Barnafoss í Hvítá.
Barnafoss í Hvítá.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áhugamenn um laxrækt hafa lengi rennt hýru auga til Norðlingafljóts í Borgarfirði, enda hefur grunur leikið á að þar sé allt sem villtur laxastofn þurfi sér til viðurværis. Gallinn er bara sá að ekki er laxgengt í þessa borgfirsku perlu, Barnafoss í Hvítá sér til þess. Barnafoss er friðaður og því vart inni í myndinni að breyta ásýnd hans með laxastiga. Guðmundur Guðjónsson kynnti sér hugmyndir manna á dögunum og fregnaði þá að jarðgöng gagnast fleirum en mannskepnunni.

Borgarfjarðarhérað er mesta laxakista Íslands. Stóra slagæðin er Hvítá í Borgarfirði og í hana renna allar minni æðarnar, m.a. Norðurá, Þverá/Kjarrá og Grímsá, sem allar eru í hópi allra bestu laxveiðiáa landsins. Þarna eru og fleiri þekktar ár, Flóka, Gljúfurá, Reykjadalsá og Langá, sem rennur að vísu ekki í Hvítá, heldur inn á leirusvæði botns Borgarfjarðar, skammt vestan við Borgarnes. Það er því skrýtið að líta augum gríðarlega fallega og vatnsmikla á í þessu héraði og vita að hún á sér engan laxastofn.

Samt hefur verið laxveiði í Norðlingafljóti síðan árið 1987, en sú veiði hefur byggst á því að leigutakar árinnar hafa keypt hafbeitarlaxa, oftast frá Lárósi, sleppt þeim í ána og girt hana af niður undir ármótunum við Hvítá. Sigmar Björnsson hefur leigt ána síðustu ár og haft þennan háttinn á. Fyrirkomulagið nýtur vinsælda og Sigmari hefur gengið vel að selja veiðileyfin. Sumir vilja trygginguna sem fylgir því að vita nánast upp á lax hvað er af fiski í ánni. Sleppingar á hafbeitarlaxi hafa þó alltaf verið fremur umdeild athöfn og háð tilskildum leyfum frá veiðimálastjóra og fisksjúkdómanefnd. Þeir sem eru mótfallnir sleppingu framandi laxa á þennan hátt bera fyrir sig kunnuglegar útskýringar, stofnablöndun við villta stofna nærliggjandi áa og sjúkdómahættu.

Það var svo í fyrra, að leyfi fyrir flutningi á hafbeitarlaxi í ána var háð því skilyrði að hafist yrði handa með athuganir á því hvort eigi væri hægt að gera Norðlingafljót að sjálfbærri laxveiðiá. Það er Veiðifélag Hvítár og Norðlingafljóts sem stendur að málinu, en tveir aðilar hafa öðrum fremur komið að þeim athugunum, Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hjá Vesturlandsdeild Veiðimálastofnunar og Vífill Oddsson, verkfræðingur sem athugaði svæðið með tilliti til fiskvegagerðar.

"Norðlingafljót er laxveiðiá af guðs náð og því verðugt verkefni að finna út hvernig greiða megi laxi aðgengi að ánni," segir Sigurður Már, sem vann í fyrra matsskýrslu á framleiðslugetu árinnar fyrir lax. Niðurstöður skýrslunar eru mjög jákvæðar og telur Sigurður að með markvissri ræktun og fiskvegagerð megi koma up sjálfbærum laxastofni sem gefi 700 til 1000 laxa veiði á sumri.

Margslungin á

Norðlingafljót fellur í Hvítá skammt ofan við svokallað Hundavað í Hvítá, um 4 kílómetra ofan við Barnafoss í Hvítá. Fljótið er 66 kílómetrar að lengd fram í efstu drög. Vatnasviðið er 920 ferkílómetrar, sem er um 24% af vatnasviði Hvítár. Norðlingafljót flokkast sem dragá, en hefur auk þess sterk lindáreinkenni og einnig jökuláreinkenni. Jökulþátturinn er nokkuð stór, en áætlað hefur verið að um 200 ferkílómetrar af vatnasviði Fljótsins komi frá jöklum, eða um 22% af aðrennslissvæði Norðlingafljóts. Þrátt fyrir það, er Fljótið ekki oft skolað og margar jökulkvíslar frá Langjökli og Eiríksjökli ná ekki að renna til Norðlingafljóts, heldur hverfa ofan í jörðina, enda á ferð yfir fremur ung og hriplek hraun.

Megnið af vatni Norðlingafljóts er upprunnið í vötnum og tjörnum á Arnarvatnsheiði, þar sem landslagið einkennist af sléttum heiðalöndum. Fljótið telst því að mestu leyti vera heiðavotlendisvatn, en einkenni slíkra áa er að vatnið er að safnast saman smátt og smátt, er mjög næringarríkt og hefur hagstætt hitafar og rafleiðni. Slíkar ár framleiða oft mikið af laxi. Sérfræðingar sem rætt hefur verið við, Sigurður Már, Vífill Oddsson og Sigmar Helgason, sá er hefur flutt hafbeitarlax í ána síðustu árin, tala gjarnan um samlíkingu milli Norðlingafljóts og Kjarrár. Það er ekki leiðum að líkjast, en ástæðan er augljós, Kjarrá á einnig upptök í vötnum og tjörnum Arnarvatnsheiðar og Tvídægru, hefur alla sömu góðu kostina og er ein mesta laxveiðiá landsins.

Það er ekki nóg með að fiskifræðingurinn hafi séð á athugunum sínum að lax muni þrífast vel í Norðlingafljóti, heldur hefur það þegar komið fram. Leigutakinn Sigmar Helgason hefur flutt lax í ána síðustu ár og veiðin hefur verið að jafnaði um eða yfir 900 laxar á 75 veiðidögum. Segir hann það um það bil 75,5% þess fjölda sem hann hafi sleppt í ána. Eftirlegulaxar hafa hrygnt í ánni og náð góðum árangri þótt seiðaþéttleiki sé ekki mikill og suma árganga vanti. Segir Sigmar aukna laxveiði ofarlega í Hvítá, hjá Stórási og Bjarnastöðum trúlega stafa af þessari hrygningu.

Sigurður Már segir í skýrslu sinni að afrakstursgeta Norðlingafljóts sé umtalsverð og mikilvægt atriði sé að seiði í ánni nái sjógöngustærð á þremur árum sem er mjög gott hér á landi. Í skýrslunni stendur: "Sé miðað við að búsvæði Norðlingafljóts frá Ármótum að Bjarnafossi (22 kílómetra frá ármótum) væru fullnýtt með tilliti til hrygningar og seiðauppeldis, er áætlað samkvæmt fyrrgreindu sambandi framleiðslueininga og meðalveiði á laxi, að Norðlingafljót gæti gefið af sér ríflega 1000 laxa veiði að meðaltali. Líklegt er þó að þessi tala geti verið nokkru lægri, þar sem Norðlingafljót er aðeins jökulskotið og liggur mun hærra yfir sjávarmáli en búsvæði í viðmiðunarám, þannig að hér er gert ráð fyrir að í Norðlingafljóti gætu veiðst á bilinu 700 til 1000 laxar"

Síðar í skýrslunni er hugleiðing um hvað svona lagað tæki langan tíma: "Nokkur tími myndi líða þar til sjálfbær stofn yrði til af þessari stærð. Landnám lax á nýju landssvæði gerist yfirleitt ekki mjög hratt. Til að flýta fyrir slíku landnámi yrði að stunda mjög öflugar sleppingar seiða í nokkur ár með laxastofni sem er uppruninn við svipaðar aðstæður. Bent er á að stofn Kjarrár í Borgarfirði er sá laxastofn sem ætti að henta best, því árnar hafa uppruna af sama landssvæði og eru hluti af vatnakerfi Hvítár.

Tilvist á sjálfbærum laxastofni í Norðlingafljóti er háð því að fiskgengt væri í Norðlingafljót. Möguleikar til þess felast einkum í því að Barnafoss í Hvítá væri fiskgengur, en einnig eru möguleikar á því að veita hluta Norðlingafljóts í Litlafljót, sem fellur í Hvítá skammt neðan við Barnafoss. Ef Barnafoss í Hvítá væri fiskgengur, myndu búsvæði í Hvítá og öðrum þverám ofan við fossinn opnast og gæti bleikjustofn Hvítár hugsanlega nýtt sér það þó þeir möguleikar hafi ekki verið rannsakaðir."

Jarðgöng fyrir hreistraða

Þá er það spurningin hvernig koma megi göngufiskum, laxi í Norðlingafljót og bleikju upp fyrir Barnafoss, og þar kom til kasta Vífils Oddssonar hjá Teiknistofunni Óðinstorgi, en hann er í hópi reyndustu verkfræðinga landsins þar sem fiskvegir eru annars vegar. Út í þá vinnu fóru menn vitandi að vart fengist leyfi til að hrófla við Barnafossi þar sem hann er friðlýstur. Tveir kostir voru samt fyrir hendi, annar að veita Norðlingafljóti yfir hraunið og yfir í Litlafljót sem rennur í Hvítá skammt neðan við Hraunfossa og Barnafoss eða, það sem aldrei hefur verið gert hér á landi, að leggja jarðgöng fram hjá Barnafossi. Það er ekki eins og hugmyndin hafi skyndilega sprottið upp, Norðmenn hafa nokkuð langa og góða reynslu af fiskvegagerð í formi jarðganga og er á fjórða tug fiskvega þar í landi jarðgöng.

Í skýrslu sem Vífill hefur afhent veiðiréttareigendum og er unnin af honum og Sigurði Má fiskifræðingi segir eftirfarandi um kosti og galla fiskvegagerðar við Barnafoss.

Kostirnir fyrst: a) Öll búsvæði Norðlingafljóts myndu nýtast til framleiðslu á laxi. Ef aðrar leiðir eru valdar, er hætta á að sá hluti Fljótsins sem er neðan við veitu út í Litlafljót, nýttist ekki til seiðaframleiðslu nema að litlu leyti og stofnstærð laxastofnsins myndi minnka í réttu hlutfalli við skerðingu búsvæða.

b) Nokkrir núverandi veiðistaðir í Norðlingafljóti myndu ekki nýtast, en fjöldi þeirra færi eftir staðsetningu á Litla-Fljótsveitu.

c) Búsvæði í Hvítá og öðrum Þverám ofan við Barnafoss myndu opnast fyrir fiskframleiðslu og veiði. Líklegt er að það myndi einkum nýtast bleikju, en stór sjóbleikjustofn er í Hvítá neðan við Barnafoss.

d) Engin hætta er á breytingum á lindarrennsli til Hraunfossa.

e) Engar breytingar yrðu á eignarhaldi og arði til landeigenda.

Gallar:

a) Kostnaður við framkvæmdina er töluverður bæði við Barnafoss, auk lagfæringar á hindrunum í Hvítá og neðsta hluta Norðlingafljóts.

b) Barnafoss er friðlýstur. Ekki er vitað hvort leyfi fæst til framkvæmda.

c) Vatnshiti er lágur í Hvítá vegna mikils innstreymis á lindarvatni. Áhrif vatnshitans á göngutíma lax og göngur lax um fiskveg í Barnafossi eru óljós.

Á mynd sem þessari grein fylgir má sjá hvernig Vífill hugsar sér að göngin liggi. Þau eru býsna löng þar eð mikill og ógnvænlegur straumur er í gljúfrinu niður af Barnafossi og innganga í göngin þarf að koma til um 150 metrum fyrir neðan fossinn. Vifill leggur fram áætlunartölur um kostnað við jarðgangagerðina og sækir þar m.a. í smiðju Jónasar Frímannssonar, verkfræðings hjá Ístaki. Tvær kostnaðaráætlanir eru upp á 58 milljónir sú dýrari og 38 milljónir sú ódýrari. Munurinn liggur í gerð göngubrautar til hliðar við fiskveginn til viðhalds og eftirlits. Er það dýrari kosturinn, en slíkri braut er sleppt í ódýrari kostinum. Þeir félagar nefna í leiðinni að gerð hefðbundins laxastiga í Barnafoss myndi kosta um 27 milljónir.

Ef þessi leið yrði farin, að gera fiskveg með jarðgöngum við Barnafoss þyrfti einnig að ráðast í lagfæringar á öðrum fyrirstöðum ofar á svæðinu. Skammt ofan við Hraunsás er t.d. Halafoss í Hvítá. Þar þarf að sprengja rauf í suðurhluta fossins til að auðvelda uppgönguna. Kostar það um hálfa milljón.

Um hálfum kílómetra fyrir neðan ármót Hvítár og Norðlingafljóts er síðan Hundavaðsfoss, en hæð hans er 2,6 metrar. Ekki er fullkannað hvort þurfi að gera þar fiskveg eða sprengingar þar sem dæmi eru um að laxar ráði við enn hærri fossa. En komi til aðgerða við Hundavaðsfoss þyrfti að gera í hann laxastiga upp á hálfu fimmtu milljón króna.

Skammt ofan ármóta Hvítár og Norðlingafljóts er Smiðjuásfoss í Norðlingafljóti. Í skýrslunni stendur þetta um Smiðjuásfoss: "Þetta er eina verulega hindrunin í Norðlingafljóti þar til kemur að Bjarnafossi, u.þ.b. 22 kílómetra fyrir ofan ármótin. Heildarhæðarmunur í Smiðjuásfossi er 4 metrar. Fossinn er í nokkrum stöllum og er fremur flúð en foss. Ef hann er ekki þegar laxgengur, þá ætti að vera hægt að gera hann laxgengan með því að lækka nokkuð fossbrúnina við austurbakkann. Neðstu stallarnir eru um það bil 1,5 metrar á hæð og efri stallarnir um það bil 2,5 metrar á hæð. Ef sá stallur yrði lækkaður um 0,5 til 1,0 meter með sprengingum ætti fossinn að verða laxgengur. Kostnaður við slíka aðgerð er áætlaður 1 milljón króna. Ef aftur á móti yrði settur stigi í fossinn má áætla kostnað við þá framkvæmd á um 7 milljónir króna."

Hraunveitur og hitastig

Tvær aðrar leiðir hafa verið nefndar, þ.e. að veita hluta Norðlingafljóts í Litlafljót sem fellur í Hvítá að norðanverðu fyrir neðan gljúfrin sem hýsa Barnafoss og hina frægu Hraunfossa, þar sem kalt lindarvatnið sprettur út úr hraunkantinum á löngu svæði og fossar út í Hvítá.

Það eru bæði kostir og gallar við hraunveituleiðirnar.

Kostnaður við hinar ýmsu útfærslur hraunveitunnar er ýmist hærri eða lægri heldur en jarðgangagerðin og meðal kosta við hraunveiturnar er nefnt að hugsanlega gengi betur að fá lax til að ganga upp Litlafljót heldur en um fiskveg í Barnafossi vegna lágs vatnshita í Hvítá neðan Barnafoss. Mikið innstreymi lindarvatns er í Hvítá á því svæði og mælingar á vatnshita í Hvítá við Bjarnastaði, nokkru neðar, síðasta sumar, sýna að vatnshitinn er að hlaupa á bilinu 4 til 9 gráður og er afar oft í kring um sex gráður. Þetta er nokkuð kalt fyrir lax og hitinn fer lækkandi er nær dregur Hraunfossunum sem valda þessum kulda. Þeir Vífill, Sigurður Már og Sigmar eru allir sammála um að í vatnshitanum liggi stærsta spurningarmerkið sem hangi yfir jarðgangagerðinni. Vífill sagði að á ráðstefnu sem hann sat nýverið í Noregi, þar sem fjallað var um fiskvegagerð, hefðu sérfræðingar talað um að við sex gráður breyttist mjög athafnagleði laxa og þar með göngugleði. Spurningum um þetta verði þó varla svarað nema með því að láta reyna á hlutina. Það er að heyra á þeim félögum að þrátt fyrir umrætt spurningarmerki sé jarðgangagerðin fýsilegri kostur heldur en hraunveitan, því með hraunveitunni tapist stór og góð búsvæði í Norðlingafljóti og ekki sé víst að jafngóð eða betri komi í staðinn í Litlafljóti. Fjöldi veiðistaða myndi einnig hverfa og arðskrármál yrðu flóknari.

Í sumar halda rannsóknir og undirbúningur áfram. Það styttist í ákvarðanatöku.