Skútan sjósett við Vasa-safnið í Stokkhólmi. Stuðningsaðilinn býður gestum að vera við sjósetninguna. Eins er gestum boðið að vera viðstaddir siglingakeppnirnar.
Skútan sjósett við Vasa-safnið í Stokkhólmi. Stuðningsaðilinn býður gestum að vera við sjósetninguna. Eins er gestum boðið að vera viðstaddir siglingakeppnirnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ottó Clausen siglingakappi býr á Álandseyjum og gerir út frá Svíþjóð. Guðni Einarsson ræddi við Ottó um uppvaxtarárin í Reykjavík, sjómennsku og kappsiglingar.

Ottó Clausen er fæddur í Reykjavík árið 1946 og segist vera í hópi þeirra elstu sem stunda kappsiglingar. "Það eru bara nokkrir stórir karlar á borð við norska kónginn og fleiri höfðingja, sem eru eldri en ég." Ottó segist stundum hafa hugleitt að hætta kappsiglingum. "En svo kemur sumarið og sólin og maður er aftur farinn af stað."

Faðir Ottós hét Ottó Clausen, en oftast kallaður Carlo. Hann stofnaði m.a. Vöku og var einn af stofnendum Bæjarleiða. Móðir Ottós hét Elín Jónína Karlsdóttir Sölvasonar. Ottó segir að Karl afi sinn hafi verið fyrsti gluggapússari á Íslandi. Hálfbróðir Ottós, samfeðra, er Eric Clausen, kvikmyndaleikstjóri og leikari í Danmörku. Ottó er sex barna faðir, það elsta 33 ára og það yngsta tæplega tveggja ára. Hann segir að sér hafi þótt of mikið að leggja þessar barneignir á eina konu og á fjórar barnsmæður. Yngsta barnið kom raunar á óvart. "Ég hélt þetta væri orðið vatn - en það var ekki svo," segir Ottó og hlær. Hann segir að reynslan hafi kennt sér að karlar eigi ekki að vera yngri en 30-35 ára þegar þeir verði feður. Fyrr hafi þeir engan tíma fyrir börn.

Hljóp í gegnum hurð

"Árið 1958 var ég sneggsti sendillinn á Morgunblaðinu, svo fljótur að ég hljóp í gegnum hurðina. Það var skrifað um það í blaðinu," segir Ottó. Síðar það sama ár hélt hann til Danmerkur að læra kjötiðn, aðeins 13 ára gamall. "Mér fannst ég ekki hafa neitt meira að gera í skólanum hér, með árunum hef ég séð að það var tóm vitleysa. Maður þarf á lærdómi að halda." Hann kom heim úr kjötiðnaðarnáminu 6. júní 1963, með Gullfossi í fyrstu ferð hans eftir brunann mikla.

"Mér þótti svo gaman um borð að ég fór í land og réð mig á skipið og fór út með Gullfossi aftur." Ottó var nokkra túra á Gullfossi og einnig á farmskipum Eimskipafélagsins. Næst lá leiðin á nýsköpunartogarann Ingólf Arnarson þar sem Ottó var í eitt ár. "Þetta var aflaskip og Sigurjón skipstjóri Stefánsson var dásamlegur maður."

Ottó segist lítið hafa starfað við kjötiðn hér á landi. Hann reyndi aðeins fyrir sér, en gafst upp vegna lágra launa. Það var miklu meira að hafa upp úr sjómennskunni.

Rekinn og ráðinn á víxl

Þar kom að Ottó kynntist konu að austan og flutti til Norðfjarðar. Þar var hann kokkur á aflaskipum, m.a. Bjarti, Barða og Birtingi. "Það var vaðandi síld um allt og góð þénusta. Við fylltum tvisvar á dag. Einu sinni gat ég farið suður eftir 17 daga veiðar og keypt mér nýjan Fólksvagn fyrir hlutinn." Sumar sjóferðirnar voru langar, til Jan Mayen og alla leið norður til Svalbarða. Ottó segir að þeir hafi meira að segja siglt út úr sjókortunum sem til voru um borð. Einn vélstjórinn, Íslendingur sem komið hafði frá Ástralíu þetta sumar, gerði sér lítið fyrir og teiknaði það sem á vantaði.

Þótt vel aflaðist var Ottó ekki alls kostar ánægður.

"Það var erfitt að búa á Norðfirði og vera ekki Norðfirðingur. Ég held að maður verði ekki heimamaður þar fyrr en í þriðja lið. Það var alltaf verið að reka mig því ég var réttindalaus og ekki í réttum flokki. Ég var rekinn ef einhvern Norðfirðing vantaði pláss, svo var ég ráðinn aftur."

Útþráin vaknar

Eftir fimm ár fyrir austan flutti Ottó til Reykjavíkur árið 1969. Hann fór að vinna sem hjálparkokkur Svans Ágústssonar í Þjóðleikhúskjallaranum og var þar í eitt ár. "Ég kynntist frægum og duglegum kokki og spjölluðum við mikið, þótt ég ynni aldrei með honum. Hann var nýkominn úr siglingum á útlendum farþegaskipum. Ég dáðist að sögunum hans og bað hann að hjálpa mér að komast í siglingar. Einu sinni kíktum við í glas og hann skrifaði fullt af meðmælum fyrir mig."

Ottó lenti í hjónaskilnaði og fór til Svíþjóðar í apríl 1970. Hann tók meðmælabréfin með sér. "Ég fór á ráðningarskrifstofu og lagði fram meðmælin. Þar blaðaði maður í gegnum bunkann og sagði svo: Ef þetta er allt lagt saman þá ertu um það bil 108 ára. Eigum við ekki bara að fleygja helmingnum af þessu?"

Fyrsti kokkur á farþegaskipi

Ottó vildi komast á skemmtiferðaskip og helst sem aðstoðarkokkur. Ráðningarstofan var hins vegar að leita að fyrsta kokki.

"Það var ekki hægt að bakka út úr meðmælunum sem ég hafði með mér og þeir þurftu á fyrsta kokki að halda. Ég reyndi að koma mér út úr þessu með því að segjast ekki kunna sænsku. Þá sagði maðurinn: Það er allt í lagi. Það eru tveir Íslendingar um borð." Ottó átti ekki svar við því og var ráðinn á farþegaskipið Hispania. Í eldhúsinu voru sex kokkar í kjötinu, aðrir sex í kalda borðinu og sex í fiskinum, auk aðstoðarfólks - og Ottó orðinn fyrsti matsveinn. Þegar hann kom um borð var annar Íslendingurinn, sem átti að hjálpa til við túlkunina, stokkinn úr skipsrúminu.

"Hinn var eini maðurinn um borð sem ég skildi ekki," segir Ottó. "Hann var kallaður Jón "andskoti" frá Grindavík meðan hann bjó á Íslandi. Nú átti Jón heima í Þýskalandi, var giftur pólskri konu og vann í Svíþjóð. Það skildi hann enginn. Hann var kokkur og kjötiðnaðarmaður og búinn að sigla í mörg ár á skemmtiferðaskipum. Fór sjaldan í land. Þegar maður loksins fór að skilja hann þá kunni hann ágætar sögur. "

Ottó segir að í áhöfn skipsins hafi verið 250 manns, alls staðar að úr heiminum, og margir skrautlegir í hópnum. Það var unnið í 30 daga og síðan 14 daga frí. Ottó var hjá útgerð Hispania í 11 ár og stundum lánaður á milli skipa. Hann var til dæmis í strandsiglingum í Chile þegar Alliende var steypt af stóli árið 1973. Skipið var kyrrsett og ekki hægt að fá kost um borð. Loks tókst að fá skipið laust fyrir milligöngu Sameinuðu þjóðanna. "Þá vorum við sendir til Argentínu og lestuðum þar. Siglt var til Luanda í Angóla og þegar við komum þangað var borgarastríðið að brjótast út. Áhöfnin fékk að fara heim, en skipið var fast."

Um borð í Hispania kynntist Ottó sænskri loftskeytakonu. Þau urðu síðar hjón og eignuðust tvö börn. "Við sigldum í nokkur ár áður en við eignuðumst börnin. Áttum heima á sjó og sigldum víða. Í þrjú ár vorum við til dæmis í siglingum á milli Japan og Malasíu," segir Ottó. Ráðningarfyrirkomulagið breyttist og skiptust á þriggja mánaða vera til sjós og þriggja mánaða frí. Þessi rúmi frítími gaf Ottó tækifæri til að láta gamlan draum rætast.

"Ég var orðinn mjög áhugasamur um að sigla seglbátum. Sjórinn hefur alltaf verið mitt líf. Það eina sem ég teiknaði þegar ég var hér í Laugarnesskólanum voru seglskútur, þótt ég vissi ekkert um þær og hefði aldrei komið um borð í skútu. Ég fékk svona brennandi áhuga á þessu og fór að sigla í fríunum á lítilli skútu sem ég keypti í Svíþjóð."

Ottó fór á skip frá Swedish-American Line-skipafélaginu, sem var orðið meira en aldargamalt og átti mörg skip. Hann var staddur í Ameríku þegar hann frétti á skotspónum að fyrirtækið væri farið á hausinn. "Fyrir tilviljun hitti ég Norðmann sem var ráðningarstjóri hjá norsku skipafélagi, Stolt-Nielsen, sem gerir út tankskip. Hann bauð mér starf og var ég hjá þeim í fimm ár sem bryti. Við vorum fimm Evrópumenn um borð og allir hinir frá Filippseyjum. Í áhöfn voru um 50 manns. Þeir borguðu vel og ég gat siglt allt sumarið." Ottó hætti hjá Stolt-Nielsen 1987.

Siglingakappi að atvinnu

Ottó bjó í sænska skerjagarðinum í Karlskrona og siglingarnar fóru að vinda upp á sig. "Fyrirkomulagið er þannig að þú færð fyrirtæki til að kosta útgerðina. Árið 1991 var ég kominn með 50 feta skútu og fór þá á laun hjá skútuútgerðinni minni. Eina skútuna kallaði ég Islandia, en ég vann aldrei neitt á henni svo ég seldi hana og breytti um nafn. Síðan hétu þær Surprise. Síðustu árin hafa skúturnar borið nafn stuðningsaðilans. Ég hef til dæmis verið styrktur af Michelin, Euromaster, Dagab, Merkantil Data og er nú með Sema Group, sem er franskt-enskt fyrirtæki með meira en 20 þúsund starfsmenn og yfir 160 milljarða (ÍKR) veltu á ári."

Ottó segir að skútusiglingar séu mjög dýr íþrótt. Hann gerir út 52 feta langa keppnisskútu í félagi við tvo aðra, en Ottó er skipstjóri. Skipið er 11 feta breitt og vegur 4.800 kg. Í áhöfninni eru 12-14 manns og valinn maður í hverju rúmi. "Ég hef alltaf passað mig á því að velja í áhöfnina menn sem eru betri en ég sjálfur. Með mér í áhöfn er til dæmis Daninn Jesper Bank. Hann hefur unnið eitt gull og tvö silfur á Ólympíuleikum og fer á næstu Ólympíuleika. Jesper Bank var valinn íþróttamaður ársins í Danmörku árið sem landslið þeirra í knattspyrnu vann Evrópumeistaratitil." Í sumar verður Ottó mikið til með sömu áhöfn og undanfarin ár. Nú er hann að leita að nýju skipi og hefur augastað á tveimur skútum, annarri á Spáni og hinni í Vestur-Indíum. Ottó hefur ekki gert upp við sig hvort skipið hann velur. Þessa skútu ætlar hann að eiga einn og gera út.

Margar siglingakeppnir

Siglingavertíðin hjá Ottó hefst þann 1. maí næstkomandi í Stokkhólmi. Í þeirri keppni verður siglt frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar, aftur til Stokkhólms og þaðan til Helsingfors. Áfram verður haldið til Norður-Finnlands og aftur upp til Helsingfors og Stokkhólms. Ottó segist taka þátt í 18 til 22 siglingakeppnum yfir sumarið.

Ein keppnin kallast Gotland Runt. Þar taka þátt 300-350 bátar sem keppast við að sigla 400 sjómílna (780 km) langan hring í kringum Gotland. "Síðustu 10-12 ár höfum við aldrei verið neðar en í 6. sæti, einu sinni unnið og þrisvar lent í öðru sæti." Ottó segist aldrei standa lengur en einn og hálfan tíma í einu við stýrið, þá tekur annar við. "Í keppni eins og Gotland Runt sem stendur um þrjá sólarhringa, er maður 3 stundir á vakt, sefur 3 stundir og aðrar 3 á bakvakt. Þegar er krussað eru allir á vakt. Það er hægt að krussa 33º upp í vind á 9-9,5 sjómílna hraða. Undan vindi siglum við á allt að 28 sjómílna hraða."

Góð kynning

Ottó segir að stórfyrirtækin víli ekki fyrir sér að styðja góða siglara. Þau fái þá peninga margfalt til baka. Þetta sé svo mikil kynning sem skili sér á ýmsan hátt. Það geti leitt til þess að gengi þeirra hækki á verðbréfamarkaði fyrir vikið.

Mikið tilstand er í kringum siglingakeppnirnar. Fyrirtækin sem kosta skúturnar bjóða gestum úr hópi valinna viðskiptavina að vera viðstaddir og gera vel við þá í mat og drykk. Gestunum er boðið í stutta siglingu á keppnisskútunni og oft eru leigðar lystisnekkjur eða seglskip þar sem haldin eru samkvæmi.

Þegar tími gefst til frá kappsiglingum notar Ottó skútuna til að fara í hvataferðir og hópeflisferðir (Team Building) með fólk úr viðskiptalífinu. Hann segir að athafnafólk sé löngu orðið leitt á því að vera boðið á fín hótel til að liggja þar í leti. Það sé miklu vinsælla að bjóða því í siglingu. Í þessum ferðum er Ottó með tvo aðstoðarmenn í áhöfn og gestirnir fylla þau pláss sem á vantar. Allir eru eins klæddir og þurfa að vinna á dekkinu, við seglin og annað sem þarf til að sigla skipinu. "Þegar menn vinna erfiðisvinnu saman þá byggist upp traust og trúnaður. Þegar þeir svo hringja hver í annan eftir siglinguna þá er það ekki lengur herra Jansson og herra Svensson, heldur Oskar og Ole."

Ottó hefur kynnst mörgum í gegnum siglingarnar. "Í fyrra hringdi í mig maður sem á North Sail-umboðið í Danmörku. Það er amerískt stórfyrirtæki og með útibú um allan heim. Hann er fastur áhafnarmaður á skútu spænska kóngsins og spurði hvort mig langaði ekki að skoða hana og prófa í nokkra daga. Hún væri til sölu og myndi henta mér vel. Ég fór niður til Vigo og var þar 6-7 daga að sigla. Þegar við komum á hótelið og ég sá hvað það var flott sagði ég að ég vonaði að þetta þyrftum við ekki að borga sjálfir. Til þess þyrfti alla sumarhýruna og engir peningar yrðu til fyrir nýju skipi. Við vorum í þrjá daga að sigla með kónginum og aðra þrjá á snekkju sem fylgdi honum. Skútan hans heitir Bribon, sem mun þýða skálkur eða flakkari."

Ottó hefur tvisvar keppt á móti norska kónginum og sigldu skúturnar tvær því sem næst hlið við hlið í 72 tíma árið 1998 í keppninni Gotland Runt. "Það fylgdi honum varðskip og ef þeim þótti við fara of nærri sigldu þeir upp að okkur," segir Ottó og brosir. Árið 1998 var hann tveimur og hálfri mínútu á undan kóngi og í fyrra tveimur og hálfri klukkustund á undan, "en hann vann mig á forgjöf," segir Ottó. Honum var það nokkur sárabót að sigra sænska kónginn í Gotland Runt-keppninni, sem kostuð var af Microsoft.

Í sjávarháska

Ottó segist sjaldan hafa lent í verulegum ógöngum. Það munaði þó litlu árið 1979 þegar hann tók þátt í Fastnet Race-siglingakeppninni. Þá er siglt frá Cowes nálægt Plymouth í Englandi, umhverfis Fastnet Rock við suðurodda Írlands og til baka.

"Ég var í átta manna áhöfn á 30 feta skipi sem hét gömlu víkingaskipanafni, Skidbladnir, eða Skíðblaðnir. Það skall á ógurlegt fárviðri. Við felldum öll segl og hentum út rekakkeri og öllu öðru sem gat dregið úr ferðinni. Stormurinn var svo sterkur að við sigldum samt á rúmlega níu mílna hraða undan veðrinu - á nöktum reiðanum. Okkur hvolfdi tvisvar um nóttina, báturinn fór heilar 180º en rétti sig við aftur.

Í seinni veltunni brotnaði rúða og skipið fylltist af sjó, en flaut samt.

Við reyndum að setja út björgunarbát, en líflínan slitnaði. Svo kom björgunarþyrla sem sá til okkar og bjargaði okkur. Þegar við vorum komin þar um borð sagði ég við skipstjórann á skútunni, sem var Svíi, að við gætum stofnað fyrirtæki um þennan ferðamáta: Sigla út - fljúga heim. Hann kunni ekki að meta það," segir Ottó. Í þessari keppni fórust 18 siglingamenn og þurfti að bjarga 125 úr sjávarháska.

Alltaf Íslendingur

Ottó hefur búið á Álandseyjum frá árinu 1991. Þá var hann aftur orðinn laus og liðugur og kynntist konu frá eyjunum. Hún var fyrst kvenna til að verða tollvörður í Finnlandi og starfar við tollgæsluna á Álandseyjum

Útivistin hjá Ottó er orðin nokkuð löng og hann ekki á heimleið. Hann er þó jafn mikill Íslendingur fyrir því. "Einu sinni Íslendingur, alltaf Íslendingur," eins og Ottó orðar það.

Í september næstkomandi fer Ottó á nýju skipi til Mallorca og tekur þátt í heimsmeistarakeppni í hafsiglingum. Hann sagði að sér þætti gaman að komast í samband við íslensk fyrirtæki sem vildu fara með gesti í siglingu um sænska skerjagarðinn. Það væri lítið mál að nefna skútuna eftir íslensku fyrirtæki sem vildi nota skipið til hópeflingar (Team Building). Skútan hans rúmar 10 manns og ekki spillir að hafa Íslending við stýrið.