KAUPFÉLAG Eyfirðinga hagnaðist um hálfan milljarð króna með sölu á 20% hlut sínum í Húsasmiðjunni, að því er fram kom í máli Eiríks S. Jóhannssonar kaupfélagsstjóra á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær.

KAUPFÉLAG Eyfirðinga hagnaðist um hálfan milljarð króna með sölu á 20% hlut sínum í Húsasmiðjunni, að því er fram kom í máli Eiríks S. Jóhannssonar kaupfélagsstjóra á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær.

Húsasmiðjan keypti á síðasta ári byggingavörudeild KEA á Lónsbakka og eignaðist KEA við það 20% hlut í Húsasmiðjunni hf. Hlutabréfin voru seld Íslandsbanka fyrr á þessu ári og nam söluhagnaður KEA um hálfum milljarði króna.

Viðræður við Skagfirðinga

Eiríkur greindi frá því á fundinum að innan tíðar myndi Kaupfélag Eyfirðinga gefa út nýtt greiðslukort í samvinnu við Visa Ísland. Um verður að ræða eins konar tryggðarkort og er markmiðið með útgáfu þess að tengja félagsmenn KEA með viðskiptalegum hætti við félagið sem og að örva viðskipti, en handhöfum kortsins munu bjóðast margvísleg hagstæð kjör hjá verslunum félagsins.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður sagði á fundinum að viðræður hefðu að undanförnu staðið yfir milli forsvarsmanna félagsins og Kaupfélags Skagfirðinga um samvinnu þessara tveggja kaupfélaga og væri einlægur vilji til þess að auka samstarf þeirra á næstu misserum.