Á sunnudagskvöldum hittist fólk hjá Kristinu Wigren og syngur saman.
Á sunnudagskvöldum hittist fólk hjá Kristinu Wigren og syngur saman.
Álandseyjarnar eru 6.000 talsins en þær liggja milli Svíþjóðar og Finnlands. Anna S. Björnsdóttir heimsótti Kristínu Wigren sem rekur lítið kaffihús norðarlega á Álandseyjum.

HVAÐ vitum við Íslendingar um Álandseyjar, eyjarnar 6000, sem liggja milli Svíþjóðar og Finnlands. Það er aðeins nokkurra klukkutíma sigling milli Svíþjóðar og Álandseyja. Einnig er hægt að fara í lúxussiglingu frá Stokkhólmi að kvöldi, borða og dansa fram eftir nóttu og gista um borð í skipinu og ganga svo frá borði næsta morgun á land í Mariehavn. Íbúar eyjanna eru um 25.000 og eru þeir sænskumælandi, en tilheyra Finnlandi.

Kristina Wigren er ein þeirra eyjabúa sem ég kynntist síðastliðið sumar og hún rekur listakaffihúsið "Enebo" eða "Einbúann". Kaffihúsið stendur vel undir nafni vegna legu sinnar, langt frá öðrum húsum, inn á milli trjánna, við Donöveginn, norðarlega á Álandseyjum.

Þar er hún með útikaffihús, handlistabúð, lítið minjasafn og gistiaðstöðu sem hún hefur opna frá miðjum júní til loka ágúst.

Villiblóm í vösum

Það er sérstakt andrúmsloft í garðinum hennar Kristínu. Villiblóm standa í vösum á hverju borði og veitingarnar eru allar heimalagaðar. Kanilsnúðar, Álandspönnukökur sem eru engar pönnukökur, heldur eru þær eins konar eggjaskúffukökur með sultu og þeyttum rjóma. Einnig hefur hún á boðstólum saft, jurtate og kaffi og þegar fólk gistir hjá henni, er innifalinn morgunverður í verðinu sem er mjög í hóf stillt.

Kristina er lærður íþróttakennari, en fyrir tíu árum ákvað hún að láta gamlan draum rætast, um eigin rekstur. Kvaddi hún ævistarfið og hélt sína leið, á vit ævintýrsins og óvissunar.

Hálft árið, yfir sumartímann býr hún á Álandseyjum, en hálft árið, að vetrinum býr hún á blómaeyjunni Madeira, með útsýni yfir Atlantshafið. Þar tekur hún einnig á móti gestum, bæði í gistingu og í margs konar ferðir, ef fólk vill. Hún er mikil útivistarkona og nýtur þess að vera nálægt hafinu eða ganga upp á fjöllin og segir hún að kyrrð þeirra hafi mikil áhrif á sig, þar komist hún næst Guði. Hún er sérfræðingur í bútasaumi og saumar bæði dúka og rúmteppi og er vinnan á þessum hlutum alveg einstök. Peysurnar hennar, sem hún hannar sjálf, eru svo eftirsóttar, að hún hefur ekki undan að prjóna þær og verður fólk að panta þær með löngum fyrirvara. Einnig prjónar hún fallegar húfur.og annað smálegt og er verðið hjá henni mjög sanngjarnt á öllu sem hún selur. Eru vörur hennar til sýnis og sölu í einu húsanna á Einbúanum.

Eftirminnileg heimsókn

Það var eftirminnilegt að heimsækja hana í sumar. Kristína hvarf í smá stund, eftir að hafa borið okkur veitingar og fleiri gesti bar að garði. Allt í einu kom hún út úr húsinu í fallegum þjóðbúningi með harmonikku í fanginu. Hana langaði að bjóða mig, Íslendinginn, velkominn til Álandseyja með söng og harmonikkuleik. Þannig tekur hún á móti gestum.

Á borðunum í garðinum eru bækur með söngtextum og á sunnudagskvöldum hittist fólk hjá henni, oft frá öllum heimshornum og syngur saman. Einnig býður hún tónlistarfólki að flytja eigin tónlist fyrir gestina utan dyra, en mikil veðurblíða er á eyjunum yfir sumartímann og vaxa eplatré hvergi betur en þar. Það er gaman að vera Íslendingur á Álandseyjum.