ALLLENGI hefur rapparinn Black Rob notið hylli meðal kassettuvina í New York og ýmis lög með honum komist á óformlegan vinsældalista götunnar. Fyrir skemmstu kom út fyrsta breiðskífa hans sem kallast Life Story.

ALLLENGI hefur rapparinn Black Rob notið hylli meðal kassettuvina í New York og ýmis lög með honum komist á óformlegan vinsældalista götunnar. Fyrir skemmstu kom út fyrsta breiðskífa hans sem kallast Life Story.

Stíll Robs er blátt áfram og sögurnar sem hann segir byggjast á atvikum úr ævi hans, en svo er að heyra á skífunni að minnsta kosti og sjá á nafni hennar. Sú ævi hefur ekki verið dans á rósum, frekar en þeirra sem alast upp í fátækrahverfum almennt. Með sér á skífunni er Rob með framúrskarandi aðstoðarmenn, til að mynda Ce-Lo og Mase, sem hætti í rappinu á dögunum, Lox koma einnig við sögu þó flokkurinn hafi sagt skilið við Bad Boy, Jennifer Lopez, Lil' Kim og G-Dep, auk þess sem Puffy leggur sjálfur til rapp í einu laganna.

Flutningur Robs þykir minna um margt á Biggie Smalls, en ekki þykir hann standa honum jafnfætis í textaspunanum. Fyrstu opinberu smáskífur hans vöktu ekki eins mikla athygli og neðanjarðaráhugi gaf til kynna og því var skífunni seinkað hvað eftir annað þar til þeir félagar Puff og Rob töldu að búið væri að berja í brestina. Hvort nóg sé að skreyta skífuna með stjörnum er ekki ljóst, en á skífunni á Rob framúrskarandi spretti að flestra mati, ekki síst þar sem Lox leggur honum lið.