Þjófavarnakerfi Borgarbókasafns svipar til þess kerfis sem er við útgöngudyr margra verslana.
Þjófavarnakerfi Borgarbókasafns svipar til þess kerfis sem er við útgöngudyr margra verslana.
TÆPLEGA 4.000 eintök af hverskyns gögnum útibús Borgarbókasafns í Gerðubergi hafa glatast síðastliðin fjögur ár, þar með talin blöð og bækur safnsins.

TÆPLEGA 4.000 eintök af hverskyns gögnum útibús Borgarbókasafns í Gerðubergi hafa glatast síðastliðin fjögur ár, þar með talin blöð og bækur safnsins. Nýlega var sett upp þjófavarnakerfi í Gerðubergi til að stemma stigu við rýrnun gagnanna sem er um 1% á ári eða tæplega 1.000 eintök. Útibúið í Gerðubergi er þriðja útibú Borgarbókasafns sem útbúið er með þjófavarnakerfi en fyrir var þjófavarnakerfi í Sólheimasafni og Foldasafni í Grafarvogi, þar sem rýrnunin var álíka mikil.

Einstaklingar stela gögnum af söfnunum

Að sögn Erlu K. Jónasdóttur, safnstjóra aðalsafns Borgarbókasafns, má að sumu leyti rekja rýrnun bókakosts Borgarbókasafns til þess að bækur og blöð eyðileggjast af eðlilegum orsökum en afskráning þeirra misferst.

"Það er hins vegar ljóst að meirihluti gagnanna hverfur vegna þess að þeim er stolið af söfnunum. Þar er um að ræða einstaklinga sem hafa ekki keypt sér bókasafnsskírteini og stela þess í stað bókum eða öðrum lánsgögnum," segir Erla.

Hún segir erfitt að átta sig á því hve miklir fjármunir glatast árlega vegna rýrnunar í söfnunum enda er meðalverð hvers safngagns ekki auðfundið þar sem gögnin eru misgömul og verðmæti þeirra breytilegt. "Við þurfum hins vegar að finna eitthvert meðalverð og við síðustu eignatalningu notaði ég 1.500 krónur til viðmiðunar á hvert gagn og út frá því ætti að vera unnt að sjá í hendi sér árlegan fórnarkostnað vegna rýrnunar í hverju útibúi."

Stofnkostnaður við uppsetningu þjófavarnakerfisins er um 1.700 þúsund krónur í hverju útibúi en Erla segir að ef miðað sé við að safngögn í hverju útibúi glatist fyrir tæplega 1,5 milljónir króna á ári megi reikna með að þjófavarnakerfið borgi sig upp á 1-2 árum.

Sett verður upp þjófavarnakerfi í Bústaðasafni, sem flyst í Kringluna á næsta ári, og safn Borgarbókasafnsins, sem flyst í Grófarhúsið við Tryggvagötu 15 í sumar. Þar verða Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Borgarskjalasafn einnig til húsa.