Joan Allen og William H. Macy í kvikmyndinni "Pleasantville".
Joan Allen og William H. Macy í kvikmyndinni "Pleasantville".
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríski skapgerðarleikarinn William H. Macy er með skemmtilegri leikurum bíómyndanna að mati Arnaldar Indriðasonar, sem kynnti sér feril hans og komst að því að Macy þarf á stórri, feitri Hollywood-mynd að halda.

ER HÆGT að ímynda sér nokkurn rolulegri mann en William H. Macy í þeim skepnulega gamantrylli Fargo eftir Joel og Ethan Coen? Macy lék bílasala sem lifði undir ofurvaldi tengdaföður síns. Þegar hann fékk frábæra hugmynd um leið til þess að auðgast í viðskiptum og kynnti hana fyrir tengdapabba stal sá gráðugi djöfull hugmyndinni án þess að blikna. Þegar Macy fékk öllu verri hugmynd um rán á eiginkonu sinni, dóttur gamla mannsins, til þess að hafa af honum lausnarfé, keypti hann óafvitandi þjónustu gersamlega samviskulausra morðingja, sem stútuðu kerlingunni við fyrsta tækifæri. Og þarna sat Macy á bílasölunni, í framan eins og sá guðsvolaði aumingi sem hann var, og í stað þess að hafa með honum einhvern vott af samúð hló djöfullinn innra með manni og hlær enn.

Fæddur í aulahlutverkin

Það þarf snilling í hlutverk af þessu tagi og Macy er sá snillingur. Meðferð hans á hinum algerlega misheppnaða ráðabruggara í Fargo veitti manni einhverja eftirminnilegustu kvikmyndaskemmtun síðasta áratugar ef ekki hreinlega síðustu áratuga. Síðan þá hefur Macy tekist að fullkomna ímynd þess sem alltaf verður undir í lífinu fyrir sakir eigin ístöðuleysis, hugleysis eða aðgerðarleysis. Dæmi um það má sjá í tveimur myndum Paul Thomas Andersons, Boogie Nights og Magnolia. Í fyrrnefndu myndinni lék hann hálfgerða framlengingu á bílasalanum í Fargo; eiginkona hans var klámdrottning sem var sífellt að gera það fyrir augunum á honum og hlustaði ekkert á aumingjalegar mótbárur hans þangað til hann fékk nóg og réðst á hana og nýjasta riðilinn með skammbyssu. Í Magnolia lék hann enn mann sem hafði orðið undir í lífinu, barnastjörnu mikla úr vinsælum spurningaþáttum sjónvarpsins, sem orðin er að engu. Ljóst er að Anderson tekst sérstaklega vel að nýta sér leikarann í rullur af þessu tagi.

Við hér á Íslandi tókum fyrst eftir William H. Macy í sjónvarpsþáttum. Þá var hann röggsamur stjórnandi og yfirmaður á stóru sjúkrahúsi og það var eins og hann hefði aldrei verið neitt annað. Þættirnir hétu Bráðavaktin og vöktu athygli á leikaranum þannig að honum fór að bjóðast kvikmyndahlutverk í Hollywood. Joel og Ethan Coen voru einna fyrstir til þess að sjá í honum þann magnaða leikara sem hann er og fengu hann í Fargo. Hann hafði leikið lítil hlutverk í ómerkilegum myndum fram að því en Fargo var eitthvað allt annað.

"Ég vissi það fyrir víst, og ég er ekkert að þykjast með það, að ég var fæddur til þess að fara með hlutverk bílasalans í Fargo," segir Macy í nýlegu viðtali í breska kvikmyndatímaritinu Empire. Hann vissi af hlutverkinu og að bræðurnir væru ekki búnir að finna leikara til þess að túlka það og hann flaug á fund þeirra og hótaði öllu illu ef hann ekki fengi að vera eiginmannsrolan. "Ég held að ég hafi sagt við þá að ég myndi skjóta hundinn þeirra ef ég fengi ekki hlutverkið," segir Macy og bætir við: "Ég veit ekki hvort þeir eiga hund."

Macy var útnefndur til Óskarsins fyrir hlutverkið (hann fékk ekki styttuna) og varð eftirsóttur í Hollywood. Það hafði tekið hann tuttugu ár að koma sér áfram innan kvikmyndanna. Hann var í Boogie Nights, Mystery Men og Happy, Texas svo nokkrar séu nefndar og oftar en ekki var hann aulinn. Fæddur til þess að verða undir í lífinu. "Já, það er heilagur sannleikur," segir hann. "Veistu, ég á eftir að kaupa mér hús með þessum aulahlutverkum." Þegar honum er bent á að hann hafi í sannleika sagt útlitið með sér í þessar rullur, jánkar hann því. "Það er líklega ástæðan, ég hef útlitið með mér. Ég á auðvelt með að vera niðurdreginn. Það sem ég geri til þess að fá áhorfendurna til þess að skilja þessa menn, er að ég leyfi þeim aldrei að gefast upp."

Mamet var kennari hans

William H. Macy (H-ið stendur fyrir Hill) lærði leiklist m.a. í Vermont þar sem kennari hans var leikritaskáldið, vinur hans og samstarfsmaður, David Mamet. Macy er sjálfur leiklistarkennari og viðurkennir að hann kenni sínum nemendum nákvæmlega það sama og Mamet kenndi honum forðum. Eitt af því sem nemendur hans fá strax að vita er að það sé ekki hægt að læra að leika, þeir eiga aldrei að kaupa námsbækur um listina að leika og þeir eiga aldrei að fara í leiklistarnám. "Þetta er allt saman dagsatt," segir Macy.

Hann stofnaði leikfélag í New York ásamt Mamet á áttunda áratugnum en á sama tíma og Mamet varð með tímanum eitt fremsta leikskáld Bandaríkjanna og er núna einn af athyglisverðari kvikmyndaleikstjórum vestan hafs, komst Macy ekkert áfram og um miðjan níunda áratuginn ákvað hann að hætta þessu rugli og gera eitthvað af viti. "Ég var leikari í New York og var að gera sama hlutinn aftur og aftur, lék í sama leikritinu endalaust, fátækur eins og heimilisleysingi. Svo gerðist það að einhver stelpa sagði mér upp og meira þurfti ég ekki til þess að vilja færa mig um set og ég flutti til Los Angeles til þess að byrja upp á nýtt."

Hann þekkir vel hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í draumaverksmiðjunni. "Leikaraliðið hér skiptist í stórstjörnur kvikmyndanna, menn og konur sem fá aðalhlutverkin, og skapgerðarleikara eins og mig og ég er hreykinn af að tilheyra síðastnefnda hópnum." Hins vegar er hann ekki frá því að hann sé efni í stórstjörnu. "Ég tilheyri barnabylgjunni frá sjötta áratugnum. Núna eru allir krakkarnir orðnir fullorðnir og á aldri við mig svo það hlýtur að vera þörf í þessum heimi fyrir rómantíska gamanmynd um menn með gyllinæð."

Þarf stóra, feita Hollywood-mynd

Hann hins vegar þekkir sín takmörk. "Ég er fimmtugur og hef ekki útlitið með mér svo það yrði mér varla til framdráttar að leika á móti Nicole Kidman." Hins vegar má geta þess að hann lék í lítilli ástarsenu á móti Neve Campbell í óháðri mynd sem sýnd var á Sundance-kvikmyndahátíðinni nýlega og heitir Panic. "Ég spurði hana að því hvort hún ætlaði að berhátta sig í atriðinu en hún sagði nei og spurði mig hvort ég ætlaði að gera það en ég sagði, nei, en ég var að vona að þú mundir gera það."

Macy hefur kynnst ágætlega hinum unga leikstjóra, Paul Thomas Anderson (hann er 29 ára), og hefur mikla unun af að starfa fyrir hann. "Ég hitti Paul í fyrsta skipti eftir að ég las handritið hans að Boogie Nights sem var ákaflega eldfimt og miklu klúrara en myndin sem hann gerði; það voru virkilega brjálaðir hlutir þar innan um og saman við. En ég hafði sérstaka ánægju af handritinu og fór að sjá myndina hans, Hard Eight. Í framhaldi af því sagði ég við hann: "Ég skal leika í Boogie Nights og ég skal leika í öllum myndum sem þú átt eftir að gera í framtíðinni." Þetta boð stendur enn. Ef Paul hringir í mig og segist vera að fara af stað með kvikmyndaútgáfu af símaskránni skal ég leika hvað sem er í henni."

Annars kvartar Macy undan verkefnaleysi þótt ótrúlegt sé. "Ég verð að komast í stórmynd á næstunni," segir hann og ber sig aumlega hvað launin varðar. "Ég hef að undanförnu aðeins leikið í einni mynd sem gerð er af óháðum aðilum (sem þýðir að ekkert Hollywood-kvikmyndaver dælir í hana peningum) og í leikriti sem sýnt var utan Broadway. Ég verð aðeins með 12.000 dollara í laun á þessu ári. Ég þarf virkilega á að halda stórri og feitri Hollywood-mynd."