Lögregla fylgist með mótmælendum nálægt höfuðstöðvum Alþjóðabankans í gær. Fulltrúar sjö helstu iðnríkja heims munu m.a. fjalla um hugsanlegar breytingar á starfsemi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Lögregla fylgist með mótmælendum nálægt höfuðstöðvum Alþjóðabankans í gær. Fulltrúar sjö helstu iðnríkja heims munu m.a. fjalla um hugsanlegar breytingar á starfsemi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
VERÐFALL á hlutabréfamörkuðum setti mark sitt á fund fulltrúa sjö helstu iðnríkja heims sem hófst í Washington á laugardag en lögregla hefur einnig mikinn viðbúnað í borginni vegna fjölda mótmælenda sem þangað er kominn í tengslum við fundinn.

VERÐFALL á hlutabréfamörkuðum setti mark sitt á fund fulltrúa sjö helstu iðnríkja heims sem hófst í Washington á laugardag en lögregla hefur einnig mikinn viðbúnað í borginni vegna fjölda mótmælenda sem þangað er kominn í tengslum við fundinn. Mótmælendur beina spjótum sínum einkum að stefnu og starfsháttum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og Alþjóðabankans (World Bank) en fulltrúarnir munu m.a. ræða áætlun um endurskoðun á skipulagi þessara stofnana.

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Lawrence Summers, sagði í viðtali við CNN-sjónvarpsstöðina á föstudag að bandarískt efnahagslíf stæði enn traustum fótum þrátt fyrir ástandið á hlutabréfamörkuðunum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði nýlega við því að efnahagslífi heimsins stafaði hætta af verðfalli hlutabréfa í Bandaríkjunum. Summers sagði í viðtalinu við CNN að samkeppnishæfni bandarísks atvinnulífs og sú stefna stjórnarinnar að greiða niður skuldir hins opinbera boðuðu gott fyrir framtíðina.

Þúsundir mótmælenda eru nú taldar vera komnar til Washington og hefur fólkið m.a. hótað því að varna fulltrúum á fundi iðnríkjanna sjö inngöngu í byggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Á föstudag sturtuðu mótmælendur kúamykju á stétt fyrir framan höfuðstöðvar Alþjóðabankans, sem eru steinsnar frá Hvíta húsinu. Mótmælendur telja að fátækari þjóðir heims hafi ekki fengið sanngjarnan skerf af hnattvæðingu efnahagslífsins og kenna m.a. alþjóðastofnunum um. Yfirvöld í Washington hafa heitið því að koma í veg fyrir að mótmælin nái að trufla fundahöldin á sama hátt og raunin varð á fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Seattle á síðasta ári.

Nauðsynleg "leiðrétting"?

Á föstudag féllu hlutabréf í Bandaríkjunum mikið í verði, einkum hlutabréf í hátæknifyrirtækjum. Talið er að verðlækkun fyrirtækja í Bandaríkjunum hafi alls numið að minnsta kosti eittþúsund milljörðum Bandaríkjadollara, jafnvirði um 73.000 milljarða íslenskra króna. Aðalvísitala Nasdaq-kauphallarinnar í New York féll um 9,7% og hefur aldrei lækkað meira á einum degi. Hlutabréf lækkuðu einnig mikið í verði í kauphöllinni á Wall Street (NYSE). Þar lækkaði Dow Jones-hlutabréfavísitalan um 5,6%. Er óttast að áhrifa af verðfallinu í Bandaríkjunum muni gæta á hlutabréfamörkuðum í Evrópu þegar þeir verða opnaðir á mánudag.

Margir skýrendur telja að verðfallið hafi verið nauðsynleg "leiðrétting" og muni þegar fram í sækir verða til góðs. Verðið hafi verið orðið allt of hátt skráð og væntingarnar allt of miklar, sérstaklega að því er varðar netfyrirtæki. Lækkunin muni leiða til þess að þau fyrirtæki sem byggjast á raunhæfum viðskiptahugmyndum muni lifa af en önnur hverfa úr sögunni.

Sumir skýrendur benda á að sérstaklega hafi verið of miklar vonir bundnar við vöxt netverslana. "Hveitibrauðsdagar netverslunarinnar eru taldir," er haft eftir Joe Sawyer, bandarískum sérfræðingi um hlutabréfamarkað. Hann hefur birt skýrslu þar sem hann spáir því að meirihluti þeirra netverslana sem nú hafa starfsemi muni leggja upp laupana innan árs.

Washington, New York. AP, AFP.