[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VORIÐ er að smákoma á Klaustri og mönnum gengur veiðiskapurinn svona þokkalega, að sögn Sigmars Helgasonar veiðieftirlitsmanns á svæðinu. Miklir skaflar eru víða, en jörð annars að mestu auð og árnar komnar undan ís.

VORIÐ er að smákoma á Klaustri og mönnum gengur veiðiskapurinn svona þokkalega, að sögn Sigmars Helgasonar veiðieftirlitsmanns á svæðinu. Miklir skaflar eru víða, en jörð annars að mestu auð og árnar komnar undan ís. Helst hafa fréttir borist úr Geirlandsá og þar hefur veiðst vel þegar skilyrði hafa leyft. Fyrir skömmu var t.d. hópur að sögn Sigmars, sem dró 15 fiska á land, þar á meðal einn sem var 14-16 punda. "Þetta var svakabolti sem þeir fengu. Fiskurinn tók hjá þeim í Ármótunum og þar virðist vera mikill fiskur," sagði Sigmar.

En Sigmar var á því að fiskur væri víðar en neðst og hafði það eftir ekki ómerkari heimildarmanni en Ólafi bónda í Mörtungu, sem sagði vorið hafa verið svo kalt að fiskur myndi líklega enn vera í miklum mæli frammi í gljúfrum og lítið farinn að síga af stað til sjávar. "Hver veit nema maí verði óvenju veiðisæll," bætti Sigmar við.

Auk þessa hafa verið góð skot í Hörgsá, Skaftá og Eldvatni á Brunasandi, en þær ár eru ekki stundaðar alla daga. Veiði er ekki hafin í Tungulæk að sögn Þórarins Kristinssonar, eins eiganda hans, en hann taldi að veiði færi ekki í gang þar fyrir alvöru fyrr en í maí að þessu sinni.

Fluguhnýtingar 2000

Íslandsmeistaramótið í fluguhnýtingum árið 2000 er hafið og verða úrslit kunngjörð eftir miðjan maí næst komandi. Að sögn Ragnars Hólm Ragnarssonar, formanns Landssambands stangaveiðifélaga sameina flest allir sem að fluguhnýtingum koma á Íslandi krafta sína við þetta tækifæri, en yfirdómari mótsins verður Norðmaðurinn Jan Idar Löndal, fyrrverandi heimsmeistari í fluguhnýtingum. LS stendur að þessu móti í samvinnu við flestar af þekktustu veiði- og útivistarverslunum Reykjavíkursvæðisins, auk annarra.

Fluguþurrð í sumar?

Svo gæti farið að skortur verði á veiðiflugum í landinu á komandi vertíð nema að kaupmenn finni lausn á málinu áður en flóðbylgjan skellur á. Þórður Pétursson, einn þekktasti fluguhnýtari og fluguhönnuður landsins sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði eftir ýmsum í kaupmannastéttinni að þeir óttuðust þetta nokkuð. Ástæðan er sú, að Kristján Gíslason, fyrrum verðlagsstjóri og fluguhnýtari með meiru er nú látinn. "Kristján var svo umsvifamikill að skarðið verður vandfyllt," sagði Þórður.

Laxaflugur á Netinu

Ef menn rata inn á slóðina www.frances.is getur þar að líta póstverslun með laxaflugur. Sá sem stendur að þessari búð er dr. Jónas Jónasson, vel þekktur fluguhnýtari hér á landi, einnig leiðsögumaður erlendra veiðimanna og snjall stangaveiðimaður. Þekktastur er Jónas fyrir útfærslur sínar af hinni bráðdrepandi flugu Frances, sem gaf meðal annars 470 af 1128 flugulöxum úr Norðurá á síðasta sumri. Jónas býður bæði upp á Frances og aðrar flugur í ótal útfærslum og er það boðað að í framtíðinni muni margs konar fróðleikur um stangaveiði almennt bætast við síðuna.