lagt var í 'ann og þó svo þeir Dunn og Keltner séu alvanir menn treystu þeir sér ekki strax í "Judy Blue Eyes".

Stórt og feitt reykelsi

Young kom aftur eftir að tónleikagestir höfðu klappað vel og vandlega fyrir hinum þremur og næsta lag var "Out Of Control" af nýju plötunni og Young leiddi með söng og píanóleik. Næsta lag þekkti ég því miður ekki en svo var röðin komin að "Teach Your Children" sem er líklega þekktasta lag fjórmenninganna hér á landi, oft og iðulega spilað í þætti Gests Einars á Rás 2 á laugardögum, "Með grátt í vöngum". Áður en þeir byrjuðu á laginu þurfti að færa eitthvað dót til á sviðinu og Crosby notaði tækifærið og blés glóð í eitthvað sem var annaðhvort stórt og feitt reykelsi eða eitthvað allt annað og ólöglegra. Hvort sem það var fékk hann heilmikið klapp fyrir þessa sérstöku athöfn sína.

Annað sígilt CSN&Y lag, "Woodstock" fylgdi í kjölfarið og svo kom óvænt gamla Byrds-lagið "8 miles high" sem þeir kallarnir höfðu eftir mínum bestu heimildum ekki spilað áður í tónleikaferðinni. "Ohio" var næst og þvílíkur flutningur. Aðalsmerki þeirra áður fyrr var hvernig þeir gátu raddað einsog englar, en það er ekki á allra færi að gera það svo vel sé, en þessi gömlu jálkar eru snillingar í því, það er næstum einsog þeir hafi fundið raddaðan söng upp. Næsta lag var gamli hippaslagarinn með fallega boðskapnum "Love The One You´re With" þar sem Stills syngur; Ef þú getur ekki verið með þeim sem þú elskar, elskaðu þá fólkið sem þú ert með.

27. lagið

Þegar því lauk var komið að síðasta lagi tónleikanna, 27. laginu, og ég varð ekki fyrir vonbrigðum þegar það byrjaði, "Rockin´ In The Free World" sem Young gaf út á plötunni "Freedom" fyrir 12 árum. Það er eitt af hans allra þekktustu lögum og dró ekki úr vinsældunum þegar hljómsveitin Pearl Jam byrjaði að spila það í tíma og ótíma á tónleikum fyrir nokkrum árum.

Young hamaðist á gamla svarta Gibson Les Paul gítarnum sínum í gegnum allt lagið og hinir kallarnir sem höfðu ekkert sérstaklega mikið að gera á meðan virtust skemmta sér konunglega. Tónleikarnir enduðu með mikilli bjögunarveislu eins og lög gera ráð fyrir þegar Neil Young og rafmagnsgítar eiga í hlut. Það var klappað og stappað í nokkrar mínútur og auðvitað komu þeir félagarnir aftur og tóku eitt lag. Það var vel valið, "Long May You Run" sem kom út á plötu sem Young og Stills gerðu 1978, en lagið samdi Young um gamla líkbílinn sinn sem flutti hann hálfa leiðina til Kaliforníu á sínum tíma þegar hann fór þangað frá æskustöðvunum í Kanada í fyrsta sinn í leit að frægð og frama en þurfti svo að skilja hann eftir með skottið fullt af minningum.

Ég skildi ekkert eftir í Fleet Center í Boston nema kannski nokkra svitadropa og minninguna um frábæra skemmtun upprennandi ellilífeyrisþega geymi ég vel.