Músin, kötturinn og fjölskyldan - að vísu á mynd.
Músin, kötturinn og fjölskyldan - að vísu á mynd.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölskyldumyndin Stuart Little fjallar um Little-fjölskylduna sem ættleiðir músardrenginn Stuart, þau eru ekki einungis miklu stærri en hann heldur eru þau líka af annarri dýrategund, þau eru mennsk. Myndin er byggð á vel þekktri bandarískri barnabók sem kom út fyrir 50 árum og er eftir E.B. White. Músin var vant við látin, en Dagur Gunnarsson hitti leikstjórann Rob Minkoff og aðalleikarana Geenu Davis og Hugh Laurie sem leika foreldra Stuarts.

STUART Little hefur nú þegar slegið rækilega í gegn í Bandaríkjunum og leikstjóranum Rob Minkoff er auðsjáanlega mjög létt. Að búa til mynd þar sem aðalleikarinn er tölvuteikning og aukaleikararnir eru þjálfaðir kettir tekur tvö ár, heilmikla fjárfestingu og töluvert mikla þolinmæði. Tölvutæknin, sem er eitt helsta verkfærið við gerð þessarar myndar, hefur tekið það mörg og stór stökk undanfarin ár að núna er hægt að gera hluti sem hefðbundnar teiknimyndir gætu aldrei leikið eftir, að þjálfa ketti er aftur á móti alveg jafn erfitt og það hefur alltaf verið.

Vann hjá Disney

Rob Minkoff er alinn upp hjá Disneymyndverinu og var aðstoðarleikstjóri við gerð Konungs ljónanna en hann vann einnig að gerð myndanna Litla hafmeyjan og Fríða og Dýrið. Nú hefur hann söðlað um, er kominn yfir til Imageworks sem er teiknimynda- og tölvubrelluarmurinn hjá Sony Pictures, þeir framleiddu t.d. Godzilla, Starship Troopers, Michael og James and the Giant Peach.

Minkoff sagði að það sem var nýtt fyrir honum og töluverð áskorun hefði verið að vinna bæði með "raunverulega" heiminn og ímyndaða heiminn og að blanda þeim saman. "Að sjá þá raunverulega smíða áþreifanlegt hús og geta ráfað um það var alveg ný reynsla fyrir mér og það er að miklu leyti auðveldara að vinna þannig. En það sem var flóknara við gerð þessarar myndar var að við vorum að vinna með svo marga miðla, eða réttara sagt að blanda saman misjafnri og ólíkri tækni. Þarna var ég að vinna í fyrsta skipti með lifandi leikurum, við þurftum að þjálfa kettina og tölvutæknin var alveg splunkuný, þannig að það var ansi margt sem ég þurfti að læra á. Það er sagt að maður eigi aldrei að vinna með börnum eða dýrum og ég held að myndverið hafi ákveðið að ráða mig til verksins vegna þess að ég var of vitlaus til að hafna verkinu."

Michael J. Fox ljær Stuart rödd sína og Minkoff segir að músin hafi einnig heilmikið af hans leik og persónusköpun því eins og alltaf í teiknimyndum hafi þeir byrjað á röddinni og teiknað músina og viðbrögð hennar út frá því.

"Kettirnir voru stærsta áskorunin held ég, vegna þess að þeir eru ... einfaldlega vegna þess að þeir eru kettir og þeir gera ekki neitt sem maður segir þeim að gera."

Músarmamman

Geena Davis hlaut óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni The Accidental Tourist 1989 og var útnefnd fyrir Thelma and Louise sem er líklegast sú mynd sem hún er þekktust fyrir og sem skaut henni rækilega upp á stjörnuhimininn. Síðan hefur ferill hennar spannað vítt og breitt, hún hefur leikið í myndum sem verða að teljast öðruvísi á Hollywoodmælikvarðanum, eins og t.d. Beetlejuice, og svo fremur "venjulegum" myndum eins og A League of Their Own og Speechless. Mitt á milli falla síðan myndirnar Earth Girls Are Easy og The Fly. Hún reyndi að slá í gegn sem aksjónstelpa í hasarmyndinni The Long Kiss Goodnight en áhorfendur þar vestra virðast frekar vilja sjá hana í móðurlegri hlutverkum sem er miður. Hún vakti líka heimsathygli fyrir ári síðan eða svo, þegar hún keppti um sæti í ólympíuliði Bandaríkjanna í bogfimi og komst víst ansi nærri því.

Er þetta undarlegasta mynd sem þú hefur leikið í?

"Nei, maður skyldi ætla það, en ég hef verið í ansi mörgum skrýtnum myndum. Í einni mynd var kærastinn minn fluga, í annari átti ég kynmök við geimveru þannig að þú sérð að það hefur ýmislegt gerst, en það verður að viðurkennast að ég hef aldrei áður verið músarmamma. Þegar ég las handritið vissi ég að það yrði töluverð áskorun að leika á móti litlu kríli sem maður sér ekki, við urðum bara að nota ímyndunaraflið því músin var sett inn eftir á. Þetta var líka svo tilfinningaþrungið samband sem við áttum við músina, hann var sonur okkar og okkur þótti svo vænt um hann, þannig að það voru mikil átök. Rob Minkoff fullvisaði okkur um að Stuart myndi vera mjög raunverulegur og vel úr garði gerður, en ég hugsaði með mér að ef músin er ekki flott og vel gerð, þá komum við hin til með að líta út eins og mestu fífl, grenjandi eins og asnar yfir teiknimyndafígúru [brynnandi músum?]. Sem betur fer lítur hann ótrúlega vel út, þannig að það var ákveðinn léttir, en þó að þetta hafi verið skrýtið, var það bara gaman, þetta var skemmtileg leiklistaræfing. Stundum urðum við bara að hlæja að öllu saman, okkur leið óneitanlega svolítið eins og ösnum stundum, að sitja og tala svona út í loftið, en sem betur fer er Hugh Laurie með góða kímnigáfu þannig að við gátum gert grín að þessari fáránlegu iðju okkar."

Hin fullkomna fjölskylda

Var það eitthvað sérstakt sem laðaði þig að þessu verkefni?

"Já, handritið var hreinlega mjög gott og ég hafði lesið bókina sem barn og handritið var ótrúlega góð útgáfa af bókinni. Ég grét þegar ég las það og þá hugsaði ég með mér að þetta hlyti að virka. Mér fannst líka hin ótrúlega skynsamlega fjölskylda skemmtilegt viðfangsefni. Ég vildi taka þátt í að skapa hina fullkomnu fjölskyldu og sú hugmynd að fólk horfi á myndina og hugsi; "Vá, ég vildi að þetta væri mín fjölskylda!" höfðaði til mín. Þú veist, við tökum ekki einu sinni eftir því að Stuart er mús og allt er svo huggulegt og fullkomið. Ég er hrifin af þeim skilaboðum í myndinni."

Nú hefur þú leikið mörg ólík hlutverk, er það eitthvað sem þú leitast við að gera?

"Já, og ég held að allir leikarar reyna, ef þeir mögulega geta, að takast á við verkefni sem einhver ný áskorun felst í og ég hef verið ákaflega heppin og fengið að prófa mig áfram í mismunandi gerðum af kvikmyndum. Það sem ég reyni alltaf að gera hverju sinni er að finna raunveruleikann í öllum þeim aðstæðum sem ég lendi í og leika út frá þeirri forsendu að fyrir mér er þessi staða, sama hversu fáránleg sem hún er, raunveruleikinn."

Það er eins og áhorfendur eigi erfitt með að sætta sig við þig sem "aksjón"hetju, af hverju heldurðu að það stafi?

"Ég veit það ekki, það virðist vera að hasarmyndir með kvenkyns aðalhetjum gangi ekki vel, Alien-myndirnar virðast vera undantekningin á þessu, en það er ekki margt annað sem hefur gengið. Ég veit ekki af hverju það stafar, en það er gaman að gera slíkar myndir, það er svaka fjör að gera öll þessi áhættu- og brelluatriði. Það er erfitt, The Long Kiss Goodbye var grimmilega erfið. Það var svo kalt og á hverjum einasta degi var ég að gera einhverja brjálaða hluti en það er fjör, það er gaman að takast á við líkamlegar áskoranir jafnt sem huglægar. Þó verð ég að segja að það var ágæt tilbreyting að vera hlýtt og innandyra fyrir þessa mynd, það eina sem ég þurfti að hafa áhyggjur af var hvar músin væri."

Hvernig var að vinna með Jonathan Lipnicki sem leikur George, eldri soninn?

"Það var mjög auðvelt og skemmtilegt, hann er alveg frábær. Hann hefur ekki látið Hollywood spilla sér, hann er mjög venjulegur. Þótt hann hafi leikið í Jerry Maguire virðist það ekki hafa stigið honum til höfuðs."

Þvær ekki þvotta

Ertu sjálf eitthvað lík frú Little?

"Já, já, ég er t.d. ósköp heimakær, en ég get ekki sagt að ég geri mikið af því að þvo þvotta ... nokkurn tímann! Þannig að í því atriði þurfti ég heilmikið að þykjast, en ég er mikið heima við og mér finnst ósköp notalegt að elda heima eða panta mat heim og horfa bara á sjónvarpið eða myndbandsspólu."

Hvort höfðar meira til þín að leika eða framleiða myndir?

"Að leika er skemmtilegt að því leyti að það er vissulega áþreifanlegri leið til að fá útrás fyrir sköpunargleðina en ég fæ líka heilmikið út úr því að vera framleiðandi og ég hef gert töluvert af því upp á síðkastið. Það er erfiðara að vera framleiðandi vegna þess að það tekur svo miklu lengri tíma og það eru svo margir fletir á því starfi en ég vonast eigi að síður til að halda áfram að framleiða myndir."

Gastu stundað bogfimina eitthvað á meðan tökur á þessari mynd stóðu yfir?

"Já, já, ég gerði það, það er svo oft mikil bið á meðan það er verið að stilla upp fyrir einhver brelluskot, þannig að ég laumaðist oft yfir í næsta myndver sem var autt og þar var búið að koma upp skotskífu fyrir mig og ég gat æft mig heilmikið." Hér mundar Geena ímyndaðan boga og sleppir einni ör út í buskann og brosir dreymin á svip.

Nú þykja kvikmyndakossar ákaflega spennandi, og kvikmyndastjörnur kjafta gjarnan frá því hvernig var að kyssa aðrar kvikmyndastjörnur, hvernig var að kyssa ímyndaða mús?

"Já, sko, það var svolítið klikkað, en þessir kossar í kvikmyndabransanum eru ekki alveg jafn æðislegir og fólk vill vera láta. Það er svoooo klikkað að vera að þessu fyrir framan annað fólk, að mínu mati er ekkert kynæsandi við þá, því þetta er svo vélrænt og gengur út á svo mikla tækni. Ég man eftir einu atriði þar sem ég átti að kyssa Andy Garcia í myndinni Hero, þetta var mjög mikilvægt augnablik fyrir okkur sem aðalhetjurnar í þessari mynd. En nærmyndin var svo nærri okkur að varir okkar urðu að vera mjög nákvæmlega staðsettar áður en kossinn var myndaður og það þurfti margar tilraunir til að ná þessu nákvæmlega fyrir kvikmyndatökumanninn. Andy sem er svo sætur og kynæsandi og allt það, en þetta var bara einum of tæknilegt og vélrænt, og það tekur fjörið svolítið úr þessu."

Möltuasninn

Í þessari mynd ferðu að heiman til að ættleiða barn og kemur síðan heim með mús, hvað er það undarlegasta sem þú sjálf hefur komið með heim?

"Hmm, látum okkur sjá, ég kom einu sinni heim með asna alla leið frá Möltu, eftir tökur á Cutthroat Island. Það var svona frekar óvenjulegt, en þó að asninn tali reyndar ekki mannamál þá er hann voðalega sætur, hann heitir Jote ... Donkey Jote ... nærðu þessu? (Don Qixote)."

Er einhver af þeim myndum sem þú hefur leikið í meira í uppáhaldi hjá þér en aðrar?

"Ég er mjög ánægð með þær allar, en líklegast er Thelma and Louise sú sem skiptir mig mestu máli. Bæði vegna þess að ég held að hún skipti fullt af fólki heilmiklu máli og eins var það ákaflega góð persónuleg reynsla að gera þá mynd og hún markar eiginlega mjög mikilvæg tímamót í mínu lífi."

Nú hófstu ferilinn í Tootsie með Dustin Hoffman og leikstjóranum Sydney Pollack, sástu þá fyrir þér að ferillinn yrði eins og raun bar vitni?

"Já, eiginlega, ég veit að það er skrýtið. Það var frábært að fá hlutverkið í Tootsie, ég ætlaði ekki að trúa því, en mig langaði alltaf að verða kvikmyndaleikkona frá því ég var þriggja ára og ég hélt líka alltaf að þannig yrði það. Ég ákvað að ég myndi sjá til þess að ég næði því takmarki. Eins gott að það gekk upp því ég var eiginlega ekki með neinar áætlanir til vara."

Ertu með einhver verkefni fyrirliggjandi?

"Það er ekki alveg ákveðið, ég er að lesa hitt og þetta og eitt og annað er að gerjast, bæði að framleiða og leika, þetta tekur allt sinn tíma, ég á bara eftir að velja."

Önnur músarmynd

Því hefur verið fleygt að það verði gerð önnur mynd með músinni.

"Já, það er tvímælalaust mikill áhugi fyrir því, það er verið að vinna að handriti. Ég væri alveg til í það, ég skemmti mér konunglega og Stuart er enn það ungur að hann þarf á móður sinni að halda ...við sjáum til, ég myndi sannarlega ekki hafna tækifærinu ef það gæfist."

Síðan viðtalið fór fram hefur það kvisast út að það verði örugglega gerð önnur mynd og að tökur hefjist næsta haust.

Nú varst þú kynnirinn á óskarsverðlaunaafhendingunni í fyrra, hvernig var það?

"Það var gaman, það er alltaf fjör á óskarnum. Þegar ég fór í fyrsta skipti og fékk að taka einn óskarinn með mér heim hugsaði ég: "Þetta er frábært." Það er alltaf gaman að pæla í því í hverju maður eigi að vera og allt það en núna í ár ætla ég ekki að fara, það er í fyrsta sinn í ellefu ár sem ég fer ekki."

Af hverju?

"Bara til að fá smá frí, þetta getur nú orðið svolítið of mikið, þetta tekur ótrúlega mikinn tíma, í fyrra þegar ég var kynnir tók það nokkra mánuði í undirbúning."

Hugh Laurie

Hugh Laurie er fjölhæfur maður og Íslendingar kannast örugglega við hann úr þáttunum um þá kumpána Jeeves og Wooster og eins úr Black Adder-þáttaröðinni. Hugh lék í Peter's Friends og einnig hefur sést til hans í aukahlutverkum í nokkrum barnamyndum. Núna er hann orðinn eftirsóttur í aðalhlutverkin og Stuart Little er ein af þremur myndum með kappanum í aðalhlutverki. Hugh lætur eins og þetta sé allt tómur misskilningur og tilviljun og segist vera klaufi sem potist í mörgu og kunni fátt fyrir sér.

Var ekki undarlegt að leika á móti mús sem var ekki til?

"Jú, óneitanlega, en það hefði verið enn undarlegra ef við hefðum þurft að leika á móti raunverulegri mús, það hefði líklegast verið erfiðara og þá hefðum við trúlegast þurft að grípa til límtúpunnar og heftarans, við skulum ekki fara nánar út í þá sálma. Maður verður að nota ímyndunaraflið í öllum leik, sama hversu raunverulegar aðstæður eru. Í kvikmyndaleik er alltaf myndavél sem starir á mann og fimmtíu vel nærðir gaurar í gallabuxum sem standa fyrir aftan hana og láta sér leiðast. Síðan þarf maður að ímynda sér að eldfjallið sé að gjósa eða flugvélin að hrapa og þannig er þetta alltaf. Eitt skiptið hélt ég reyndar að ég væri að bilast, við vorum að taka upp atriði þar sem ég tek Stuart í lófann, hann var náttúrlega ekki til staðar, ég þurfti að ímynda mér að hann væri þarna, en eitthvað fór úrskeiðis þannig að leikstjórinn stoppaði tökuna og þá stóð ég sjálfan mig að því að setja ósýnilegu músina sem var ekki til staðar aftur varlega niður á gólf. Við Geena þurftum að æfa okkur í að horfa á sama staðinn í tómarúminu, því ef maður er ekki að horfa á nákvæmlega sama punktinn þá sjá áhorfendur að það er eitthvað að. Mér finnst reyndar að á plakatinu séum við ekki að horfa á sama staðinn, en það er kannski bara ég."

Engir áhættuökklar

Var ekki hægt að merkja staðinn sem þið áttuð að horfa á með einhverju?

"Jú, jú, þeir voru með frekar snjalla græju sem var eins og myndavélarhaus með mótor og á þrífæti sem sendi frá sér leysigeisla, lítinn rauðan punkt, og gat munað og endurtekið hreyfinguna á punktinum. Svo það var hægt að láta "músina" hoppa af borðinu, á stólinn og niður á gólf og síðan var hægt að endurtaka það nákvæmlega ef með þurfti. Mesta snilldin fólst í því að punkturinn blikkaði í takt við lokann á myndavélinni, þannig að allir á tökustað gátu séð rauða punktinn nema myndavélin, sem var gott, nema að það virkaði alls ekki, það var alltaf eitthvað að, en það var líka eina vandamálið. Þar fyrir utan var þetta alveg frábær græja."

Þetta er fremur óvenjuleg rulla fyrir þig þar sem þú færð ekki mikið svigrúm til að geifla þig eða grínast?

"Jú, það er rétt, ég geri ekki mikið í þessari mynd, ég er bara eitt skópar, og legg kannski smá ökklavinnu á mig öðru hvoru. Þess vegna fékk ég hlutverkið, ég er með svo góða ökkla, ég gerði alla mína ökklavinnu sjálfur, það voru engir áhættuökklar sem þurftu að koma í minn stað og þess vegna fékk ég þetta hlutverk, ég held allavega fast í þá trú."

Er það rétt að leikstjórinn hafi séð þig í annarri mynd og ekki viljað neinn annan og lagt hart að þér að vera með í Stuart Little?

"Tja, hann segir það núna, nei, nei, það þurfti ekkert að ganga hart á eftir mér, þessi mynd gengur líka aðallega út á tölvutæknina. Það er gaman að fá tækifæri til að sjá hvernig þeir gera svona mikla mynd í mörgum risavöxnum upptökuverum."

Þú hefur nú leikið í svipuðum myndum áður, ekki satt, The Borrowers og 101 Dalmatar?

"Jú, það er rétt, þetta eru svona fjölskyldumyndir og ... sjáðu til ég á þrjú börn sjálfur og það er hreinlega ekki hægt að hafa of mikið framboð af svona myndum. Ef maður býr með börn í stórborg eins og London og veðrið er grámuggulegt, eins og það er oft, er maður stöðugt í bíó með krakkana og þó að maður hafi séð eina góða í gær vill maður aðra góða í dag. Þar sem ég er fjölskyldufaðir hugsa ég kannski meira um svona myndir og það er gaman að fá tækifæri til að gera nokkrar góðar. Ég myndi vilja gera fullt af svona myndum ... þó verð ég að segja að ég myndi gjarnan vilja sparka niður nokkrar hurðir og segja: "Stattu kyrr, sóðalöppin þín!" En ég myndi að sjálfsögðu ekki leyfa börnunum mínum að sjá svoleiðis myndir."

Börnin ánægð með Stuart

Eru þau helstu gagnrýnendurnir þínir?

"Já, þau eru sex, átta og tíu ára og það er erfitt að gera þeim til hæfis og það vekur enga sérstaka aðdáun hjá þeim þó að ég sé leikari en þau voru mjög ánægð með Stuart Little, hlógu mikið og fylgdust spennt með eltingaleikjunum og það kom mér líka á óvart hvað þau voru snortin af myndinni. Maður sér það nefnilega ekki við gerð myndarinnar, maður hefur á tilfinningunni hvaða kaflar eru fyndnir og spennandi en það er ekki fyrr en öll myndin er komin saman sem heild sem hún getur farið að snerta viðkvæmari taugar. Það er ekki hægt að verða hrærður á tveimur sekúndum. Það er hægt að hlæja og verða spenntur á tveimur sekúndum en það tekur einn og hálfan tíma að verða djúpt snortinn og hrærður. Þau voru öll hágrátandi á sófanum hjá mér, það var ekki laust við að sektarkenndin gerði vart við sig."

Hvað kom sjálfum þér mest á óvart?

"Tölvutæknin, það er svo langt síðan við tókum myndina upp, það tók fjóra mánuði og svo voru þeir í heilt ár að setja Stuart inn í myndina. Meðan á tökum stóð voru þeir með slatta af skissum, teikningum og nokkur gróf tölvumódel en sjónhverfingar eru bara þannig að þær virka ekki fyrr en síðasti hlutinn er kominn á sinn stað. Það er oft eitthvað sem maður tekur sjaldan eftir eins og t.d. hljóðið, maður sér Stuart á skjánum og trúir engan veginn á hann, það er eins og hann sé límdur á bakgrunninn en svo þegar hljóðið þegar hann burstar í sér tennurnar fylgir með og það hljómar rétt, er eins og allt smelli saman í hausnum á manni og maður trúir gjörsamlega á galdrana."

Ekki eins gaman að vera atvinnumaður

Ferill þinn sem grínleikari hófst á meðan þú varst í háskóla í Cambridge, dreymdi þig alltaf um að verða grínleikari?

"Ég dýrkaði grínleikinn þegar ég var áhugamaður í faginu en um leið og ég fór að vinna við það þoldi ég þetta ekki lengur, virkilega, ég veit ekki af hverju, það verður ákaflega erfitt og öðruvísi. Ég held ég þurfi geðlækni til að hjálpa mér með þetta ... Á námsárunum ímyndaði ég mér að áhorfendurnir væru kvenkyns, ekki þannig að allir í salnum væru konur, heldur að áhorfendur sem heild hugsuðu eins og ein kona sem ég var að daðra við og monta mig fyrir, og það var gaman, skemmtilegur leikur. Þegar ég gerðist atvinnumaður var eins og áhorfendur yrðu skyndilega karlkyns í kollinum á mér og sætu með krosslagðar hendur og skildu ekki hvað ég var að fíflast, þá varð það keppni og ekki eins gaman ... fannst mér. Ég ætti náttúrlega að segja einhverjum meðferðarfulltrúa þetta í stað þess að kvelja blaðamenn."

Hugh Laurie hefur líka skrifað eina skáldsögu, The Gun Seller, sem kom út í fyrra og hann hefur nýlega lokið við að breyta í kvikmyndahandrit sem United Artists ætlar bráðlega að hefja framleiðsluna á. Hann er að skrifa bók númer tvö og segir að það sé ákaflega erfitt: "Allir segja að það sé langerfiðast að skrifa bók númer tvö og þess vegna ætla ég að hoppa yfir það og vinda mér beint í bók númer þrjú!" Hann leikur í tveimur öðrum myndum sem eru væntanlegar á árinu; Maybe Baby eftir Ben Elton, sem er einn af höfundum Black Adder-þáttanna, með Jolie Richardson í hinu aðalhlutverkinu, og That Girl From Rio sem kemur væntanlega út þegar nær dregur jólum. Þar leikur hann bankaræningja sem ætlar að hefja nýtt líf með ástkonu sinni.

En Hugh vill miklu frekar tala um mótorhjólið sitt eða soulhljómsveitina sem hann spilar með. Ég ímynda mér að þessi virðulegi breski háðfugl sem lék yfirstéttarvitleysinginn Jeeves í þáttaröðinni Jeeves and Wooster geti ómögulega látið sjá sig á öðru en virðulegu gömlu Triumph eða BSA-hjóli.

"Nei, reyndar ekki, ég er á nýtískulegu straumlínulaga þýsku hjóli úr plasti. Ég átti allt þetta gamla dót, en þessi nýju hjól eru svo miklu betri, þau fara í gang, þau stoppa, og fara til hægri og vinstri þegar maður vill það og eru bara með allskonar hluti eins og t.d. bremsur sem eru frekar nauðsynlegir á mótorhjóli. Gamalt breskt hjól er dásamlegur gripur að eiga, en maður eyðir öllu lífinu með gírkassann í eldhúsvasknum og ég er of gamall fyrir svoleiðis."

Þú hefur líka dundað eitthvað við tónsmíðar, ekki satt?

"Jú, aðeins, ég he f samið nokkur grínlög fyrir sjónvarpsþætti en það sem mér finnst skemmtilegast er að hengslast með og í kringum tónlistarmenn. Ég er í tíu manna soulhljómsveit, ég spila á hljómborð og gítar og það er frábært að spila með alvöru tónlistarmönnum. Hljómsveitin heitir Poor White Trash, fullt nafn er Poor White Trash and The Little Big Horns en það kæmist aldrei fyrir á stuttermabol. Það eru mikil læti í okkur og við erum farnir að spila meira af okkar eigin lögum. Við byrjuðum á annarra manna lögum á borð við Mustang Sally og þvílíkt en núna erum við búnir að fá leiða á því og finnst okkar dót skemmtilegra."

Er tónlistin þá efst á vinsældalistanum hjá þér?

"Já, en ef það er eitthvað sem ég hef lært af tónlistarmönnum þá er það að þeim finnst ekkert gaman að vera tónlistarmenn. Um leið og maður fer að vinna við eitthvað er eins og það verði að kvöl og pínu, kannski erum við öll hundóánægð með okkar hlut. Ef ég gæti spilað eins og engill á saxófón myndi ég ekki gera neitt annað, en gæinn í hljómsveitinni tekur sólóið sitt og fer svo bara að lesa blaðið, fyrir honum er þetta bara skrifstofan."

Þú fórst ekki í leiklistarskóla er það?

"Nei, ég hef aldrei lært leiklist, ég veit ekkert um svoleiðis, ég veit ekkert um Stanislawsky, ég er ekki með neitt prófskírteini eða neitt, engin réttindi, ég stúderaði mannfræði í háskólanum. Það hefur ekki breytt miklu hvað minn feril snertir, held ég. Við byrjuðum með litla sýningu sem við fórum með á Edinborgarhátíðina og eftir það var okkur boðið að gera sjónvarpsþætti og þannig fór þetta allt af stað. Ég var aldrei með nein stór áform."