MARC Willem, yfirmaður upplýsinga- og útgáfumála hjá CEDEFOP, miðstöð Evrópusambandsins um þróun starfsmenntunar, verður staddur hér á landi mánudaginn 17. apríl.

MARC Willem, yfirmaður upplýsinga- og útgáfumála hjá CEDEFOP, miðstöð Evrópusambandsins um þróun starfsmenntunar, verður staddur hér á landi mánudaginn 17. apríl. Hann mun kynna starfsemi miðstöðvarinnar og hagnýti hennar fyrir starfsmenntun á Íslandi á opnum fundi MENNTAR - samstarfsvettvangs atvinnulífs og skóla. Fundurinn fer fram í Menntaskólanum í Kópavogi kl. 9-12.30 mánudagmorguninn 17. apríl.

GEDEFOP var stofnað árið 1975 samkvæmt ákvörðun Ráðherraráðs Evrópusambandsins og hefur síðan unnið að eflingu og þróun starfsmenntamála í Evrópulöndunum. Starfsemi CEDEFOP snýst einkum um söfnun og miðlun upplýsinga um lög og reglugerðir, stefnumótun, stöðu og uppbyggingu starfsmenntakerfa og -greina, rannsóknir og annað er snertir þróun starfsmenntunar í Evrópu. Einnig stendur CEDEFOP fyrir námsferðum þar sem einstaklingum sem vinna að þróun starfsmenntunar gefst kostur á að kynna sér starfsmenntakerfi annarra landa.

Menntamálaráðuneytið hefur gert samkomulag við MENNT - samstarfsvettvang atvinnulífs og skóla um að taka að sér hlutverk tengiliðar á Íslandi við CEDEFOP. Þátttaka Marc Willems í fundi MENNTAR mánudaginn 17. apríl markar upphaf þessa samstarfs.