Styttan af Bill Shankly, manninum sem lagði grunninn að stórveldinu, fyrir utan Anfield Road.
Styttan af Bill Shankly, manninum sem lagði grunninn að stórveldinu, fyrir utan Anfield Road.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Liverpool er sigursælasta félag í sögu enskrar knattspyrnu og þó víðar væri leitað. Skapti Hallgrímsson kom við í Liverpool-safninu á Anfield Road.

RÖDDIN er rám, framburðurinn skoskur. Ég get ekki neitað því að ég á að kannast við röddina, en kem henni ekki fyrir mig í svipinn. Átta mig svo á því að það er Bill heitinn Shankly sem talar. Man eftir röddinni af hljómplötu sem mér áskotnaðist fyrir margt löngu; á henni voru glefsur úr lýsingu BBC á úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða í Róm 1977, þegar Liverpool sigrað í keppninni í fyrsta skipti af fjórum og rætt var við Shankly eftir sigurinn. Hann var þá hættur að þjálfa félagið en var boðið með á leikinn.

Fyrir utan heimavöll Liverpool, Anfield Road - aftan við þann fræga hluta leikvangsins sem kallaður er The Kop stendur nú glæsileg stytta af Shankly, manninum sem lagði grunninn að því stórveldi sem Liverpool var á áttunda og níunda áratugnum. Hann tók við félaginu í slæmu ásigkomulagi en byggði upp frábært lið og áletrunin á stöpli styttunnar er vel við hæfi: He made the people happy. Hann gerði fólkið hamingjusamt.

Átján sinnum Englandsmeistari

Knattspyrnan hefur veitt mörgum manninum gleði um árin og í "Bítlaborginni" Liverpool hafa gleðistundirnar verið fleiri en víða annars staðar. Félagið sem kennir sig við borgina státar nefnilega af fleiri Englandsmeistaratitlum í knattspyrnu en nokkurt annað, alls 18. Fjórum sinnum hefur félagið sigrað í Evrópukeppni meistaraliða, tvívegis í Evrópukeppni félagsliða, UEFA-keppninni svokölluðu, fimm sinnum hefur Liverpool orðið enskur bikarmeistari og jafn oft deildarbikarmeistari. Sigurganga félagsins var með ólíkindum á áttunda og níunda áratugnum.

Á Anfield Road, heimavelli félagsins, hefur nú sem sagt verið komið upp skemmtilegu safni. Og það er fljótlega eftir að þangað er komið sem hin ráma rödd Shanklys hljómar þar sem hann ræðir við sína menn í búningsklefanum um miðjan sjöunda áratuginn.

Shankly er í hávegum hafður í Liverpool og ekki að ósekju. Hann gerði drauma fólksins að veruleika og varð goðsögn í lifanda lífi.

Þessi merki Skoti, sem þekktur var fyrir hnyttni og skemmtileg tilsvör, ekki síður en að vera frábær þjálfari, var ráðinn knattspyrnustjóri Liverpool í desember 1959. Þá var ástandið hjá félaginu ekki til að hrópa húrra fyrir: Liðið í 2. deild og afskaplega slakt. Shankly var við stjórnvölinn hjá Huddersfield og síðasti leikur liðsins undir hans stjórn var raunar 1:0 sigur á Liverpool á heimavelli 30. nóvember 1959 en tveimur dögum síðar var gengið frá ráðningu hans til Liverpool.

Fjórtánda dag desember mánaðar var hann tilbúinn til starfa. Vorið 1962 komst liðið upp í 1. deild - sem þá var efst deilda - og aðeins tveimur árum síðar var fyrsti meistaratitillinn í höfn.

Fjórir Evrópubikarar

Á safninu á Anfield er margt gamalla muna sem tengjast sögu félagsins. Búningar frá hinum ýmsu tímum, skófatnaður, boltar, mikið af myndum og veifum sem gerðar hafa verið í tilefni merkilegra leikja. Til dæmis fyrsta Evrópuleiks Liverpool: gegn Íslandsmeisturum KR í Reykjavík 17. ágúst 1964. Og "fæðingarvottorð" félagsins; plagg frá 1892 sem staðfestir stofnun þess. Auk þess verðlaunagripir af margvíslegu tagi og í vetur var til að mynda komið fyrir fjórum eftirlíkingum í fullri stærð af Evrópubikarnum í safninu - einni fyrir hvern sigur félagsins í Evrópukeppni meistaraliða. Margir af þekktustu leikmönnum Bretlandseyja hafa einmitt klæðst rauðu Liverpool-treyjunni. Einn þeirra, skoski miðherjinn Ian St. John (sem síðar varð þekktur sjónvarpsmaður í Bretlandi), var lengi helsta átrúnargoð stuðningsmanna Liverpool. Knattspyrna hefur löngum skipt borgarbúa geysilegu máli, segja má að áhuginn hafi jaðrað við trúarbrögð - og þetta tvennt tengist einmitt í eftirminnilegri sögu frá sjöunda áratugnum. Kirkjunnar menn höfðu sett upp skilti í borginni þar sem á var letrað: Hvernig brygðust þið við ef Jesús kæmi til Liverpool? Og ekki leið á löngu áður en spurningunni hafði verið svarað, greinilega af stuðningsmanni margumrædds knattspyrnuliðs, því á skiltið hafði verið skrifað: Við myndum færa St. John út á kantinn!

Líf eftir Shankly

Bill Shankly sagði starfi sínu óvænt lausu sumarið 1974, eftir að liðið varð bikarmeistari og varð mörgum um og ó. Gæti einhver fetað í fótspor meistarans? Ekki tókst að telja honum hughvarf, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, og við stjórastarfinu tók aðstoðarmaður hans, Bob Paisley, hæglátur maður sem var algjör andstæða fyrirrennarans. Shankly þreifst á því að vera í sviðsljósinu en Paisley kvaðst heldur vilja láta verkin tala - hann kysi að leikmenn sæju um að tjá sig fyrir hans hönd innan vallar. Og sú ósk hans rættist því Paisley er sigursælasti þjálfarinn í sögu ensku knattspyrnunnar. Verðlaunagripirnir hreinlega hrönnuðust upp hjá félaginu meðan hann var við stjórnvölinn, frá 1974 til 1983 og velgengnin hélt raunar áfram allan níunda áratuginn.

Og víst er að stuðningsmenn Liverpool bíða spenntir eftir því hvernig safnið verður í framtíðinni og margir eru bjartsýnir. Frakkanum Gérard Houllier, sem nú stjórnar Liverpool liðinu, hefur nefnilega tekist að gjörbreyta því til hins betra á skömmum tíma. Sumir vilja meira að segja líkja honum við Shankly, og lifa í voninni...