FÓLKI á biðlistum heilbrigðisstofnana hefur fjölgað lítillega í vetur. Samkvæmt yfirliti landlæknisembættisins voru 7.229 á biðlistum í janúar og febrúar en 6.988 í október síðastliðnum.

FÓLKI á biðlistum heilbrigðisstofnana hefur fjölgað lítillega í vetur. Samkvæmt yfirliti landlæknisembættisins voru 7.229 á biðlistum í janúar og febrúar en 6.988 í október síðastliðnum. Lítilsháttar fjölgun hefur orðið á biðlistum frá 1997 en það ár nærri tvöfaldaðist fjöldi þeirra sem biðu eftir lækningu.

Flestir eru á bliðlistum bæklunardeilda, 977, en á þeim lista hefur heldur fækkað á undanförnum árum. Þannig biðu 1.169 í október sl. og 1.458 fyrir þremur árum. Mesta breytingin er á Landspítala, Fossvogi, en þar hefur sjúklingum á biðlista fækkað um helming á fjórum árum.

Erfiðara að fá hjartaþræðingu

Talsverð bið er einnig á almennum skurðdeildum þar sem 930 eru á biðlista, háls-, nef- og eyrnadeildum þar sem 907 bíða, á endurhæfingardeildum, 708 manns, og kvensjúkdómadeildum þar sem 655 bíða lækningar.

Biðlisti eftir hjartaþræðingu hefur stöðugt lengst frá árinu 1996. Þá biðu 158 en nú bíða 252 eftir aðgerð. Frá síðustu athugun á biðlistum hjartadeildanna, í október á síðasta ári, hefur nokkuð fjölgað á listanum, eða um 37 sjúklinga. Landlæknisembættið telur að um geti verið að ræða árstíðabundna sveiflu þar sem biðlistinn nái hámarki á þessum tíma árs en sé oftast í lágmarki á haustin. Þess er getið að fjöldi hjartaþræðinga á Landspítalanum hafi verið svipaður frá 1997.

Nú bíða nokkuð færri börn eftir meðferð á barna- og unglingageðdeild en fyrr í vetur, eða 62 börn í stað 90. Biðlisti inn á deildina hefur ekki verið svo stuttur síðan 1996. Þess er þó getið að innri biðlisti á deildinni er nokkur, eða 19 börn. Eru það börn sem hafa fengið greiningu en bíða eftir frekari þjónustu.