HÁFJALLAVAGN er meðal nýjunga á sýningunni Vordagar Víkurvagna sem nú stendur yfir í Mjóddinni.

HÁFJALLAVAGN er meðal nýjunga á sýningunni Vordagar Víkurvagna sem nú stendur yfir í Mjóddinni.

"Við erum að byrja á innflutningi á tjaldvögnum frá fyrirtæki sem heitir Holtkamper en það er hollenskt-þýskt fyrirtæki," segir Páll Höskuldsson, sölumaður hjá Víkurvögnum. "Fyrirtækið hefur mikinn áhuga á að koma með sínar vörur á íslenskan markað og þetta er fyrsta skrefið. Vagnarnir eru sterkbyggðir og nýi tjaldvagninn þeirra heitir Highlander. Vagninn hefur fengið íslenska heitið háfjallavagninn en það er vagn sem er sérstaklega hannaður þannig að auðvelt sé að fara með hann á fjöll og í óbyggðir. Háfjallavagninn er búinn þeim eiginleikum að hann er mjög þéttur og þolir vatnsveður og rok vel.

Við erum aðallega með tjaldvagna frá Inesca, sem er spænskt fyrirtæki, en þeir eru jafnframt vinsælastir hjá okkur. Þetta eru vagnar eins og Monaco og Tirol. Þess má geta að þessir vagnar hafa allt frá árinu 1993 verið lagaðir að íslenskum aðstæðum," segir Páll.

"Eigandi fyrirtækisins kom með háfjallavagninn sérstaklega til landsins til að prófa hann. Hann er einmitt staddur hér á sýningunni til að kynna hann nánar fyrir áhugasömum. Allir vagnar og vörur sem við erum með á sýningunni eru á sérstöku tilboði. Sem dæmi um fleiri nýjungar á sýningunni má nefna svokallaða kælipoka eða kælitöskur sem eru frá Spáni og koma í stað kæliboxa. Þær eru miklu léttari og meðfærilegri og hægt er að pakka þeim saman, þetta er einfaldlega eins og taska en heldur innihaldinu vel köldu. Að auki eru á sýningunni sólstólar, borð og fleira sem hentar ekki einungis þeim sem eiga tjaldvagna heldur líka sumarbústaðaeigendum svo dæmi séu tekin.

Þess má geta að við framleiðum einnig jeppa- og fólksbílakerrur," segir Páll.