Gullfallegar barnateikningar eru meðal sýningarefnisins.
Gullfallegar barnateikningar eru meðal sýningarefnisins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opið alla daga frá 13-17 og á fimmtudögum til kl. 21. Aðgangur ókeypis. Veggspjald 100 krónur.

ÞAÐ er sérstæð og sérkennileg sýning uppi í fyrrum og til langs tíma húsakynnum Myndlistaskóla Reykjavíkur, sem nú er fluttur burt, en Borgarskjalasafn inn. Sérstæð á nýrri öld vegna þess að hún tekur fyrir efni sem ekki hefur verið ræktað nægilega og sérkennileg vegna vinnubragðanna við uppsetningu hennar sem minna helst á skólasýningar um og eftir miðbik síðustu aldar. Er líkast sem tíminn hafi staðið kyrr og svipar um sumt til viðamikillar skólasýningar í öllum Miðbæjarskólanum 1958, sem ég átti örlítinn þátt í að setja upp. Efniviðurinn sem menn höfðu milli handanna svo yfirgripsmikill og spennandi að þeim hefur verið mikill vandi á höndum sem stóðu að uppsetningu hennar og skipulagi. En einmitt þessi fjölþætti efniviður gerir sýninguna heimsóknar virði, einkum fyrir fólk sem man þessa tíma, sem í tækniveröld dagsins virðast órafjarri, en eru þó í mörgum skilningi einungis núliðin tíð. Tók raunar einnig eftir því í tveim heimsóknum mínum að mun yngra fólk skoðaði sýninguna af stakri athygli og virtist eitt og annað úr fortíðinni vekja drjúga kátínu þess. Innst í salnum er mjög áhugavert myndband, gert uppúr kvikmynd er segir af heilsugæslu og skólalífi í Miðbæjarskólanum 1948, þar var að verki S. Sörensson undir stjórn Jónasar B. Jónssonar, og er þetta eina tilvikið þá nútíminn er að hluta til með í spilinu, en að öðru leyti er sýningin afar strembin og tímafrek eigi hún að komast til skila.

Helst sækja því miður hinir miklu og vannýttu möguleikar á, sem við blasa úr hverju horni, því að ekki þarf mikinn kunnáttumann til að sjá að hér var fyrir hendi efniviður í stórmerkilega sýningu ef rétt hefði verið að málum staðið. Sýningu sem hefði jafnvel getað fært framkvæmdaraðilum drjúgan skilding í lófa þótt kostað hefði verið margfalt meira til hennar, undirbúningur vandaðri og öll nútækni tekin í gagnið. Þrátt fyrir öll þessi tækniundur sem landinn er svo snöggur að gína yfir virðist ýmislegt mæta afgangi sem aðrar þóðir hafa fyrir löngu komið auga á og tekið í þjónustu sína. Hér hefði þurft fleiri og stærri myndskjái og viðvarandi áherslustígandi, þ.e. ýmislegt dregið sérstaklega fram með stærra letri/myndum og aðeins þetta tvennt hefði gert sýninguna til muna skilvirkari og margfalt áhugaverðari. Svo hefði auðvitað mátt koma fram í sérstökum bás hvernig þesslags sýningar voru settar upp fyrir margt margt löngu svona til samanburðar. En fyrir fólk sem vill rifja upp gamla tímann og ungum til fróðleiks um frumstæð vinnubrögð á árum áður, sautján hundruð og súrkál, er sýningin hin áhugaverðasta sé hún skoðuð í kjölinn.

Framkvæmdin er hluti af dagskrá Reykjavík -menningarborg Evrópu árið 2000, eins og stendur á fjörlegu og einkennandi veggspjaldi sem gefið hefur verið út í tilefni sýningarinnar, en hins vegar var engin sýningarskrá sýnileg. Ekki björgulegt í heildina skyldi þetta einkennandi dæmi um metnaðinn varðandi hlut sjónrænna mennta á dagskránni, því hér er lifað í krukku en ekki lukku

Bragi Ásgeirsson