TÆKNIÞJÓNUSTA Flugleiða á Keflavíkurflugvelli hefur tekið að sér stórskoðanir á Boeing 757-flugvélum þriggja erlendra flugfélaga. Gert er ráð fyrir að tekjur Tækniþjónustunnar vegna verkefna fyrir erlend flugfélög nemi alls um 220 milljónum kr.

TÆKNIÞJÓNUSTA Flugleiða á Keflavíkurflugvelli hefur tekið að sér stórskoðanir á Boeing 757-flugvélum þriggja erlendra flugfélaga. Gert er ráð fyrir að tekjur Tækniþjónustunnar vegna verkefna fyrir erlend flugfélög nemi alls um 220 milljónum kr. á þessu ári.

Samningarnir sem Tækniþjónustan hefur undirritað eru við spænska flugfélagið Iberia, kanadíska flugfélagið Air Transat og hollenska flugfélagið Martinair.

Í flugskýli Flugleiða á Keflavíkurflugvelli stendur þessa dagana yfir stórskoðun á einni af vélum Iberia-flugfélagsins og í maí fer fram sambærileg skoðun fyrir Air Transat sem er stærsta flugfélag Kanada. Vonir standa til að um áframhaldandi verkefni verði að ræða, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Flugleiðum. Umfang hverrar stórskoðunar er á bilinu 5-10 þúsund vinnustundir.

Viðhaldsstjórn fyrir Martinair

Samkvæmt samningum við Martinair mun Tækniþjónustan jafnframt sjá um rekstur viðhaldskerfis og annast viðhaldsstjórn á Boeing 757-flota Martinair. Fyrirtækið annast í dag sams konar rekstur fyrir Greenlandair sem er með eina Boeing 757 í rekstri.

Tækniþjónusta Flugleiða var á síðasta ári gerð að sjálfstæðri rekstrareiningu innan fyrirtækisins. Starfsmenn eru 230 og veltan á þessu ári áætluð um 2,4 milljarðar króna.