Leikmenn Stoke hafa undirbúið sig fyrir átökin á Wembley í London síðan á föstudag. Bjarni Guðjónsson er fremstur til hægri, fyrir aftan hann eru þeir Brynjar Björn Gunnarsson og Arnar Gunnlaugsson. Leikur Stoke og Bristol City verður sýndur beint á Sýn kl
Leikmenn Stoke hafa undirbúið sig fyrir átökin á Wembley í London síðan á föstudag. Bjarni Guðjónsson er fremstur til hægri, fyrir aftan hann eru þeir Brynjar Björn Gunnarsson og Arnar Gunnlaugsson. Leikur Stoke og Bristol City verður sýndur beint á Sýn kl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ er leikinn úrslitaleikur á Wembley-leikvanginum í London í dag. Þetta er ekki Úrslitaleikurinn, með stórum staf; þann leik spila Chelsea og Aston Villa síðla maímánaðar. Þennan úrslitaleik spila tvö lið úr 2. deild ensku knattspyrnunnar. Stoke, sem er í 6. sæti, og Bristol City, sem er í 9. sæti, miðað við stöðuna fyrir leiki laugardagsins þar sem bæði sátu að sjálfsögðu hjá. Þau standa eftir tvö af 48 liðum 2. og 3. deildar sem hófu bikarkeppni neðrideildarliðanna fyrr í vetur.

Þessi keppni hefur verið haldin lengi - frá 1984. Leikurinn í dag er 17. úrslitaleikurinn en til þessa hafa íslenskir áhugamenn um enska knattspyrnu látið sér keppnina í léttu rúmi liggja. Fæstir hafa vitað að hún væri til. Það var ekki fyrr en eftir að stórhuga íslenskir fjárfestar höfðu keypt meirihluta í Stoke City síðla árs 1999 að hún var nefnd að einhverju marki í íslenskum fjölmiðlum. Og ekki með stórum fyrirsögnum til að byrja með. En einhvern tíma um það leyti sem hún hófst sagði Guðjón Þórðarson um hana: "Allar leiðir sem liggja til Wembley eru góðar leiðir." Og þá leið hafa Guðjón og lærisveinar hans fetað í vetur, í hjáverkum með stóra verkefninu sem að sjálfsögðu er að reisa Stoke City til vegs og virðingar á ný með því að koma félaginu upp úr neðri helmingi ensku deildakeppninnar. En eins og Guðjón benti á í Morgunblaðinu í gær leikur þátttaka Stoke í þessum úrslitaleik stórt hlutverk í þeirri baráttu. Yfirtöku Íslendinganna á Stoke City á haustmánuðum var misjafnlega tekið á Íslandi, sem í ensku miðlandaborginni. Í dag er óhætt að segja að á báðum stöðum hafi stuðningsmönnum hennar fjölgað verulega. Allir aðilar tengdir Stoke sem ég hef rætt við fyrir úrslitaleikinn á Wembley eru á einu máli um að félagið hafi breytt um yfirbragð, bjartsýni hefur tekið við af svartsýni, og í borginni kraumar knattspyrnuáhuginn undir niðri eftir margra ára ládeyðu. Það sést best á því að Stoke City seldi alla 36 þúsund miðana sem félagið fékk fyrir úrslitaleikinn í dag. Íbúar Stoke setja það ekki fyrir sig að ferðast í nokkra klukkutíma á sunnudegi til að verða vitni að því þegar félagið þeirra leikur á þjóðarleikvanginum eina og sanna. Þetta fólk mun mæta á Britannia Stadium þegar Stoke kemst ofar í deildakeppninni.

Áhuginn stöðugt vaxandi

Á Íslandi fer áhuginn fyrir Íslendingaliðinu Stoke City stöðugt vaxandi. Í janúarmánuði sat ég á þétt setnum veitingastað í Kópavogi og horfði á Stoke sigra Preston. Mörkum Stoke, sérstaklega sigurmarkinu á lokamínútunum, var fagnað eins og mörkum íslenska landsliðsins gegn Frökkum. Meðal áhorfenda þá var æskufélagi minn sem þótti dálítið sérlundaður í gamla daga austur á fjörðum. Hann hélt nefnilega með Stoke City og háði vonlitla baráttu við okkur hina sem héldum með Derby County og fleiri stórliðum áttunda áratugarins. Hann brosti breitt þetta janúarkvöld. Nú er hann ekki lengur einn á báti, félagið hans hefur eignast þúsundir íslenskra stuðningsmanna. Þeim virðist fjölga stöðugt.

Sennilega á persónufylgi Guðjóns Þórðarsonar stærstan þátt í því hve miklu ástfóstri Íslendingar hafa tekið við þetta enska félag sem hefur ekki leikið í efstu deild í 15 ár. Eftir farsælan feril sem félagsþjálfari heima á Íslandi urðu persónuleg vandamál til þess að Skagamaðurinn hrökklaðist af þeim vettvangi, gegn vilja sínum. Sem nýr maður með breytta lifnaðarhætti tók hann við íslenska landsliðinu ríflega hálfu ári síðar. Þá sögu þarf ekki að rifja upp, eftir glæsilegasta árangur Íslands á alþjóðavettvangi nýtur Guðjón ákveðinnar lýðhylli. Hún er í raun lykillinn að öllu Stokeævintýrinu. Út í það var farið vegna þess að þeir sem að því stóðu höfðu tröllatrú á því að Guðjón væri maðurinn sem hægt væri að vinna með slíka landvinninga á enskri grund. Á aðeins 5 mánuðum hefur hann áunnið sér fylgi og traust í Stoke. Mister G, eins og hann er kallaður á þeim slóðum, er þegar orðinn afar vinsæll, bæði hjá þeim sem starfa mest hjá félaginu og hjá stuðningsfólki þess.

Það er ekki laust við að sumir hafi gert grín að þessu íslenska upphlaupi í ensku knattspyrnunni. Jafnvel í fréttatímum hefur verið gantast með keppnina sem lýkur með úrslitaleiknum á Wembley í dag. Leikur sem laðar að sér hátt í 80 þúsund áhorfendur er ekkert grín. Í þeim leik tekur þátt félag sem er í eigu Íslendinga, er með íslenskan knattspyrnustjóra, þrjá íslenska leikmenn í byrjunarliði og íslenskan sjúkraþjálfara á bekknum. Fyrir utan Wembley í dag verður íslenski fáninn til sölu, bolir með fánanum áprentuðum og fleira mun minna á litla Ísland, eyjuna sem er með jafnmarga íbúa og Meðal-Egilsstaðir í Englandi. Hundruð íslenskra knattspyrnuáhugamanna verða á meðal áhorfenda, fleiri en á nokkrum öðrum leik milli tveggja erlendra liða utan landsteinanna. Landkynningin er meiri en flestir hafa enn áttað sig á. Takist Stoke að sigra í dag, verður hún meiri en nokkurn órar fyrir.

Víðir Sigurðsson skrifar frá London