Nóg var að gera á saumastofunni og eigandinn hugðist færa út kvíarnar.
Nóg var að gera á saumastofunni og eigandinn hugðist færa út kvíarnar.
ÞRÓUNARSTOFNUN Sameinuðu þjóðanna (UNDP) hefur haft frumkvæði að og umsjón með mörgum athyglisverðum þróunarverkefnum í Mongólíu. Jafnan er lögð áhersla á að þróunarstarfið fari fram í sem mestri nálægð við "grasrótina" í samfélaginu.

ÞRÓUNARSTOFNUN Sameinuðu þjóðanna (UNDP) hefur haft frumkvæði að og umsjón með mörgum athyglisverðum þróunarverkefnum í Mongólíu. Jafnan er lögð áhersla á að þróunarstarfið fari fram í sem mestri nálægð við "grasrótina" í samfélaginu. Má þar nefna aðgerðir til að koma fátækustu fjölskyldunum til hjálpar, aðstoð við konur sem orðið hafa fórnarlömb ofbeldis og alkóhólisma eiginmanna sinna, nýjar aðferðir við húsbyggingar sem ætlað er að spara Mongólum mikla fjármuni í formi hitunarkostnaðar og smá-lánastarfsemi sem hugsuð er til atvinnuskapandi verkefna.

Síðastnefnda verkefnið nefnist "Micro Start Mongolia" og er allrar athygli vert. UNDP hafði frumkvæði að verkefni þessu og lagði til 520.000 Bandaríkjadali í upphafi. Nú hefur verið stofnað fjármálafyrirtækið XAC á grundvelli Micro Start-áætlunarinnar og er það í eigu ýmissa hjálpar- og þróunarsamtaka.

XAC er kapítalískt fyrirtæki sem jafnframt starfar á félagslegum grunni. Fyrirtækið veitir einstaklingum smálán sem einkum eru miðuð við að hjálpa þeim að stofna lítil fyrirtæki. Á síðustu 18 mánuðum hefur XAC veitt 6.540 lán og fóru rúmlega 99% þeirra til einstaklinga. Fyrsta lán hljóðar upp á 116 Bandaríkjadali eða rúmlega 8.000 krónur. Það er endurgreitt með mánaðarlegum greiðslum, yfirleitt á 10 mánuðum, auk vægra vaxta. Standi lántakinn við skuldbindingar sínar getur hann fengið hærri lán og þannig fært út kvíarnar.

Lántakinn er "metinn" af sérstakri nefnd fulltrúa fyrirtækisins á hverjum stað. Reynt er að fá fram hvern mann viðkomandi hefur að geyma og hvort sá hinn sami sé traustsins verður.

Þessi starfsemi hefur skilað miklum árangri. XAC er þegar tekið að skila hagnaði og lántakendum fjölgar jafnt og þétt. Af þeim 6.540 lánum sem veitt hafa verið í Mongólíu hafa aðeins 13 lántakendur lent í greiðsluerfiðleikum. Mun það hlutfall teljast einstakt í fjármálaheiminum.

Í höfuðborg Mongólíu, Úlan Bator, heimsótti hópur norrænna blaðamanna lítinn veitingastað sem settur var á stofn með þessum hætti. Nú stefnir eigandinn að því að stækka staðinn auk þess sem hann hyggst hefja rekstur lyfjabúðar sem eiginkona hans mun stjórna. Án þessarar lánastarfsemi væru þessu fólki allar bjargir bannaðar.

Í bænum Arvækhír var tekið hús á konu einni sem rekur þar saumastofu. Hún byrjaði með tvær hendur tómar en fékk 500.000 túgríka lán (1.000 túgrík svara nokkurn veginn til eins Bandaríkjadollars) frá ríkisstjórninni með milligöngu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Konan endurgreiddi lánið á aðeins rétt rúmu ári og hefur nú fjórar konur í vinnu. Þessum konum væru einnig allar bjargir bannaðar hefðu þær ekki notið þessarar aðstoðar.