Bíllinn er með  samlitu  pallhúsi.
Bíllinn er með samlitu pallhúsi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞÓTT margt í bílasál Íslendinga líkist meira því sem hrærist í bandarískri bílasál en evrópskri, eins og t.d.

ÞÓTT margt í bílasál Íslendinga líkist meira því sem hrærist í bandarískri bílasál en evrópskri, eins og t.d. áherslan sem við leggjum á sjálfskipta bíla umfram beinskipta, hafa pallbílar þó aldrei notið verulegra vinsælda meðal almennra bílakaupenda hérlendis. Vissulega eru þetta notadrjúgir bílar til alls kyns hluta og jafnvel leiks; flutningsgetan hentar verktökum og öllum þeim sem þurfa starfsins vegna að flytja farma fram og til baka. En stórum hluta þeirra pallbíla sem hingað eru fluttir er breytt og oft sett yfir pallinn hús. Þessi árátta á sér sínar skýringar til að mynda í veðurfarinu en síðan hafa menn einnig séð sér leik á borði og fengið nánast fullgilda jeppa fyrir minni pening og í kaupbæti farangursrými sem skákar flestum öðrum bílum. Við prófuðum einn yfirbyggðan Double Cab á dögunum, B-2500 pallbíl Mazda, sem á sér nákvæma fyrirmynd (eða eftirmynd) í Ford Ranger.

Sami bíll og Ford Ranger

Það eina sem skilur á milli B-pallbílsins og Ranger er mælaborðið, frágangur að innan, annað grill og minni háttar stíleinkenni að utan. Báðir bílarnir eru boðnir í tveggja dyra og fernra dyra útfærslum, sem Stretch Cab og Double Cab. Þeir eru með sömu vélar og drifbúnaði.

B-pallbíllinn er fremur lítill miðað við marga aðra, kallaður á bandarísku Compact Truck, sem þýðir í raun lítill pallbíll. Þetta er þó alls ekki lítill bíll, rúmlega fimm metra langur og um 1,70 metrar á breidd. Þetta er fimm sæta bíll með fernum dyrum, þar af tvennum litlum afturdyrum, sem í Bandaríkjunum kallast sjálfsvígsdyr, sem auðvelda til muna allt aðgengi að afturbekknum. Bíllinn sem við prófuðum er á 33 tommu dekkjum og 15 tommu álfelgum og fremur fínlegum brettaköntum. Hann virkar veglegur á götu. Að framan var hann með krómaðri grillgrind. Breytingarnar eru unnar af Fjallasporti og fólu þær jafnframt í sér að bíllinn er hækkaður upp. Húsið er óeinangrað og opnanlegt að aftan með hleranum en einnig er glerhlerinn opnanlegur.

Rúmgóður

Þetta er ósköp hefðbundinn bíll í útliti og það er notagildið sem er sett ofar hinu fagurfræðilega.

Þegar sest er inn í bílinn er allt á sínum stað en fátt sem gleður virkilega augað og sumt fór í taugarnar á undirrituðum. Mælaborðið er dálítið gamaldags og grátt en þó ekkert sérstaklega aðfinnsluvert við það. Mælar eru allir vel staðsettir og gott að lesa af þeim. Stokkur milli framsætanna er aðeins of aftarlega til þess að hann virki á ákjósanlegastan hátt sem armhvíla. Handbremsan er hægra megin við stýrið undir mælaborðinu og þegar hún hefur verið dregin út er hætta á því að reka hægri fótinn í hana þegar stigið er út úr bílnum. En það er setið hátt í þessum bíl og ökumaður hefur þokkalegt útsýni í gegnum pallhúsið um spegilinn. Bíllinn er allur vel rúmgóður og það fer ágætlega um þrjá fullorðna í afturbekknum.

Stíf fjöðrun

B-pallbíllinn er byggður á grind og er greinilega hugsaður sem vinnuþjarkur. Það stafar frá honum traustleika og hann er allur hinn stífasti í hreyfingum. Hann er gerður til að bera allt að eitt tonn á pallinum í upprunalegu gerðinni, en eitthvað minna að sjálfsögðu þegar pallhús er komið á hann. Einmitt þess vegna er hann hafður á blaðfjöðrum að aftan. En fyrir vikið er fjöðrunin virkilega stíf þegar bíllinn er óhlaðinn, eins og þegar hann var prófaður. Hann vill kasta sér dálítið til að aftan í ójöfnum og hraðahindranir í borginni verður að læðast yfir til þess að vera ekki í loftköstum. Hann er heldur ekkert sérlega meðfærilegur í borgarakstri, dálítið groddalegur og með stóran, 13,5 metra, beygjuhring. Það þarf líka að ná upp snúningi á vélinni áður en hún tekur við sér og fyrir vikið er bíllinn dálítið svifaseinn. Þvert á það sem segir í bæklingi frá framleiðanda er B-pallbíllinn líkari "trukk" í akstri en fólksbíl.

Ákjósanlegur ferðabíll

Hins vegar sér maður fyrir sér að B-pallbíllinn gæti hentað afar vel sem ferðabíll. Hann tekur fimm manns í sæti og það er auðvelt að koma miklum farangri fyrir í húsinu, t.d. fjallahjólum, tjaldi og öðrum búnaði til ferðalaga. Vélin skilar líka sínu þegar hún er komin upp á snúning og forþjappan kemur inn.

Þetta er bíll með millikassa og er skipt í fjórhjóladrifið og lága drifið með stöng við hlið gírstangarinnar.

Tæknilega séð er B-pallbíllinn einfaldur bíll en sterkbyggður, sem sé ekta vinnuþjarkur. Það sést til að mynda í því að hann er án mismunadrifs. Það er því sem næst ókleift að aka honum í fjórhjóladrifi á þurru malbiki, og skyldi enginn reyna það, enda engin ástæða til þess þar sem það kallar einvörðungu á meiri eldsneytiseyðslu en bætir aksturseiginleikana ekkert. Að framan eru diskahemlar og tromlur að aftan en athygli vekur að hann er án ABS-hemlakerfis. Að öðru leyti er hann þokkalega úr garði gerður hvað varðar öryggisbúnað. Loftpúði er í stýri og annar fyrir farþega í framsæti. Þá eru hliðarstyrktarbitar í hurðum og farþegarýmið er sérstaklega styrkt.

Óbreyttur kostar Double Cab útfærslan 2.199.000 kr. Þá er hann á 29 tommu dekkjum og á stálfelgum. Staðalbúnaður er útvarp og hátalarar og fremur hrár að öðru leyti. Breyting fyrir 33 tommu dekk sem felur í sér 15 tommu álfelgur, gangbretti og brettakanta kostar 460.000 kr. Annar aukabúnaður á prófunarbílnum var pallhús með gluggum sem kostar 167.000 kr. Krómuð grillgrindkostar 49.800 kr., tveir kastarar að framan kosta 40.000 kr. og afturstuðari með krók kostar 41.000 kr. Verðið er því komið upp í rúmar 2,9 milljónir kr. Þetta er hátt verð miðað við bílinn óbreyttan en á móti kemur að menn eru að fá í hendurnar fullbúinn jeppa með miklu farangursrými en vissulega nokkuð groddalegum aksturseiginleikum.

Guðjón Guðmundsson