Mælaborð er vel búið og ökumaður býr þar við mjög góðar aðstæður að öllu leyti.
Mælaborð er vel búið og ökumaður býr þar við mjög góðar aðstæður að öllu leyti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NÝR Mitsubishi Pajero var kynntur bílablaðamönnum á Spáni fyrir nokkru og eins og fram hefur komið hér í blaðinu er hann gjörbreyttur að utan sem innan. Má segja að bíllinn hafi tekið stakkaskiptum.

NÝR Mitsubishi Pajero var kynntur bílablaðamönnum á Spáni fyrir nokkru og eins og fram hefur komið hér í blaðinu er hann gjörbreyttur að utan sem innan. Má segja að bíllinn hafi tekið stakkaskiptum. Pajero kom fyrst á markað árið 1982 sem kröftugur alvörujeppi með miklum búnaði og þægindum.

Nýr Pajero er áfram alvörujeppi en hefur þó verið búinn heldur meiri lúxus og má kannski segja að líta megi á hann sem alhliða ferðabíl á vegi og vegleysu þar sem flest þægindi standa til boða. Útlitið hefur ekki breyst mikið gegnum árin en að þessu sinni er kynntur til sögunnar bíll með mýkri línum og hann er orðinn bústnari en fyrirrennarinn. Spurning er þó ennþá hvert verðið verður.

Við hönnun hafa verksmiðjurnar annars vegar haft í huga að þróa bíl sem er mildur gagnvart umhverfinu og yfirbyggingin er létt og stíf með innbyggðri grind. Notagildið er áfram fjölbreytt því Pajero er í senn mjúkur og vel búinn borgarbíll, ferðabíll og torfærubíll.

Gjörbreyttur svipur

Eftir nærri níu ára sögu kom fram önnur kynslóð Pajero og meðal þess sem breytist hvað mest með þriðju kynslóðinni er útlitið. Bíllinn er lágbyggðari, framendinn breiðleitur, mikill og voldugur með svipmiklum framlugtum og tekist hefur að lækka gólfið og þar með þyngdarpunktinn. Þá er hliðarsvipurinn einnig nýr og yfir afturhjól kemur skemmtilegur bogi.

Af öðrum breytingum má til dæmis nefna fjöðrunina og hefur fjöðrunarsviðið verið aukið, hægt er að taka aftasta sætið burt og myndast þá drjúg geymsla fyrir farangur, mælaborðið og miðjustokkurinn eru með nýjum svip og ný hönnun á grindinni. Pajero-gerðin nýja kemur á markað hérlendis í næsta mánuði eins og í flestum öðrum Evrópulöndum en bíllinn hefur verið í boði í heimalandinu frá síðastliðnu hausti. Hann er áfram boðinn í tveimur lengdum, þriggja eða fimm dyra og er það talsvert misjafnt eftir mörkuðum hvert hlutfallið er milli stærri og minni bílsins. Algengt hlutfall er 40% af þeim minni og 60% af stærri bílnum.

Voldugur að innan líka

Þegar sest er undir stýri á Pajero fær ökumaður strax á tilfinninguna að hér sé mikill bíll á ferð. Mælaborðið er næstum því mikilúðlegt og sérstaklega er miðjustokkurinn stór með útvarpi sínu, miðstöðvarstillingum og litlum skjá fyrir ýmsar upplýsingar um aksturinn. Gírstöng er stutt og á nákvæmlega réttum stað og ökumaður á létt með að stilla sig af undir stýri og finna sig vel heima.

Tekið var einnig nokkuð í styttri gerðina á Spáni á dögunum og var hún með dísilvél. Sá bíll er að ýmsu leyti skemmtilegur og virkar alls ekki of stuttur eða sýnir af sér leiðinlegar hreyfingar vegna þess, heldur er hann sérlega rásfastur við hvers konar aðstæður. Hann er snöggur enda með 165 hestafla vél og átti ekki í neinum vandræðum með að halda í við aðra fáka á hraðbrautunum.

Öflugar vélar og sparneytnar

Tvær dísilvélar eru í boði og ein bensínlvél. Bensínvélin er sex strokka, 24 ventla og 3,5 lítra hreinbrunavélin, GDI, sem er 202 hestöfl. Snúningssvægið er 318 Nm við 4.000 snúninga. Hún er 10,7 sekúndur að ná bílnum á 100 km hraða en eldri 3,5 lítra vélin var 11,3 sekúndur að ná 100 km og jafnaðareyðslan er 12,8 l á hundraðið á nýrri vélinni en var 13,3 l á þeirri eldri.

Dísilvélarnar eru annars vegar 3,2 lítra vél sem er 165 hestöfl og hin er 2,5 lítra 100 hestafla en báðar eru með forþjöppu og millikæli. Öflugri dísilvélin eyðir 9,3 lítrum í blönduðum akstri en eldri 2,8 lítra vélin eyðir 12,3 lítrum. Viðbragðið úr kyrrstöðu í 100 km tekur 12 sekúndur en var 17,3 á 2,8 lítra vélinni. Minni vélin er 18,4 sekúndur að ná 100 km hraða og hún eyðir 10,5 lítrum.

Í Pajero er ekið í afturdrifi eða aldrifi og flyst þá meirihluti átaksins á afturhjólin. Mögulegt er að læsa afturdrifinu og mismunadrifið læsist sjálfkrafa þegar sett er í lága drifið.

Gírskiptingin er liðug og þægileg viðskiptis á allan hátt og bíllinn er einnig boðinn með fimm þrepa sjálfskiptingu og er það valskipting. Tekið var lítillega í bíl með henni og er það fljótsagt að slík valskipting er afskaplega þægilegur eiginleiki.

Ekið við alls konar aðstæður

Unnt var að aka á öllum gerðum vega og talsverðum vegleysum einnig, þ.e. sérstaklega lagaðri braut moldarvega í miklum bratta og halla, skóglendi og skorningum. Fóru báðir bílarnir vel með farþega sína á þessum vegleysum "átu" allar torfærur án vandræða og átakalaust. Best hefði verið að fá einnig góðan íslenskan grófan fjallveg í urð og vænt þvottabretti til að finna hversu veggripið er öruggt en nokkur vissa fékkst þó fyrir því á mjóum sveitavegum og vel krókóttum að bíllinn liggur feikn vel. Var það einkum reynt á stærri bílnum enda honum ekið meira. Verður hann líka trúlega meira aðdráttarafl hérlendis.

Enginn vandi er heldur að þeysa á stóra bílnum á 140 til 170 km hraða á hraðbraut án þess að það trufli hið minnsta samræður eða vart verði hávaða. Ekki heyrist í vél en helst má finna að því að á þessum mikla hraða fer að koma fram vindhljóð en varla kæmi mikið til þess í akstri hérlendis.

Verðið ennþá spurningamerki

Enn er óvíst hvert verðið verður. Óhætt er að hafa bílinn eitthvað dýrari en sá gamli hefur verið en fara verður þó varlega í verðlagninguna. Þetta ætti að skýrast næstu daga en gert er ráð fyrir að nýr Pajero verði kynntur hjá Heklu um miðjan næsta mánuð.

Jóhannes Tómasson