Ég sagði við Gunnlaug: "Þú hefur alltaf haldið trúnaði við æskuáhrifin, og kynni af heimslistinni hafa þar engu um breytt." "Nei," svaraði Gunnlaugur.

Ég sagði við Gunnlaug:

"Þú hefur alltaf haldið trúnaði við æskuáhrifin, og kynni af heimslistinni hafa þar engu um breytt."

"Nei," svaraði Gunnlaugur. "Áður en ég fór utan, sá ég dálítið af list hér heima, eins og ég hef sagt þér, málverk á veggjum, bækur í skápum. Á Seyðisfirði gat ég farið í bókasafn og náð mér í sitthvað um list. Hún lá þar grafin í bókum í hillunum. Þegar ég var á Hofi í Vopnafirði, sá ég fyrst myndir eftir Titian, Rafael og Rembrandt. Ég var náttúrlega fullur af hrifningu og sá, að ég var kominn í snertingu við heimsmenninguna. Og þegar ég kom til Reykjavíkur vissi ég þó nokkuð um list, t.d. að Titian hefði verið til. Það var þá ekki ómerk vitneskja fyrir strák, sem hafði verið að beita bjóð og stokka upp línur. En strax og ég sá myndirnar eftir Spánverjana, þótti mér þær betri en allt annað.

Þegar ég sigldi til Kaupmannahafnar, hafði skipið viðdvöl í Osló og Leith og þar sá ég listasöfn, hin fyrstu sem urðu á vegi mínum. Sumt af því, sem ég sá svo í Kaupmannahöfn, þótti mér skemmtilegt, ekki sízt tvær stórar franskar málverkasýningar. Og þegar ég skrapp til Berlínar á námsárunum og sá myndir eftir gömlu meistarana og franska málara, varð ég fyrir áhrifum, sem ég bjó lengi að.

Þegar ég byrjaði að mála, var ég hjálparvana, málaði oftast litlar myndir, landslag, sjó og báta, - og snemma fólk. Ég hef alla tíð haldið mig við sama efnið, og verkið hefur gengið betur með reynslu og æfingu. Viðhorf mitt til listarinnar breyttist mikið eftir síðari heimsstyrjöldina. Þá tók allt stakkaskiptum, einnig listin. Andrúmsloftið varð annað. Nýja listin eða sú abstrakta, fór að berast hingað og mér þótti margt af henni skemmtilegt, en féll þó aldrei í stafi - eða hún hafi hrifið mig, nei. Kandinsky og Mondrian voru að vísu miklir brautryðjendur og oft vitnað í það, sem þeir sögðu eða skrifuðu um list, en ég held lítið upp á þá, held meira upp á þá, sem komu síðar eins og Léger, Picasso og Miro. Þeir, ásamt Juan Gris, Chagall og nokkrum öðrum, hafa gefið myndlistinni líf og lit á þessari öld. Litsýn eða smekkur margra súrrealista eru skemmtileg mótsetning við yndisþokkann í litum sumra áður nefndra málara. Tassisminn, sem við höfum áður minnzt á, er oft ágætur, mikil litadýrð, mjúk og fín - minnir ofurlítið á impressjónismann. Annars er margt hversdagslegt af þessu, sumt skrýtið. Og svo er það poppið - mér finnst það muni þurfa andlegan styrk til að meðtaka það.

En ég er enginn púrítani í list. Ég hef aldrei haft reglulegt uppáhald á abstraktlistinni, finnst að vísu nokkrir listamenn í þeim dúr hafi gert mjög góðar myndir, en þeir eru mjög fáir - og þá einna helzt þeir, sem hafa aldrei gengið þessari stefnu algjörlega á hönd, eða þjónað undir hana, heldur hinir, sem hafa haft gagn af henni og kunnað að velja og hafna."

"Þú hefur einmitt sjálfur valið og hafnað."

"Ég held ég hafi lítið sótt til abstraktlistar, kannski ekki neitt. Mig minnir að franskur listamaður hafi sagt, að abstraktsjón sé hluti af listinni. Fyrir mér er abstraktsjón ekki listin sjálf, hún er í allri myndlist. Það fyrsta, sem maður vinnur með, þegar mynd er máluð, er stærð hennar, þ.e. hlutfallið milli lengdar og breiddar. Og allt annað í myndinni hlýtur að lúta því. Þetta hlutfall er auðvitað abstraktsjón. Það er ekki til í náttúrunni. Við skulum segja þetta svona: ef einhver fer út og málar mynd af fjalli, kemst hann ekki hjá því að velja fjallinu einhvern ákveðinn stað í málverkinu. Það er abstraktsjón, því að hann velur staðinn með tilliti til hæðar og lengdar myndarinnar. Hann gerir sér kannski ekki grein fyrir því sjálfur. Þetta er bara einhver tilfinning fyrir hlutföllum og skipulagningu. Svona vinna allir málarar ósjálfrátt. Þannig er abstraktsjónin hluti af eðli mannsins."

M.