73 milljónir farþega fóru um O'Hare-flugvöllinn í Chicago í Bandaríkjunum á síðasta ári.
73 milljónir farþega fóru um O'Hare-flugvöllinn í Chicago í Bandaríkjunum á síðasta ári.
Alþjóðlegi flugvöllurinn Hartsfield í Atlanta bar sigurorð af O'Hare-flugvellinum í Chicago sem fjölfarnasti flugvöllur í heimi á síðasta ári. Í fyrsta sinn fór farþegafjöldi í heiminum yfir þrjá milljarða samkvæmt tölum frá alþjóðlega...

Alþjóðlegi flugvöllurinn Hartsfield í Atlanta bar sigurorð af O'Hare-flugvellinum í Chicago sem fjölfarnasti flugvöllur í heimi á síðasta ári. Í fyrsta sinn fór farþegafjöldi í heiminum yfir þrjá milljarða samkvæmt tölum frá alþjóðlega flugumferðarráðinu. Alls voru 909.911 flugtök og lendingar á Atlanta-flugvellinum sem er 7,4% aukning milli ára en O'Hare féll úr efsta sæti með 0,2% fækkun í 894.641 flugtök og lendingar. Farþegafjöldi var einnig mestur á Atlanta-flugvelli eða um 80 milljónir. O'Hare var aftur annar á lista með 73 milljónir farþega en Los Angeles-flugvöllur fylgdi næstur á eftir með 64 milljónir.

London fjölfarnasta borgin

Heathrow-flugvöllur í London var í fjórða sæti með 62 milljónir farþega, en ef farþegafjöldi flugvallanna þriggja í London; Heathrow, Gatwick og Stanstead er lagður saman fóru alls 102 milljónir farþega um bresku höfuðborgina á síðasta ári.

Þríeykið í New York; Newark, Kennedy og La Guardia, voru í öðru sæti með 90 milljónir farþega og flugvellirnir þrír í Chicago í þriðja sæti með 86 milljónir. Los Angeles var í fjórða sæti og þar á eftir komu París, Houston, Washington, Las Vegas, Nevada, Róm og Mílanó. Nær 1,4 milljarðar farþega fóru um flugvelli í Norður-Ameríku, sem er aukning um 3,9%, en 912 milljónir fóru um flugvelli í Evrópu, sem er 5,8% aukning.