Kaþólikkar á Jakobsmessu í Santiago de Compostela krjúpa fyrir framan styttu af heilögum Jakobi og biðja.
Kaþólikkar á Jakobsmessu í Santiago de Compostela krjúpa fyrir framan styttu af heilögum Jakobi og biðja.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þúsundir fara árlega fótgangandi um 800 km leið til Santiago de Compostela á norð-vesturströnd Spánar sem talin er ein af þremur helgustu borgum kristinna manna. Hrönn Marinósdóttir hóf ferðina í Burgos síðsumars og keyrði hluta frönsku pílagrímaleiðarinnar til Santiago sem eitt sinn var talin útvörður heimsins.

EFTIR því sem nær dregur þéttist fólksfjöldinn. Dómkirkjan er loks í augsýn og öngstrætin allt í kring eru full af fólki. Jakobsmessa stendur yfir og pílagrímar streyma hvaðanæva að til hinnar heilögu borgar, Santiago de Compostela. Að fornum sið hafa margir gengið leiðina til Santiago um 800 kílómetra, frá Frakklandi og yfir þveran Spán. Aðrir koma enn lengra að og úr öðrum áttum, ýmist gangandi, hjólandi, akandi eða ríðandi.

Í um þúsund ár hafa pílagrímar gengið til borgarinnar, þar sem heilagur Jakob er sagður vera jarðsettur en hann er talinn hafa breitt út boðskap Krists í þessum heimshluta.

Á miðöldum lágu allar leiðir til Santiago de Compostela. Borgin er talin vera ein af þremur helgustu borgum kristinna manna á eftir Jerúsalem og Róm. Á miðöldum, þegar mest var, kom árlega um hálf milljón manna fótgangandi til Santiago í þeirri von um að verða vitni að kraftaverki við gröf heilags Jakobs eða hljóta syndafyrirgefningu. Á tímabili fækkaði pílagrímum en nú virðist sem gönguleiðin til Santiago njóti æ meiri vinsælda, ekki síst hjá þeim sem sameina vilja útiveru, trúaráhuga og ferðalög.

Caroline Phillips frá Bandaríkjunum er talandi dæmi. Um það bil mánaðargöngu hennar um Spán er lokið og nú hvílir hún lúin bein, fyrir framan dómkirkjuna í Santiago. "Ætli ég hafi ekki heimsótt um 120 kirkjur samanlagt, um það bil fjórar á dag, en ferðalagið var afar skemmtilegt, maður kynnist fólki af ýmsu þjóðerni og nýtur þess að vera úti í náttúrunni."

Mánaðarganga um grænan Spán

Göngugarpar nútímans eru auðþekkjanlegir í Santiago de Compostela. Margir haltra um með bakpoka á öxlum, hatta á höfði, göngustafi og skeljar um hálsinn - tákn þeirra sem eru handgengnir heilögum Jakobi. Skeljarnar voru upphaflega bornar til merkis um að viðkomandi hafi komið á enda veraldar en talið var að vesturströnd Spánar, sem Santiago de Compostela stendur við, væri útvörður heimsins.

Göngumenn eru á öllum aldri en ungt fólk er í meirihluta. Að baki er mikið ævintýri, hjá mörgum um það bil mánaðarganga, löng og ströng um fjalllendi og grænan Spán sem á lítið skylt með þeim Spáni sem margir Íslendingar þekkja frá Costa del Sol. Flestir ganga á eigin vegum en einnig eru í boði styttri skipulagðar ferðir sem hefjast t.d. í Burgos, eða León. Algengt er að menn gangi að meðaltali um 20 km á dag en sumir fara hraðar en aðrir hægar eins og gengur.

Ein af menningar- borgum Evrópu

Dag postulans Jakobs bar upp á sunnudag í fyrra, 25. júlí, og þegar svo ber undir er þess vænst að kaþólikkar geri sér ferð í dómkirkjuna í Santiago til þess að biðjast fyrirgefningar á syndum sínum. Um tíu milljónir manna komu til borgarinnar árið 1999 í tilefni Jakobsmessu, þar af fetuðu um tvær milljónir slóð pílagríma til forna.

Íbúafjöldi Santiago de Compostela er svipaður og í Reykjavík og þar er vinsæll háskóli. Borgin hlaut menningarverðlaun Evrópuráðs en auk þess hefur UNESCO útnefnt hana sem eina af gersemum heimsins.

Alla jafna er rólegt í Santiago de Compostela, lítið er um ferðamenn nema þegar Jakobsmessa stendur yfir sem næst verður árið 2003. Væntanlega er einnig líflegt um að litast í borginni í ár því Santiago er ein af níu menningarborgum Evrópu.

Á torginu fyrir framan dómkirkjuna fögru á Plara de Obradoiro í Santiago de Compostela er mikið um að vera. Löng biðröð er inn í kirkjuna um "heilögu dyrnar" á framhlið hússins, Portico la Gloria. Aðeins er gengið inn um þær, þau ár sem Jakobsmessa stendur. Ungir sem aldnir, heilu fjölskyldurnar láta sér lynda að bíða í röðinni guðslangan daginn í steikjandi hitanum.

Þar eru skemmtikraftar af ýmsum toga. Menn leika styttur, einn stóð grafkyrr eins og Rómverji og annar lék munk. Lítill drengur rak upp skelfilegt vein þegar styttan hreyfði sig. Rómverjinn er á lífi!

Í nágrenninu úir og grúir af veitingastöðum og verslunum sem selja minjagripi; styttur af heilögum Jakobi, göngustafir, skeljar og litlar sekkjapípur sem gefa frá sér skerandi hljóð, en börnin hafa gaman af. Santiago er borg handverksmanna og silfurmunir af ýmsum toga setja svip á verslanir.

Röðin þokast hægt að innganginum, loks ganga pílagrímar inn í stórt anddyri og þar fyrir ofan gnæfir Portico de la Gloria. Samkvæmt gamalli hefð leggur pílagrímurinn hönd á líkneski af Jakobi, þar hefur myndast dæld sem markast hefur afþeim milljónum pílagríma sem á undan komu. Pílagrímurinn lýtur höfði og ennið snertir súluna. Í gegnum tíðina hefur skapast hjátrú í kringum þessa helgiathöfn. Margir kaþólikkar trúa að ein ósk þeirra af þremur muni rætast þegar höndin snertir styttuna.

Á segllausu skipi stýrðu af Guði

Jakob var lærisveinn Jesú, bróðir Jóhannesar og sonur fiskimannsins Zebedee. Jakob boðaði fagnaðarerindið á Spáni og naut mikilla vinsælda, að því er sagan segir. Ekki tókst honum að snúa mörgum til kristinnar trúar og því sneri hann aftur til Palestínu. Þar var hann líflátinn en lærisveinar hans fluttu líkama hans aftur til Galisíu - á báti án segla sem stýrður var af Guði. Gröf hans gleymdist í 800 ár, allt þar til konungurinn Alfonso annar, byggði kirkju á þeim stað þar sem talið er að hann hafi verið jarðsettur og fljótlega varð Jakob himneskur verndari Spánar.

Hrafn Sveinbjarnarson á ferð í Jakobslandi

Jakobssaga postula var þýdd á íslensku á miðöldum, að sögn Ásdísar Egilsdóttur, lektors við Háskóla Íslands. Vitað er um fáeina norræna menn sem komu til Galisíu, að sögn Ásdísar, Hrafn Sveinbjarnarson og Noregskonungana Ólaf Haraldsson og Sigurð Jórsalafara. Einnig fór Rögnvaldur Orkneyingajarl þangað. Minnst er á ferð Sigurðar í Heimskringlu og Rögnvalds í Orkneyingarsögu. Þeir munu hafa farið sjóleiðina og Hrafn væntanlega líka. Hrafns saga er stuttorð um ferð Hrafns. Þar segir aðeins: "Þaðan fór hann vestur til Jakobs." Ásdís segir að í íslenskum miðaldaritum hafi Galisía verið kennd við Jakob og kölluð Jakobsland.

Stærsta reykelsisker heims í kirkju

Dómkirkjan í Santiago krefst nánari skoðunar. Heila dagstund ef ekki meira þarf til þess að skoða innviði þessarar mögnuðu kirkju sem margir helstu listamenn Spánar hafa skrýtt. Hún er gríðarstór, sjálft kirkjuskipið er á stærð við fótboltavöll, þar eru stórir sjónvarpsskermar og í hliðarsölum er fjöldi minni kapella, elsti hluti kirkjunnar er talinn vera frá árinu 1075. Til þess að komast inn í grafhvelfinguna í kjallara, þurfti einnig að standa í biðröð en þar eru jarðneskar leifar Jakobs postula og tveggja lærisveina hans sagðar hvíla í duftsilfurkeri. Við altarið heilsa menn heilögum Jakobi eina ferðina enn, þar er stytta af honum í gervi pílagríma. Við altarið er að finna stærsta reykelsi í heimi, ef marka má orð Monicu Diaz, leiðsögumanns. "Kveikt er á því einu sinni á dag og hvorki meira né minna en átta menn þarf í að sveifla því til og frá. Kerið var upphaflega sett upp til þess að eyða ólykt af pílagrímum sem sóttu kirkjuna langt að."

Leiðsögn um dómkirkjuna er í boði tvisvar á dag yfir sumartímann og messur eru haldnar reglulega.

Vel látið að pílagrímum fyrr og nú

Heppnin var með pílagrímnum Picard Manier sem kom til Compostela árið 1726. Hann fékk heitt súkkulaði hjá St. Francis munkum, hádegismat hjá St. Martins munkum eða jesúítum og kvöldverð hjá St. Dominik munkum. Góð rúm biðu hans í konunglega sjúkrahúsinu og á kvöldin sótti hann veitingastaði þar sem í boði voru sardínur og vín. Tímarnir hafa breyst en sá sem veifar skjali þess efnis að hafa komið fótgangandi hina fornu leið til borgarinnar fær ókeypis málsverð og gistingu í borginni.

Borg Jakobs er sneisafull af sögu liðins tíma sem gaman er að skoða á daginn en kvöldin eru ætluð til þess að sitja á kaffistöðum og njóta matar. Þjóðarréttir Galisíu eru alls kyns sjávarréttir, sér í lagi skelfiskur og kolkrabbi í eigin bleki.

Pílagrímar fyrri alda gengu sömu vegslóðir og báðust fyrir í sömu kirkjum og nútímaferðalangar.

"Sá sem tekur vel á móti pílagrímum tekur vel á móti drottni sjálfum," segir í gamalli ferðabók munks sem fór fótgangandi til Santiago.

Líklega á það enn við í dag því íbúar þeirra staða sem farið er um, eru einstaklega almennilegir. Margir staðir hafa eingöngu byggst upp vegna þjónustu við pílagrímanna.

Ekki er unnt að tala um eina pílagrímaleið til Santiago, þær eru margar. Einkum eru kunnar silfurleiðin sem liggur sunnar úr álfunni, alla leið til Afríku og Arabíu. Norðurleiðin, portúgalska leiðin og franska pílagrímaleiðin Camino Frances sem er langþekktust og fjölförnust.

Sú franska liggur frá landamærum Frakklands frá Somport eða Roncevalles. Gengið er þvert yfir Kastilíu- og Leónfylki og þaðan til Galisíu.

Franska leiðin var upphaflega verlsunarleið Rómverja og nefndist vetrarbrautin vegna stjarnanna sem lýsa veginn. Lítið er um stórar borgir á leiðinni, en meira um bæi og þorp sem sum hafa eingöngu byggst upp vegna ferðalaga pílagrímanna fyrr á öldum. Franska leiðin er mjög vel merkt, alls staðar eru göngustígar sem liggja um merkta pílagrímastaði. Á leiðinni er fjöldi kirkna, auk þess má finna klaustur og söfn í stórum stíl. Áhugavert er að virða fyrir sér byggingalistina en að margra mati gætir þar erlendra áhrifa sem rekja má til ferða pílagríma.

Veðráttan eru töluvert önnur en sunnar á Spáni, það rignir meira og ekki er eins heitt og á algengum sumarleyfisstöðum Íslendinga.

Þegar ég var á ferðinni í lok ágúst var fremur svalt í veðri á kvöldin og dagarnir sólarlausir að mestu, stöku sinnum rigndi.

Pílagrímum býðst ódýr gisting í Kastilíu- og Leónfylki og í Galisíu kostar hún ekki peseta, hvað þá meira. Pílagrímagistihúsin eru flest opin frá byrjun maí og fram í október. Sum lengur.

Margir segja heppilegast að ganga snemmsumars þegar hlýtt er í veðri og blómin eru að springa út. Vinsælasti ferðatíminn er í júlí og ágúst en þá hefjast sumarleyfi hjá Spánverjum sem margir kjósa að ganga leiðina til Santiago.

Ódýrt og öðruvísi sumarfrí

Flestir þeirra sem ganga pílagrímaleiðina eru ekki reyndir göngumenn. Margir hafa aldrei gengið svona langt áður og munu aldrei gera það aftur. En hvers vegna ákveður fólk að eyða sumarleyfinu í að fara fótgangandi nærri 800 km leið til Santiago? Fyrir því eru margar ástæður. Aðspurðir sögðu margir að þetta væri er ódýr ferðamáti, umhverfið sé fallegt og félagsskapurinn alþjóðlegur. Áhugavert sé að upplifa Spán, söguna og menninguna á annan máta en vant er og sumarfrí sem þetta er umhverfisvænt!

Trúarlegar ástæður liggja að baki hjá mörgum, að upplifa einsemdina, hugsa um Guð og tilgang lífsins. Jafnvel finna lausn á lífsins gátum. Aðrir ganga heilsunnar vegna, þurfa að losna við fáein aukakíló. Sjálfsagt er fátt meira endurnærandi en að ganga um sveitir Norðvestur-Spánar, jafnvel einn með sjálfum sér. Lífsgæðakapphlaupið er langt undan.

Hjólreiðar eru mjög vinsælar á Spáni og margir kjósa að hjóla til Santiago. Ferðin tekur þá styttri tíma en á nokkrum stöðum er hjólreiðafólki gert erfitt um vik þar sem stígurinn er þröngur og brattur.

Við gistihúsin er hestaaðstaða fyrir þá sem kjósa að fara ríðandi en þó nokkuð er um það.

Burgos mikilvægur áfangastaður

Í Burgos rakst ég fyrst á slóðir pílagrímanna. Burgos er lítil, falleg borg í Kastilíu- og Leónfylki, um það bil miðja vegu milli landamæra Frakklands og Santiago de Compostela. Þaðan keyrði ég frönsku leiðina til León, þaðan til Villafranca Del Bierzo og lauk ferðinni í Santiago de Compostela.

Burgos var mikilvægur áningarstaður pílagríma fyrri alda, einkum vegna "silfur" dómkirkjunnar sem enn er helsta kennileiti Burgos en þar liggur þjóðhetjan El Cid grafin. Einnig var þar fjöldi klaustra og sjúkrahúsa fyrir pílagrímana forðum sem komu sárfættir og margir þjáðir eftir margra vikna- eða mánaðagöngur.

Í gamalli ferðabók, ítalska munksins Domenico Laffi frá 17. öld stendur um Burgos: Við borgarmörkin er spítali, Hospital del Rey, sem er eins og borg í borginni svo stór er hann. Þar er rúm fyrir 2000 manns og látið er vel að pílagrímum, góð rúm og afbragðs matur.

Byggingu dómkirkjunnar í Burgos lauk snemma á 13. öld. Hún er talin gott dæmi um áhrif pílagríma á arkitektúr og listir á Spáni m.a. gætir þar sterkra franskra áhrifa.

Fyrir framan kirkjuna er fallegt torg, Plaza de Ana og þar sitja nokkir pílagrímar, frá Argentínu, Bandaríkjunum, Frakklandi og Spáni, og svala þorsta sínum við gosbrunninn. Spánverjarnir Amalio og Esteban, upplýsa að hópur hafi hist á leiðinni og gengið saman mestallan tímann frá Roncevalles. "Við höfum gengið um það bil 20 kílómetra á dag en nú skilur leiðir. Ég vinn í Madríd og þar sem sumarfríinu er lokið, verður Santiago að bíða betri tíma," segir Esteban.

Þetta er í annað sinn sem Amalio gengur slóð pílagrímanna. "Með göngunni svala ég íþróttaþörf en einnig finnst mér gaman að ganga og hitta í leiðinni fólk af öllum þjóðernum." Áður en haldið er í svona langa gönguför telur Amalio ráðlegt að fólk fari í læknisskoðun og stunda líkamsrækt eða göngur í nokkurn tíma. "Algengt er að fólk hætti á miðri leið, ef það er ekki nægjanlega vel undirbúið. Lítill farangur er einnig lykilatriði, góðir skór og að borða heilsusamlega."

Leiðin milli Burgos og León liggur um dali og fjöll og mikið er um litla miðaldabæi og þorp. Kirkjan í Fromista er t.d. þess virði að skoða en eftir Sahagun byrja spænsku slétturnar og fremur fátæklegt er um að litast. Borgin León er hins vegar ríkmannleg og afar falleg. Mikið er um sögufrægar minjar. Gotneskja dómkirkjan þar er kannski ívið minni en sú í Burgos en fallegri að mati sumra. Í basilikunni San Isidoro er úrval freskna frá 12. öld. og þar í kring má sjá vel varðveitta rómverska borgarveggi.

Fyrir framan Parador San Marcos, hótelið í León, sat Fernando Videgain Iragui frá Navarra á bekk og borðaði nestið sitt; brauð og oststykki. Hann hefur gengið frönsku leiðin áður og hefur ætlað sér tæpan mánuð til fararinnar. "Ég geng í mesta lagi 35 kílómetra á dag en hvílir mig nokkra daga inn á milli. " Iragui upplifir ferðina sem pílagrími, hann heimsækir að meðaltali um fjórar kirkjur hvern dag og biðst fyrir."Mér finnst gott að vera einn á ferð og hugleiða. Að ferð lokinni er maður endurnærður á sál og líkama."

Villafranca del Bierzo er vinalegur bær

Astorga er næsti bær við León, önnur borg með rómverska fortíð. Astorga er minni en León en þar er mikið af sögufrægum stöðum svo sem dómkirkjan og biskupshöllin sem hönnuð er af Gaudi. Astorga er einnig fræg fyrir smjörkökurnar sínar. Eftir Astorga breytist landslagið að nýju og skógar koma í ljós og vínræktarhéruð. Í litla, vinalega fjallabænum Villafranca del Bierzo, er algengt að pílagrímar staldri við því þar er að finna alls kyns minnisvarða um ferðir pílagríma til forna. Þeir sem ekki treystu sér til að ganga lengra, fyrr á öldum, gátu í Villafranca fengið fyrirgefningu syndanna.

Fjall gleðinnar og ferðin á enda

Palozzas, lítil hús sem líta út eins og spænskir strákústar, eru það fyrsta sem blasir við þegar komið er til Galisíu. Í bænum O Cebreio sem frægur er fyrir ostagerð, er að finna nokkur Pallozzahús, sem byggð voru að hætti Forn-Kelta.

Santiago nálgast óðfluga. Fjall gleðinnar er í augsýn. Það hlýtur að hafa verið stórkostleg stund í huga pílagríma til forna að koma að borgarmörkum Santiago De Compostela. Frá Fjalli gleðinnar, Monte do Cozo er útsýni yfir borgina helgu. Loks var að baki erfitt og sjálfsagt lífshættulegt ferðalag. Samkvæmt hefð, áttu pílagrímarnir að afklæðast og baða sig í Lavacolla ánni, áður en gengið var á fjallið. Nýþvegnir og glaðir í bragði skunduðu þeir síðan að Fjalli gleðinnar. Sá sem kom fyrstur var sjálfkjörin leiðtogi hópsins.

Domenico Laffi skrifaði: Við að sjá Santiago féllum við á hnén, grétum af gleði og sungum Te Deum en aðeins nokkrar línur, því tárin féllu í stríðum straumum, hjartað barðist í brjósti og snöktið yfirgnæfði sönginn. Um síðir linnti táraflóði og syngjandi héldum við áfram síðasta spölinn.

Af Fjalli gleðinnar er nú lítið að sjá annað en sjónvarpsloftnet Santiagoborgar og sjaldgæft er að ferðamenn tryllist af kæti við komuna þangað. Mörgum er sjálfsagt létt en Fjall gleðinnar er einnig til merkis um að ferðin sé á enda. Sveitasælan er á bak og burt. Borgin bíður.