Katrín Huld Grétarsdóttir með margmiðlunardiskinn.
Katrín Huld Grétarsdóttir með margmiðlunardiskinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nemendur í alþjóðamarkaðsfræði við Tækniskóla Íslands buðu fyrirtækjum og ráðningarstofum til kynningar á náminu í Þróttaraheimilinu í Laugardal á föstudag. Gestir voru leystir út með margmiðlunardiski með kynningu á náminu og skólanum.

Nemendur í alþjóðamarkaðsfræði við Tækniskóla Íslands buðu fyrirtækjum og ráðningarstofum til kynningar á náminu í Þróttaraheimilinu í Laugardal á föstudag. Gestir voru leystir út með margmiðlunardiski með kynningu á náminu og skólanum. Katrín Huld Grétarsdóttir, nemandi í alþjóðamarkaðsfræði, segir að háskólanám hafi ekki áður verið kynnt með svipuðum hætti á margmiðlunardiski.

Villandi nafn

Katrín Huld segir að hugmyndin að kynningunni hafi kviknað eftir að nemendum í markaðsfræði í öllum öðrum skólum en Tækniskólanum var boðið til árlegrar auglýsingahátíðar auglýsingahönnuða fyrir skemmstu. Ein ástæðan fyrir því að alþjóðamarkaðsfræðin gleymdist gæti falist í villandi nafni skólans. Hið rétta væri að Tækniskólinn væri háskóli og þar færi ekki aðeins fram tækninám eins og nafnið gæfi til kynna.

Raunhæf lokaverkefni

Alþjóðamarkaðsfræðinám stendur nemendum til boða að loknu tveggja ára háskólanámi í iðnrekstrarfræði eða rekstrarfræði frá Samvinnuháskólanum á Bifröst. Námið tekur tvær annir og er sérstök áhersla lögð á tungumálanám. Öll samskipti fara fram á ensku ef frá er talið lokaverkefnið. Um er að ræða raunhæft verkefni í tengslum við hugsanlegan útflutning starfandi íslensks fyrirtækis. Þrír skiptinemar, 2 frá Finnlandi og einn frá Eistlandi, hafa stundað námið hér á landi í vetur. Íslensku nemendunum gefst kostur á að stunda helming námsins á erlendri grund, t.d. í Danmörku, Finnlandi og Belgíu.

Góðir starfs- möguleikar

Að sögn Katrínar Huldar eru starfsmöguleikar nemenda að námi loknu góðir. Íslensk fyrirtæki séu að gera sér grein fyrir því hversu mikilvægu hlutverki markaðssetning gegni í heildarferli rekstrarins.

Fyrir utan kynningu á skólanum, nemendum og náminu er að finna á margmiðlunardiskinum viðtöl við ýmsa aðila sem koma að náminu á einn eða annan hátt, þ.e. fyrrverandi nemendur, kennara og fulltrúa fyrirtækja sem verkefni hafa verið unnin fyrir. Íslensk fyrirtæki tengd alþjóðamarkaðsfræðináminu hafa styrkt kynninguna og gerð margmiðlunardisksins.