Á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní 1911 var mikið um dýrðir í Reykjavík og margt um manninn á götum bæjarins. Þar á meðal nokkrar blómum skreyttar lystikerrur sem Hringskonur gerðu út til sölu á vorblómum, barmmerkjum á 10 aura stykkið. Hér má sjá ei
Á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní 1911 var mikið um dýrðir í Reykjavík og margt um manninn á götum bæjarins. Þar á meðal nokkrar blómum skreyttar lystikerrur sem Hringskonur gerðu út til sölu á vorblómum, barmmerkjum á 10 aura stykkið. Hér má sjá ei
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hringurinn, félag reykvískra kvenna, hefur nánast fylgt öldinni - í fyrstu 1904-1906 sem skemmtiklúbbur, þá berklavarnafélag til 1942 og síðan stuðlað að því að barnaspítali risi. Frásögn af þessu starfi félagsins er væntanleg á bók en Björg Einarsdóttir vinnur nú að ritun sögunnar.

Tilefni stofnunar Hringsins er heit sem Kristín Vídalín Jacobson strengdi er hún lá fárveik á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn veturinn 1894-1895.

Kristín var fædd 1864 í Víðidalstungu í Vestur-Húnavatnssýslu og átti til efnaðra að telja; hún var góðum gáfum gædd og listfeng. Á yngri árum dvaldist hún um skeið í Englandi og af og til í Kaupmannahöfn uns hún frá vori 1891 bjó þar í nokkur ár. Nam hún myndlist meðal annars í Listaakademíu kvenna sem var undir verndarvæng Lovísu drottningar Kristjáns IX. Mun Kristín vera fyrsta íslenska konan er stundar listnám við æðri skóla.

Í spítalalegunni mátti hún horfa upp á veikt fólk hrekjast af sjúkrahúsinu svipt hjúkrun, læknishjálp og lyfjum. Sjálfri voru henni veikindin þungbær þótt hún þyrfti ekki samfara þeim að hafa fjárhagsáhyggjur. Hét hún sjálfri sér því ef henni auðnaðist líf og heilsa að verða þeim að liði sem stríddu við veikindi og fátækt í ofanálag. Með frumkvæði sínu að stofnun Hringsins 26. janúar 1904 efnir hún það heit.

Stofnfundurinn var í sal Hússtjórnarskólans uppi í Iðnó og voru 46 konur mættar til leiks. Kristín, sem þá var gift Jóni Jacobson landsbókaverði og hafði eignast fjögur börn, tók við forystu í félaginu og var formaður þess til dánardægurs vorið 1943. Félagsheitið mun taka mið af danska félaginu Cirklen er þá var starfandi í Danmörku, klúbbur kvenna með menningarlegu sniði. Í Hringnum í Reykjavík hafa alls starfað um 800 konur.

Hringurinn er fyrstu skipulögðu samtök hér á landi um varnir gegn berklaveiki og öflun fjár varð fljótt meginverkefni félagskvenna; voru til þess farnar tiltækar leiðir. Nefna má árlega leikstarfsemi 1905-1928 og fjölmennar útihátíðir í Hljómskálagarðinum á fimmta tug aldarinnar; basara, happdrætti, útgáfu jólakorta og ýmiss konar skemmtanir.

Frá upphafi var fastmótuð stefna varðandi fjármál hjá Hringnum. Inntökugjöld og árgjöld mynduðu sjóð til að standa straum af daglegum rekstri félagsins. Aflafé skyldi öllu skipt til helminga, annars vegar í fastasjóð til síðari tíma verkefna og hins vegar líknarsjóð til úthlutunar jafnóðum eftir þörfum.

Úr líknarsjóðnum var þegar á fyrsta ári tekið að veita styrki til berklasjúklinga heima eða á spítala og eftir að heilsuhælið á Vífilsstöðum tók til starfa 1910 var greitt með sjúklingum þar. Þessi sjóður var virkur með ýmsum hætti allt til ársins 1942 er hann verður Barnaspítalasjóður Hringsins.

Varðandi fastasjóðinn láta Hringskonur þess fyrst getið opinberlega 1910 að framtíðarverkefni félagsins sé að koma upp hressingarhæli fyrir þá sem útskrifist af berklahæli en eru ekki færir um þegar í stað að hverfa að almennum störfum. Með tilkomu nýrra laga 1921 er legukostnaður berklasjúklinga tryggður að hluta úr opinberum sjóðum. Meginverkefni félagskvenna verður þá að koma upp hressingarhælinu; þær fá heimild Alþingis fyrir afgjaldslausri ábúð á þjóðjörðinni Kópavogi í Seltjarnarneshreppi og reisa þar hús í því skyni. Fastasjóðurinn var þá 40 þúsund krónur en uppkomið kostaði hælið 75 þúsund.

Í nóvember 1926 er Hressingarhæli Hringsins í Kópavogi vígt og það starfrækt af félaginu til 1. janúar 1940 er það var afhent ríkinu endurgjaldslaust. Til jafnaðar dvöldust þar 25 vistmenn en í allt um 400 manns og heildardagafjöldi þeirra um 121.500. Læknisþjónustu á hæli Hringskvenna var sinnt frá Vífilsstaðahæli og lengst af Helga Ingvarssyni. Árin 1931-1948 starfrækja Hringskonur búskap á Kópavogsjörðinni og annast bústjóri um daglegan rekstur en formaður félagsins er framkvæmdastjóri hælis og bús. Hringurinn selur ríkinu búið og segir lausri ábúð jarðarinnar sem þá hefur að stórum hluta verið tekin undir þéttbýli og nýtt hreppsfélag, Kópavogshreppur, tekið við.

Frá 1942 hefur allt starf Hringskvenna hnigið að eflingu Barnaspítalasjóðsins og varð það þeim, líkt og fleirum er veltu lausafjármunum á eftirstríðsárunum, þolraun að sjá fjármagn, er mikið erfiði hafði kostað að afla, rýrna í verðbólgunni sem þá geisaði.

Markmið Hringsins viðvíkjandi barnaspítala er að í tengslum við Landspítala rísi bygging sérhönnuð sem sjúkrastofnun fyrir barnalækningar með fullkomna inni- og útiaðstöðu. Nokkrir áfangar hafa verið á þeirri leið sem Hringurinn hefur átt hlut að: Barnadeild í rishæð Landspítalans 1957; Barnaspítali Hringsins á tveimur hæðum í nýrri álmu 1965; Geðdeild Barnaspítala Hringsins við Dalbraut 1970; Vökudeild við Kvennadeild Landspítalans 1976 fyrir nýbura er þurfa sérstaka meðferð og eftirlit. Í áranna rás hafa Hringskonur eflt tækjakost barnaspítalans, styrkt fagfólk til sérnáms og börn til lækninga erlendis þegar þörf krafði.

Nýr barnaspítali er kominn á verkefnaskrá heilbrigðisyfirvalda og vinna hafin við húsgrunn á Landspítalalóð.

Hringskonum er ljóst að fjármagn er afl þeirra hluta sem gera skal. Því er það að enda þótt einn þáttur félagsstarfsins hafi ævinlega staðið til menntunar og menningar hefur tekjuöflun verið meginþáttur í allri vinnu félagskvenna. Af því er mikil starfssaga sem seint verður fullsögð. En sérstakur þáttur á ævi Hringsins er innra starfið og félagsandinn, gleðin og vináttan sem skapast þegar keppt er sameiginlega að settu marki. Hefur sú samvera öll verið gefandi.

Öflun heimilda fyrir rit um Hringinn í Reykjavík er tímafrek því heimildir framan af árum hafa farið forgörðum. Samhliða rituðu máli er víðtæk söfnun mynda í gangi og er heitið á hvern sem þar getur lagt lið að láta til sín heyra. Hér eru birtar nokkrar myndir sem verið er að nafngreina og hvert nýtt nafn sem kemur til skjalanna er mikils virði sem heimild.