DR. KRISTJÁN R. Jessen, prófessor í taugaþroskunarfræði við University College of London flytur fyrirlestur í taugalíffræði í kennslustofu á þriðju hæð í Læknagarði þriðjudaginn 18. apríl kl. 16.

DR. KRISTJÁN R. Jessen, prófessor í taugaþroskunarfræði við University College of London flytur fyrirlestur í taugalíffræði í kennslustofu á þriðju hæð í Læknagarði þriðjudaginn 18. apríl kl. 16. Fyrirlestur sinn nefnir Kristján "Glíafrumur úttaugakerfisins (Schwann frumur): Þroskun og hlutverk."

Dr. Kristján R. Jessen lauk BS prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1973 en fluttist síðan til London þar sem hann hóf nám og rannsóknir á sviði taugalíffræði. Hann lauk doktorsprófi í taugalíffræði frá University College of London árið 1980 og hefur síðan starfað við sömu stofnun sem Lecturer, Reader og frá 1993 sem prófessor. Kristján hefur verið leiðandi í rannsóknum á tilurð og hlutverki glíafrumna og hefur birt niðurstöður rannsókna sinna í virtustu tímaritum fræðasviðsins. Kristján er einnig höfundur yfirlitsgreina og bóka um efnið og situr í ritstjórn tímarita á fræðasviðinu. Hann hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir rannsóknir sínar og störf, m.a. viðurkenningu frá Wellcome Trust, stærsta og virtasta rannsóknasjóði Bretlands.

Kristján er vinsæll fyrirlesari og hefur fjallað um rannsóknaniðurstöður sínar á ráðstefnum og við stofnanir víða um heim. Hann hefur einnig kennt á fjölmörgum námskeiðum og verið leiðbeinandi fjölda doktorsnema. Kristján hefur hlotið ótal styrki til rannsókna sinna.