Krakkar að leik fyrir utan heimili sitt í miðri auðninni.
Krakkar að leik fyrir utan heimili sitt í miðri auðninni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TJÖLD mongólskra hirðingja nefnast "ger" á máli þeirra. Tjöld sín flytja þeir með sér þegar skipt er um dvalarstað til að hlífa beitarhögum.

TJÖLD mongólskra hirðingja nefnast "ger" á máli þeirra. Tjöld sín flytja þeir með sér þegar skipt er um dvalarstað til að hlífa beitarhögum. Að öllu jöfnu flytja mongólskir hirðingjar sig um set þrisvar á ári og er oftast um að ræða nokkurra tuga kílómetra ferðalag með allar jarðneskar eigur fjölskyldunnar.

"Gerið" er reist á viðargrind. Hún er síðan klædd að innan með skrautlegum teppum en dúkur er strengdur yfir að utanverðu. Hirðingjar munu aðeins vera um 30 mínútur að fella tjald sitt og reisa.

Þegar inn er komið blasir við kola-/taðeldavél á miðju gólfinu. Þar fer matseld húsmóðurinnar fram og þaðan kemur eini hitagjafinn sem finna má í tjaldinu. Algengast er að þrjú til fjögur rúm séu í hverju tjaldi en oft liggja margir saman í fleti. Auk rúmanna er þarna að sjá viðarskápa og skrautmuni ýmsa en sérstakan sess skipar viðarrammi með ljósmyndum af ættingjum og sovéska stuttbylgju-útvarpið, sem tryggir sambandið við umheiminn.

Yfir sauðburðinn er algengt að nýfædd lömb séu geymd í "gerinu". Líf hirðingjans er komið undir skepnum hans og utanaðkomandi fá ekki skilið það nána samband sem er á milli búsmalans og fólksins sem býr á steppum Mongólíu.

Algengt er að nokkrar fjölskyldur búi saman og myndi svonefnt "khotæ". Margir búa þó einir inni í auðninni í margra tuga kílómetra fjarlægð frá næstu fjölskyldu. Algengt er að mongólskir hirðingjar þurfi að fara tugi kílómetra á degi hverjum eftir vatni. Þá eru hrossin nauðsynleg en margir eiga einnig skellinöðrur.

Mongólskir hirðingjar stunda réttnefndan sjálfbæran búskap. Allt er nýtt og öllu er skilað aftur til náttúrunnar. Þegar dvalist er meðal þessa fólks vakna upp spurningar um þær skilgreiningar sem notaðar eru á Vesturlöndum yfir "frumstæða lífshætti". Með tilliti til þeirra sjálfbæru lífshátta sem mongólskir hirðingjar iðka má spyrja hvort þeir standi Vesturlandabúum nauðsynlega að baki. Alltjent sýnist sem þeir hafi náð því sjálfbæra stigi sem umhverfisspírur ýmsar á Vesturlöndum gapa mest yfir.

Mongólar klæðast að jafnaði síðum kufli með einlitum mittislinda. Yfirhafnir eru hins vegar þykkar og vindheldar. Stígvél mongólskra hirðingja eru sér á báti, gríðarmikil og oftar en ekki úr hnausþykku leðri. Höfuðfatið á landsbyggðinni er jafnan ullar- eða leðurhúfa.

Þau börn mongólskra hirðingja sem hljóta menntun sækja hana yfirleitt í næsta þorp. Þar dveljast þau hjá ættingjum eða í eins konar heimavist hluta vikunnar. Greiða þarf með hverju barni og er algengt að með því sé lagt kjöt. Vöruskiptaverslun er enda algengasta viðskiptaformið eftir hrun kommúnismans. Reiðufé hvarf að mestu í sveitum landsins er ríkisrekin fyrirtæki stöðvuðust og fjöldaatvinnuleysi skall á. Ríkidæmi hirðingja er mælt í fjölda þeirra skepna sem þeir eiga. Sá sem á 50 dýr eða færri telst fátækur. Hver sá sem ræður minnst yfir 1.000 skepnum telst ríkur. Af þessum sökum ógnar fimbulveturinn, "dzúd", einkum afkomu fátækustu fjölskyldnanna.