FYRSTU þrjá mánuði ársins seldust 736 jeppar og jepplingar og nokkur hundruð pantanir liggja fyrir á slíkum bifreiðum hjá umboðunum. Nissan Patrol með nýrri 3ja lítra dísilvél verður kynntur í lok næsta mánaðar.

FYRSTU þrjá mánuði ársins seldust 736 jeppar og jepplingar og nokkur hundruð pantanir liggja fyrir á slíkum bifreiðum hjá umboðunum.

Nissan Patrol með nýrri 3ja lítra dísilvél verður kynntur í lok næsta mánaðar. Vélin er 160 hestöfl og hámarkstogið hækkar úr 252 Nm í 354 Nm. Bíllinn mælist vel fyrir hjá bílkaupendum því nú þegar hafa 207 manns skráð sig fyrir bíl. Fyrsta sendingin er 155 bílar og í næstu sendingu í júní koma 100 til viðbótar. Sigþór Bragason, sölustjóri hjá Ingvari Helgasyni, segir að vandamálið sé aðallega það að ekki fáist nógu margir bílar frá framleiðanda. Bíllinn verður á svipuðu verði og fyrri gerð, sem reyndar hækkaði lítillega í verði við breytingar sem gerðar voru á vörugjaldi. Þá hafa selst 125 Terrano II fram til 7. apríl og 120-140 bílar sem eru á leiðinni eru seldir. Þá hafa selst 86 Isuzu Trooper fyrstu þrjá mánuðina.

Aukin eftirspurn eftir Land Cruiser 100

Björn Víglundsson, markaðsstjóri hjá Toyota, segir að breytingar á vörugjaldinu hafi leitt til aukinnar eftirspurnar á lúxusjeppanum Land Cruiser 100. Fyrir breytingar voru seldir 4-5 bílar í mánuði en fyrstu þrjá mánuðina hafa selst 22 slíkir bílar og um 25 manns hafa skráð sig fyrir Land Cruiser 100. Þá höfðu selst 120 Land Cruiser 90 fram til 7. apríl sl. Björn á ekki von á því að fleiri bílar seljist á þessu ári en í fyrra en vörugjaldsbreytingin leiði til þess að fleiri kaupi stærri bíla, þ.á m. jeppa. Hann telur líklegt að 3-4% aukning verði í jeppasölu á árinu.

78 Mitsubishi Pajero og Pajero Sport hafa selst á þessu tímabili og, að sögn Guðrúnar Birnu Jörgensen hjá Heklu, hafa 83 manns þegar skrifað sig fyrir nýrri gerð Pajero sem væntanleg er á markað hérlendis á næstu vikum. Sagt er nánar frá honum á næstu opnu.