Þorri Hringsson myndlistarmaður eldaði þennan rétt í þættinum Eldhús sannleikans sem sýndur var í sjónvarpinu s.l. föstudag.

Þorri Hringsson myndlistarmaður eldaði þennan rétt í þættinum Eldhús sannleikans sem sýndur var í sjónvarpinu s.l. föstudag.

Pönnusteiktur karríþorskur með Sauternessósu og hvítlauks-konfit

(uppskriftin er miðuð við fjóra)

4 hnakkastykki úr þorski hvert um sig ca. 175-200 g

1/2 bolli ólífuolía

ca. 3 tsk. milt karrí, t.d. madras

20 stk. ferskir tímíankvistir

sólblómaolía til steikingar

150 g kantarellur

25 g ósaltað smjör

salt

hvítlauks-konfit:

10-15 hvítlauksrif í hýði

ólífuolía svo fljóti yfir hvítlauksrifin

2 lárviðarlauf

2 tímíankvistir

sauternessósa:

4 shallot-laukar afhýddir og mjög fínt saxaðir

4 ætisveppir mjög fínt saxaðir

100 g ósaltað smjör

185 ml sauternes (sætt hvítvín)

100 ml kjúklingasoð

100 ml fiskisoð

150 ml rjómi

1. Gerið hvítlauks-konfit deginum áður - eða a.m.k. nokkrum klst. áður.

2. Hitið ólífuolíuna í litlum potti þar til hún verður 90 gráður. Setjið þá lárviðarlaufin, tímíankvistina og hvítlaukinn útí. Hitið olíuna aftur uppí um 80 gráður og eldið við þennan hita í 20-30 mínútur.

3. Athugið eftir u.þ.b. 25 mínútur hvort hvítlaukurinn er orðinn mjúkur og ef svo er, takið pottinn þá af hellunni og leyfið hvítlauknum að kólna í olíunni.

4. Þegar bera á hvítlaukinn fram er hann tekinn úr olíunni og hitaður í stuttan tíma á þurri pönnu eða potti.

5. Djúpsteikið tímíankvistina í meðalheitri olíu í nokkrar sekúndur og látið síðan á eldhúsrúllu til að hún drekki í sig fituna. Kvistirnir eiga að vera stökkir. Þetta er hægt að gera 30-40 mínútum áður en rétturinn er borinn fram.

6. Blandið saman ólífuolíunni og karríinu og penslið þorskinn með að utan.

7. Hreinsið kantarellurnar og látið krauma í smjörinu við frekar lágan hita í ca. 15 mín. Saltið lítillega og haldið heitu þar til bera á réttinn fram.

8. Gerið sauternes-sósuna. Kraumið shallot-laukinn og sveppina í ca. 15 g af smjöri þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Brúnið ekki. Bætið sauternes-víninu útí, hækkið hitann og sjóðið niður um helming. Gerið það sama við kjúklinga- og fiskisoðið. Bætið rjómanum útí og látið sjóða létt í 2 mínútur en hellið þá sósunni í gegnum sigti ofan í lítinn pott. Hrærið afganginum af smjörinu í sósuna yfir lágum hita og í litlum bitum. Saltið og piprið eftir smekk. Takið af hitanum og hitið svo varlega upp stuttu áður en rétturinn er borinn fram.

9. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið þorskinn í u.þ.b. 4 mínútur á hvorri hlið. Saltið lítillega.

10. Þegar rétturinn er borinn fram er þorskstykki sett á miðjan diskinn og 3-4 matsk. af sósu í kring. 3-4 hvítlauksrif og 2 matsk. af kantarellum raðað fallega á diskinn og að lokum skreytt með djúpsteiktu tímíankvistunum.

Með þessu er gott að bera fram góðan og ekki of kaldan Chardonnay.