FÓLK talar í dag um þá ógn sem af allskonar vímuefnum stafar og hvernig megi ná tökum á þessu mikla vandamáli allrar þjóðarinnar, en vill svo sjálft ekki fórna neinu henni til upprætingar.

FÓLK talar í dag um þá ógn sem af allskonar vímuefnum stafar og hvernig megi ná tökum á þessu mikla vandamáli allrar þjóðarinnar, en vill svo sjálft ekki fórna neinu henni til upprætingar. Reynslan sýnir okkur svart á hvítu að það er fullorðna fólkið sem heldur þessu ástandi við, sérstaklega með allskonar veisuhöldum og jafnvel heimilisdrykkju sem ekki er betra og finnst það alveg sjálfsagt. Ég hef fylgst með þessum málum alla mína ævi og ég er þess fullviss að ef vilji fullorðna fólksins væri til staðar væri hægt að reka þennan vágest af höndum sér, en á meðan vitibornir áhrifamenn í þjóðfélaginu heimta alltaf meira og meira frjálsræði í notkun áfengis og annarrar vímu, taka unglingarnir þá ekki alvarlega og það þýðir ekkert að tala um unglingavandann, meðan fullorðna fólkið hagar sér eins og það gerir. Ég man meira að segja eftir bannlögunum. Þau höfðu sitt að segja og þótt þau væru brotin eins og fullorðna fólkið talaði um, þá voru þau til mikilla bóta. Strax og heimtað var að flytja inn Spánarvínin (talið vegna viðskiptaaukningar) byrjaði ófögnuðurinn að vaxa um allt land. Það var talað um brugg og smygl og allt þar á milli, en það var aldrei minnst á hvort almenningur hefði þörf fyrir þetta eitur. Ég man líka að eftir tilkomu, þessarar undanþágu, óx drykkuskapur um allan helming og ég þarf ekki að minna á afleiðingarnar, hversu margir hreinlega misstu vitið og heilsuna og bruggið var aldrei meira. Þá kom hin ráma rödd aftur og heimtaði bjórinn og slóðina eftir hann er ekki erfitt að rekja. Þá hófst unglingadrykkjan og jafnvel oní skólabörn. Ég get alveg fullvissað þjóðina um það að allar tilslakanir í sölu áfengra drykkja eru henni til stórskaða. Við þurfum ekki langt að leita til að sjá það. Gísli Sigurðbjörnsson, sá mikli hugsuður, var ekki í vafa um afleiðingar áfengisins. Hann sagði eitt sinn við mig: Það þýðir ekki að ræða um þessi mál, meðan meðan áfengið og alls konar eiturefni flæða yfir landið og menn drekka frá sér vit, rænu og æru og þeir sem ættu að hafa vit fyrir fólkinu, finnst þetta allt í lagi og hjálpa til að strá þessu yfir landið. Valdhafarnir ganga þar á undan með illu fordæmi. Hann sagði líka að virðingarleysið fyrir öllu og öllum væri sú meinsemd sem væri í góðu gengi meðal ráðamanna landsins. Það þýðir lítið að hafa lögreglu eða ráðgjafa né veita stórfé í baráttuna við vímuefnin, meðan hræsnin er í öndvegi og ráðamenn sem mest tala um þennan skaðvald halda stórar veislur og bjóða öllum öllum í vímuna og hversu margir hafa ekki fallið í þessum veislum? Það er enginn vandi að ráða við vímuna bara ef fullorðna fólkið vill líta í eigin barm, hætta sjálft að nota allskonar vímuefni og vera þar fyrirmyndir barna sinna. En þá er spurningin. Vill fjöldinn vinna það til að hér ríki gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, ganga með einhug að verki, láta hræsnina hverfa og uppskera mesta auðæfi í landinu: Heilbrigða sál í hverjum hraustum líkama. En svona einfalt er þetta. Þá geta menn sungið fullum hálsi: Ég vil elska mitt land.

ÁRNI HELGASON,

Stykkishólmi.

Frá Árna Helgasyni: