Dauðinn á steppunni.
Dauðinn á steppunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BORGFIRSKA lopapeysan er margoft lofuð þennan dag sem flesta aðra. Vindurinn sem æðir yfir steppur Mongólíu er kaldari en nokkuð annað sem reynt hefur verið í þessu jarðlífi.

BORGFIRSKA lopapeysan er margoft lofuð þennan dag sem flesta aðra. Vindurinn sem æðir yfir steppur Mongólíu er kaldari en nokkuð annað sem reynt hefur verið í þessu jarðlífi. Orðtakið að kuldinn "smjúgi í gegnum merg og bein" öðlast nýja og bókstaflegri merkingu. Einungis harðgert fólk fær þraukað í þessu einstaka landi.

Hundarnir hafa verið reknir í burtu og okkur er því óhætt að nálgast tjöld hirðingjanna sem dvelja stóran hluta ársins hér í auðninni miðri. Þrjár fjölskyldur búa hér saman og eftir að við höfum komið okkur fyrir inni í einu tjaldinu, sem Mongólar nefna "ger" tekur einn fjölskyldufaðirinn að segja okkur hvernig fimbulveturinn eða "dzúd" hefur leikið þetta fólk. Um þriðjungur skepnanna er dauður, hrossin eru horfin en kindurnar og geiturnar halda enn velli. Börnin stara á þessa undarlegu gesti sem troðið hafa sér inn í líf þeirra; flest hafa þau aldrei séð hvítan mann áður.

Við höldum af stað frá höfuðborginni Úlan Bator (sem nefnist á mongólsku Úlaan Bathaar) á þremur fjórhjóladrifsbílum, sjö norrænir blaðamenn, þrír starfsmenn Sameinuðu þjóðanna, fulltrúi almannavarna Mongólíu og tveir mongólskir sjónvarpsfréttamenn. Ferðinni er heitið í suðvestur til bæjarins Arvækhír, sem er höfuðstaður Úrkhangæ-héraðs en þar hefur horfellirinn vegna "dzúd" verið einna mestur. Ekið er eftir einum skásta vegi Mongólíu, sem var lagður slitlagi fyrir einhverjum áratugum en er nú einna líkastur því að ítrekað hafi verið gerðar á hann loftárásir. Hann er með afbrigðum hæðóttur og oft liggur við slysi þegar nauðhemla þarf vegna skurða í veginum eða þegar tekið er framúr hægfara vöruflutningabílum frá sovét-tímanum. Það tekur okkur átta klukkutíma að keyra þessa 480 kílómetra með réttnefndum glannaakstri. Oft er fljótlegra að aka utan vegar. Einn bílanna gefst upp á leiðinni.

Mongólía er land ævintýralegra víðerna. Steppan sýnist endalaus, hvergi er hús að sjá en í norðri gnæfa miklir fjallgarðar. Himininn er heiður og blár og sólin skín þennan dag líkt og flesta aðra í Mongólíu.

Eftir því sem fjarlægðin frá höfuðborginni eykst fjölgar rotnandi hræjunum við vegarkantinn. Allt eru það hross eða kýr, kindurnar og geiturnar þola "dzúd" betur. Hjarðir grindhoraðra dýra er víða að sjá og oftar en ekki fylgja þeim hirðingjar. Einn þeirra biður um far, hann hefur ákveðið að skilja hestinn eftir þar sem hrossið megnar ekki lengur að bera eigandann. Hestarnir eru annars flestir horfnir, þeir halda einfaldlega út í buskann þegar hvergi er stingandi strá að finna. Og svo er ekki nú; steppan er grábrún og öldungis lífvana. Hún grænkar ekki fyrr en um miðjan júní. Þá óttast menn að horfellirinn hafi margfaldast og að fátækustu hirðingjafjölskyldurnar, þær sem áttu innan við 50 skepnur áður en fimbulveturinn skall á, muni svelta heilu hungri.

Hirðingi án hrossa er illa staddur, illmögulegt er að leita haga og bjargráða án þarfasta þjónsins í þessu landi. Þess vegna vantar marga hirðingjana skó, þeir hafa slitið þeim upp til agna í leit sinni að horfnum búpeningnum. Eftir því sem lengur er dvalist í Mongólíu verður okkur ljóst hversu einstakt samband hirðingjans og skepna hans er. Nær náttúrunni verður vart komist.

Koma okkar til Arvækhír telst til stórviðburða þar um slóðir. Þetta er rúmlega 20.000 manna þorp og höfuðstaður Úrkhangæ-héraðs. Í héraðinu búa rúmlega 114.000 manns og það er 63.500 ferkílómetrar að stærð. Mongólía skiptist upp í 21 hérað og hafa 13 þeirra fengið að kenna á náttúruhamförunum. Hérað nefnist á mongólsku "æmak" og í Úrkhangæ eru 19 "súm" eða "þéttbýliskjarnar". Tæp 75% íbúanna hafa framfæri sitt af kvikfjárrækt en hefðbundin nytjadýr Mongóla eru hross, nautgripir, kindur og geitur auk kameldýra.

Börnin stara á okkur líkt og við værum verur frá öðrum hnetti sem reyndar er ekki svo fjarri lagi. Þetta eru falleg og brosmild börn, snyrtileg og sýnast lífsglöð. Hræðslan víkur brátt fyrir forvitninni og sælgætið hverfur eins og dögg fyrir sól. Fullorðna fólkið fylgist grannt með okkur þar sem við stöndum á aðaltorgi bæjarins. Það er feimið en undrun þess er vingjarnleg og einlæg. Við eigum eftir að kynnast einstakri gestrisni mongólskra hirðingja síðar.

Á fundi með O. Batmúnkh, héraðsstjóra Úrkhangæ, fáum við yfirlit yfir stöðu mála. Skepnur tóku að falla úr hor um miðjan janúar. Nú eru 412.800 dýr dauð eða um 14% heildarfjöldans í héraðinu. Um 9.000 fátækar fjölskyldur eru að missa lífsafkomuna sökum vetrarkuldanna eða "dzúd". Uppbygging síðustu þriggja til fimm ára er orðin að engu og önnur þrjú til fimm ár mun taka að bæta skaðann. Óttast er að allt að 700.000 skepnur muni falla úr hor í þessu eina héraði þegar afleiðingar "dzúd" ná hámarki í maí. Það er um þriðjungur búpeningsins í héraðinu. Sumar fjölskyldur gætu misst allt að helming skepna sinna. "Matarskortur er yfirvofandi," segir Batmúnkh héraðsstjóri. "Hinir fátækari munu jafnvel líða hungur," bætir hann við og segir afkomu íbúa héraðsins nú að stórum hluta komna undir þeirri aðstoð sem berist erlendis frá.

Sauðburður stendur yfir fram til 20. apríl. Veikburða skepnur geta af sér veikburða afkvæmi og í þeirri staðreynd birtist ein langtímaafleiðinga ótíðarinnar miklu. Dýrin skortir fóður og næringu og frá starfsmönnum Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna heyrum við að aðstoðin erlendis frá miðist við það að halda lífi í dýrunum því þannig verði lífinu einnig haldið í fólkinu. "Deyi skepnurnar, deyr fólkið," segir O. Batmúnkh héraðsstjóri og má segja að þessi einfalda speki feli í sér kjarna tilveru hirðingjans. Örlög manna og dýra eru eitt og hið sama. Jafnvægi í náttúrunni tryggir afkomu manna og ferfætlinga. Raskist það er voðinn vís.

"Dzúd" er þó flóknara fyrirbrigði en svo að þessi lýsing dugi. Smám saman skýrist myndin og henni fylgir gleggri skilningur á lífinu í Mongólíu og þeim breytingum sem riðið hafa yfir samfélagið á síðustu tíu árum. "Dzúd" er nefnilega fremur regla en undantekning og sá skortur á viðbúnaði sem einkennir horfellinn mikla í Mongólíu verður aðeins settur í samhengi við hrun hins miðstýrða áætlanakerfis sem landsmenn máttu búa við í rúmlega 60 ár.

Mongólía varð hluti af sovésku áhrifasvæði í upphafi þriðja áratugarins þegar landsmenn öðluðust sjálfstæði frá Kínverjum með hjálp Rauða hersins. Sovésk áhrif fóru sívaxandi, menntamenn fóru til Sovétríkjanna til náms, mongólska stafrófið var lagt niður og kyrilískt letur tekið upp. Sovéskir stjórnarhættir voru innleiddir á öllum stjórnsýslustigum.

Martröð mongólskra hirðingja hófst árið 1956 þegar sovésku nýlenduherrarnir ákváðu að samyrkjuvæða kvikfjárræktina. Hirðingjar voru neyddir til að láta skepnur sínar af hendi í nafni sósíalískra framfara. Margir kusu frekar að stytta sér aldur en að segja skilið við dýrin. Aðrir voru fangelsaðir og hurfu í vinnubúðakerfi sósíalismans. Í stað sjálfsþurftarbúskapar sem mótast hafði á steppum Mongólíu í gegnum árþúsundin var innleidd miðstýring og hagfræði framleiðsluáætlana. Hirðingjar voru neyddir til að gerast sósíalískir verkamenn á samyrkjubúum. Framleiðslan var tekin frá þeim og flutt til höfuðborgarinnar, Úlan Bator, þaðan sem hluta hennar var aftur dreift til íbúanna en afgangurinn var fluttur úr landi. Hvert hérað varð hluti af framleiðsluferli sem laut miðstjórninni í Úlan Bator. Mongólía varð síðan að uppfylla tilteknar áætlanir innan "efnahagsbandalags" Sovétríkjanna og leppríkja þeirra er nefndist COMECON.

Samyrkjuvæðingunni var lokið árið 1960. "Áætlunin varð lög," segir Myatavyn Tsagaan, þekktur mongólskur útvarpsmaður og formaður samtaka mongólskra hirðingja sem man þessa tíma vel. Hann lýsir því hvernig hefðir mongólskra hirðingja voru traðkaðar í svaðið og hvernig landsmenn urðu smám saman háðir hinum sovésku yfirboðurum sínum. Þegar veldi kommúnismans hrundi í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum fengu Mongólar um 30% þjóðartekna sinna í formi styrkja frá Sovétríkjunum. Er það svipað og gilti um Kúbu.

Fyrir samyrkjuvæðinguna á árunum 1956-1960 er talið að hirðingjar í Mongólíu hafi verið um 230.000 eða 60-70% vinnuaflsins. Þegar valdakerfi sósíalismans hrundi til grunna og Mongólar losnuðu undan sovéskum yfirráðum árið 1990 voru hirðingjar 160.000 að tölu en Mongólum hafði fjölgað og taldi þjóðin þá um tvær milljónir manna. Nú búa í Mongólíu rétt tæpar 2,4 milljónir manna.

Hrun kommúnismans snerti vitanlega alla þætti þjóðlífsins í Mongólíu. Tæplega 65 ára valdakerfi leystist upp á örskömmum tíma. Afleiðinga þessa gætir einna mest á landsbyggðinni þar sem öll ríkisrekin atvinnustarfsemi lagðist af með tilheyrandi fjöldafátækt og atvinnuleysi. Nefna má að í Úrkhangæ-héraði þar sem 114.000 manns búa eins og áður sagði er nú aðeins starfrækt ein verksmiðja. Hún framleiðir vodka en drykkjusýki er þjóðarböl Mongóla líkt og fleiri þjóða sem lentu undir sovéskri ráðstjórn.

Í kjölfar hruns kommúnismans var lýðræði innleitt og fram fór einkavæðing búpenings landsmanna, samkvæmt flóknum reglum sem smíðaðar voru í þessu skyni. Alls voru 255 samyrkjubú leyst upp árið 1990. Að auki sneru margir þéttbýlisbúar aftur til heimahaganna og tóku upp hefðbundna lífshætti mongólskra hirðingja. Af þeim sökum er ekki óþekkt að hirðingjar búi yfir góðri menntun. Afleiðingin varð sú að fjöldi hirðingja tvöfaldaðist og eru þeir nú um 400.000 að tölu. Um helmingur Mongóla býr í þéttbýli en hinn helmingurinn á steppunum og er algengt að menn stundi búskap með annarri vinnu til að draga fram lífið.

Að sögn Myatavyn Tsagaan skýrir þessi fjölgun hluta þess mikla vanda sem fimbulveturinn hefur haft í för með sér. Í Úrkhangæ-héraði var frostið í vetur að jafnaði 32-40 stig sem er um tíu gráðum undir meðallagi. Rót vandans er hins vegar að finna í sumrinu í fyrra sem var óvenju þurrt. Spretta var því léleg en skepnur mongólskra hirðingja byggja upp forða yfir sumartímann sem gerir þessum harðgerðu dýrum kleift að þrauka veturinn. Skepnurnar voru því sérlega illa undir þennan "dzúd" búnar.

Tsagaan segir að horfellirinn nú hafi því verið öldungis fyrirsjáanlegur. "Fimbulvetur eru reglubundin fyrirbrigði í mongólskri náttúru og koma jafnan á fimm til sex ára fresti. Óvenju langt er hins vegar liðið frá hinum síðasta eða rúm tíu ár. Þetta er því í fyrsta skipti sem "dzúd" skellur á frá því að kommúnisminn hrundi og búpeningurinn var einkavæddur. Menn sváfu á verðinum. Auk þess verður að hafa í huga að sökum fjölgunar í stétt hirðingja höfðu fjölmargir bæst í hópinn sem bjuggu hvorki yfir nægilegri reynslu né fyrirhyggju. Hinir reyndari munu standa þetta högg af sér," segir Tsagaan.

Hann bætir við að mongólskir hirðingjar drepi ógjarnan dýr sín en hann hafi sjálfur hvatt til þess í útvarpsþáttum sínum síðasta haust að lélegri skepnurnar yrðu slegnar af til að tryggja afkomu hinna sterkari. "Dzúd er eins og dómari sem dæmir hina óhæfu til dauða," segir Tsagaan. "Góð" dýr geti þolað allt að sex mánaða þrengingar en við blasi að sökum mikillar fjölgunar búpenings á steppum Mongólíu síðustu árin hafi "lélegum" dýrum fjölgað að því skapi. Líta megi því á "dzúd" sem aðferð náttúrunnar til að tryggja jafnvægi og afkomu hinna hæfustu.

Þegar þetta er skrifað er talið að um tvær milljónir skepna hafi drepist í kuldunum í Mongólíu. Tsagaan segist gera ráð fyrir að um sex af 36 milljónum dýra mongólskra hirðingja muni falla úr hor. "Leyfum þeim að drepast, segi ég," bætir hann við. Hann tekur síðan að útskýra lífshætti og samfélagsgerð hirðingja og orð norskra hjálparstarfsmanna, sem kváðust fyrst nú vera teknir að skilja örlítið í lífinu í Mongólíu eftir þriggja ára dvöl í landinu, fá skyndilega aukið vægi.

Mongólski hirðinginn færir sig yfirleitt um set þrisvar á ári. Hann á sér vetrar-, vor- og sumarbústað. Þegar hann flytur tekur hann allt með sér, tjaldið er fellt á undraskömmum tíma og aðeins tekur um 30 mínútur að koma því upp á ný. Yfirleitt flytja fjölskyldur sig nokkra tugi kílómetra í hvert skipti en tilgangurinn er sá að hlífa beitarhögum og tyggja þannig vöxt og viðgang stofnsins. Mjög algengt er að ættmenni búi í nágrenninu og þá oftast í einhverra tuga kílómetra fjarlægð. Eins er reglan sú að fjórar eða fimm fjölskyldur búi saman og myndi svonefnt "Khotæ" sem nefna mætti "þyrpingu". Þar renna gjarnan saman nokkrir ættliðir og reglan er sú að ein fjölskylda - og þá karlpeningurinn - gegni ákveðnu forystuhlutverki sökum aldurs og reynslu.

Tsagaan kveðst telja að sökum þessa félagslega nets muni hirðingjar í Mongólíu standa af sér þennan "dzúd" þótt vissulega sé hann sá harðasti í manna minnum. Ættingjar muni fá þeim sem illa urðu úti nýjar skepnur og sjá til þess að enginn svelti heilu hungri. Þá muni þeir sem betur standa ráða hina efnaminni í vinnu og greiða þeim í formi dýra sem aftur muni gera þeim hinum sömu kleift að lifa sjálfstæðu lífi. Þannig muni hið félagslega velferðarkerfi sem myndast hafi í gegnum tíðina á gresjum Mongólíu tryggja að hirðingjar neyðist ekki til að hverfa frá þeim lífsháttum sem þeim séu í blóð bornir. Hann hefur því efasemdir um gildi alþjóðlegrar aðstoðar. "Dzúd má lýsa sem lögmálsbundnum náttúruhamförum í Mongólíu. Eigum við þá alltaf að óska aðstoðar erlendis frá þegar þær ríða yfir?" spyr hann.

Næstu dagana ökum við utan vega eftir steppunni og sækjum heim hirðingjafjölskyldur. Frásagnir þeirra virðast renna stoðum undir greiningu Myatavyn Tsagaan. Mjög misjafnt er hversu grátt "dzúd" hefur leikið fólkið. Sumir hafa misst næstum allan bústofninn en aðrir hafa sloppið mun betur. Eitt eiga þó allir þeir sem teknir eru tali sameiginlegt: enginn kvartar og enginn barmar sér.

Aldurhniginn hirðingi gætir hrossa sinna og segir að í síðustu viku hafi fjölskylda hans fundið fimm dauð hross eftir mikla leit. Við ökum honum heim í tjaldið en þar er engan að finna. Yngra fólkið hefur lagt af stað fótgangandi út í auðnina í leit að hrossunum. Dauðar skepnur liggja umhverfis "gerið". Hræfuglarnir færa sig nær og úlfarnir eru vart langt undan. Ískaldur vindurinn blæs mold og sandi yfir menn og ferfætlinga.

Flestir geta sagt sögur af fólksflutningum úr suðurhluta landsins þar sem Góbí-eyðimörkin mótar náttúrufarið. Tíðir sandstormar þar gera að verkum að sífellt verður erfiðara að stunda hirðingjabúskap í nágrenninu. Bithagar verða eyðimörkinni að bráð. Margir hafa komið allslausir í leit að lífsafkomu í miðju landinu og þaðan hafa aftur margir flutt sig til norðurs. Fréttir berast af því að 7.000 fjölskyldur hafi flutt sig úr Dúndgóbí-héraði í suðurhlutanum á síðustu vikum og að þessu fólki sé nú borgið.

Þrátt fyrir að þetta fólk búi við fátækt sem er Vesturlandabúum með öllu óskiljanleg vill það allt fyrir gesti sína gera. Á meðan einn matarbiti er til í mongólsku "geri" er hann ætlaður gestinum. Við drekkum te með smjöri og kaplamjólk en getum launað fyrir okkur með hveiti og sælgæti handa börnunum.

Við ökum fram á hirðingja sem er að reyna að koma föllnu hrossi sínu á fætur. Það tekst með erfiðismunum og hann upplýsir að allir reyni að halda skepnum sínum standandi á meðan þess er nokkur kostur. Hross Mongóla, sem eru sýnilega af sama stofni og íslenski hesturinn, eru sterkbyggð en hirðinginn segir að engu að síður hafi "dzúd" nánast þurrkað út hross hans og kýr. Hann kveðst þó vongóður um að sauðfé og geiturnar lifi hörmungarnar af.

Vonleysi sýnist vera Mongólum framandi enda fengju þeir varla lifað í þessu stórkostlega fallega en erfiða landi ef slíkar sálarhræringar væru þeim eðlislægar. Land þar sem sumarhitar fara upp í 40 celsíus-gráður og algengt er að frostið mælist allt að 80 gráðum neðar hlýtur að geta af sér einstakt fólk. Jafnvel í Úlan Bator þar sem fátæktin og atvinnuleysið hefur getið af sér ægilegan félagslegan vanda, upplausn fjölskyldna, alkóhólisma og ofbeldi, halda flestir reisn sinni. Fjölskyldufaðir einn sem býr ásamt tíu ættingjum sínum í lítilli tveggja herbergja íbúð í úthverfi höfuðborgarinnar kannast reyndar við að erfitt sé að eiga sér drauma við þessar aðstæður en hann bætir við að margir eigi við meiri erfiðleika að etja en þau.

Sama bjartsýnin einkennir málflutning forsætisráðherra Mongólíu, hins 38 ára gamla, Rinchinnyamiyn Amarjargal. Hann fer fyrir stjórn tveggja sósíaldemókratískra flokka en flest bendir raunar til þess að stjórn hans muni falla í þingkosningunum í júnímánuði og flokkur endurhæfðra kommúnista, Byltingarflokkur mongólskrar alþýðu, komist á ný til valda.

Forsætisráðherrann segir að Mongólar hafi forðum ráðið yfir mesta landveldi mannkynssögunnar og ekkert sé því til fyrirstöðu að þeir geti á ný orðið öflugt ríki í Asíu. Landfræðileg staðsetning milli Rússlands og Kína veiti mikla möguleika á sviði verslunar og samgangna.

Hann kynnir fyrir okkur áætlanir sem óneitanlega hljóma nokkuð draumórakenndar m.a. að netvæða alla skóla landsins á næstu fimm árum. Slíkt sýnist ansi langsótt í landi þar sem vegakerfi sem staðið getur undir nafni er vart að finna.

Amarjargal forsætisráðherra kannast hins vegar við að stjórnvöld þurfi á aðstoð að halda erlendis frá vegna "dzúd". Sameinuðu þjóðirnar sendu í liðinni viku út alþjóðlegt neyðarkall vegna ástandsins í Mongólíu en talið er að allt að 30 milljónir dala muni kosta að koma hirðingjafjölskyldum til hjálpar. Yfir slíkum fjármunum ræður ríkisstjórn Mongólíu einfaldlega ekki. Forsætisráðherrann forðast hins vegar að tjá sig um hvort sú aðstoð sem borist hefur og metin er á um eina milljón Bandaríkjadala geti talist viðeigandi viðbrögð af hálfu alþjóðasamfélagsins við náttúruhamförunum í Mongólíu. Hann vísar í gamlan mongólskan málshátt: "Maður telur ekki tennurnar í hrossinu sem þegið hefur verið að gjöf."

Eftir vikudvöl í þessu stórkostlega landi hinna ósnortnu víðerna er undarlegt að koma til Peking, höfuðborgar Kína. Mannfjöldinn á götunum er lyginni líkastur og umferðin mjakast áfram. Vestrænar, kapítalískar, "framfarir" blasa hvarvetna við; skýjakljúfar og kæfandi mengun. Í sjónvarpinu æpa unglingsstúlkur sig hásar yfir ljóshærðum Kínverja með Bítla-klippingu sem syngur rapp-tónlist.

Nútíminn verður ekki lengur umflúinn í bili.