Þóra Kolbrún telur sig hafa þroskast af því að vera með geðhvörf.
Þóra Kolbrún telur sig hafa þroskast af því að vera með geðhvörf.
Við höfum sagt frá því hvað við höfum gengið í gegnum og gert til að vinna úr vandanum. Eftir fundinn höfum við gefið hvert öðru góð ráð. Við skynjum að við erum ekki lengur ein. Annað ofur venjulegt fólk á við svipaðan vanda að stríða.

Við höfum sagt frá því hvað við höfum gengið í gegnum og gert til að vinna úr vandanum. Eftir fundinn höfum við gefið hvert öðru góð ráð. Við skynjum að við erum ekki lengur ein. Annað ofur venjulegt fólk á við svipaðan vanda að stríða. Sjálfshjálparhópurinn gefur okkur tækifæri til að samhæfa, reynslu styrk og vonir," segir Þóra Kolbrún Sigurðardóttir.

Þóra Kolbrún hefur átt við geðhvörf að stríða í um 25 ár skeið. "Veikindin byrjuðu fyrst að láta á sér kræla þegar ég var 19 ára. Ég hafði verið við nám í Frakklandi og á Ítalíu og var komin til Danmerkur. Að hippasið var mér boðið til tedrykkju og hass var að sjálfsögðu á boðstólum. Þarna lét ég verða af því að reyna hið "guðlega efni". Að sjálfsögðu í góðri trú um að fá að njóta guðdómlegra áhrifa. Þvert á móti hrapaði ég niður í ótrúlega geðlægð. Ég var allt í einu orðin versta manneskja á allri jörðinni."

Þóra Kolbrún fór ekki í meðferð heldur hélt til Íslands skömmu síðar. Ekki var þess hins vegar langt að bíða að veikindin blossuðu upp á ný. "Annað kastið kom í kjölfarið á því að ég kenndi mér um dauða eins og hálfs árs gamals bróður míns. Ég var að gæta hans þegar hann fékk skyndilega hjartastopp og dó fjórum dögum síðar. Eftir lát bróður míns var ég lögð inn á Klepp og var þar viðloðandi í um ár. Tveimur árum síðar giftist ég og eignaðist þrjú börn með eiginmanni mínum. Á ellefu hjónabandsárum gekk ég í gegnum þrjár geðsveiflur og viðeigandi meðferð. Geðsveiflurnar voru aldrei sérstaklega alvarlegar og lyfjameðferðin hjálpaði mér út í lífið aftur."

Þóra Kolbrún horfðist enn í augu við sjúkdóminn 37 ára gömul. Ofan í ofnotkun áfengis fékk hún þunglyndiskast og ákvað að fara í áfengismeðferð á Vogi. "Áfengismeðferðin gerði mér ekki aðeins gott í tengslum við áfengisvandann. Ég fór að skilja betur hvaða jákvæðu áhrif heilsusamlegt líferni, gott mataræði, reglulegur svefn og hreyfing, hefðu á sjúkdómsganginn. Eftir meðferðina hleypti ég trúnni inn í líf mitt. Nú sæki ég styrk í gegnum bænahóp einu sinni í viku," segir Þóra Kolbrún og tekur fram að eftir meðferðina hafi hún tekið ákvörðun um að stuðla að andlegu jafnvægi sínu með því að taka reglulega inn geðlyfið litíum. "Einu sinni reyndi ég að hætta. Mér leið ekkert illa þangað til ég ákvað að reyna að hætta að reykja, og hætti að geta sofið á nóttunni. Ég ákvað að byrja að taka aftur inn litíum og gat aftur farið að sofa. Lyfið hefur haldið mér í góðu jafnvægi síðustu árin."

Þóra Kolbrún hugsar sig um þegar hún er spurð að því hvaða áhrif sjúkdómurinn hafi haft á líf hennar í gegnum tíðina. "Ég veit ekki hvað skal segja," segir hún. "Jú, sjúkdómurinn hefur aldrei haft sérstaklega alvarlegar afleiðingar. Fyrst og fremst held ég að ástæðan felist í því að ég hef alla tíð átt frekar auðvelt með að umgangast og mynda tengsl við aðra. Tengsl mín og barnanna hafa alla tíð verið mjög góð. Við höfum getað talað saman um sjúkdóminn og eigum auðvelt með að gera grín að því eftir á hvernig ég hef verið í uppsveiflu. Þau hafa fullt leyfi mitt til að hafa samband við lækninn minn ef þau telja ástæðu til vegna mín eða af því að þeim líður illa sjálfum. Yngsta dóttir mín, 18 ára, telur sig hafa þroskast umfram jafnaldra sína af því að ganga með mér í gegnum sjúkdóminn. Hvorki hún né hin börnin telja að þau hafi verið vanrækt vegna sjúkdómsins. Ég fæ oft að vita að ég sé góð mamma," segir Þóra Kolbrún og brosir.

Á hinn bóginn verður Þóra Kolbrún að viðurkenna að hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna sjúkdómsins. "Ég hef aðeins einu sinni eftir að ég kom út af geðdeildinni í fyrsta sinn misst vinnu vegna veikindanna. Núna starfa ég sjálfstætt og hefur gengið ágætlega. Aftur á móti verð ég að viðurkenna að í uppsveiflu hafa runnið á mig hrein eyðsluæði. Einu sinni á meðan börnin voru lítil eyddi ég á einu bretti 150.000 kr. með visa-kortinu á útsölu. Eftir að ég hóf eigin rekstur fóru 500.000 kr. algjörlega umhugsunarlaust einu sinni. Ég þurfti að taka lán fyrir upphæðinni og borgaði á endanum 1,5 milljónir."

Þóra Kolbrún skýtur því að í tengslum við sjúkdóminn að uppsveifla sé ekki alfarið af hinu slæma. "Geðhvarfasjúklingar geta verið ótrúlega frjóir í uppsveiflu. Rétt eins og margoft hefur sannast í hinum ýmsu listamönnum. Ég hef sjálf farið að skrifa, semja ljóð og jafnvel fengið frábærar og gagnlegar hugmyndir. Annars er ég svo sem alveg nógu frjó á lyfjunum. Almennt upplifi ég mig sátta og yfir meðallagi hamingjusama ef miðað er við einhvers konar meðaltal í þjóðfélaginu," segir hún og er spurð út í hlið aðstandenda. "Aðstandendur ganga oft í gegnum afneitun og sérstaklega til að byrja með. Fólk þekkir ekki sjúkdóminn og vill ekki viðurkenna að sínir nánustu eigi við geðrænan vanda að stríða. Börnin mín fengu áfall fyrst þegar ég fór á Klepp og vildu ekki að neinn vissi hvar ég hefði verið. Núna er afstaða þeirra allt önnur og jákvæðari. Sjálf er ég sátt við að hafa fengið sjúkdóminn. Ég tel að hann hafi þroskað mig og gert að betri manneskju."

Ríkari í hvert sinn

Sjálfshjálparhópur fólks með geðhvörf hefur verið starfandi í um hálfs árs skeið. "Ég hef auðvitað fjarlægst sjúkdóminn síðustu árin. Engu síður hef ég gott af því að minna mig á hver ég er. Annað markmið felst í því að athuga hvort að reynsla eins getur komið öðrum að gagni. Hingað til hafa fundirnir gengið út á að miðla af eigin reynslu. Ég hafði aldrei þorað að segja frá því hvernig mér leið í uppsveiflu. Upplifunin er alveg hreint ótrúleg og raunar absúrd. Öll næmni verður margföld. Manneskjunni finnst hún vera nafli alheimsins. Fjölmiðlar geta virst færa persónuleg skilaboð. Eðlileg mörk mást út og algengt að vaðið sé yfir næsta mann. Áfram væri hægt að halda og nefna dæmi. Núna skammast ég mín ekki lengur fyrir að segja frá reynslu minni því hinir í hópnum búa yfir svipaðri reynslu," segir Þóra Kolbrún og tekur fram að fundirnir séu í þróun. "Nú langar okkur að fara að fá gesti inn í hópinn, t.d. sérfræðinga eins og geðlækna. Gestirnir gætu flutt erindi og svarað spurningum okkar hinna um eðli og áhrif sjúkdómsins. Með því móti gæti sjálfshjálpin orðið enn öflugri. Annars dreg ég ekki úr því að hópastarfið hefur þegar gagnast mér. Mér finnst ég vera ríkari þegar ég kem heim heldur en ég var þegar ég fór út."

Þóra Kolbrún var beðin um að gefa dæmi um hvers konar vandi væri reifaður á fundinum. "Langoftast er vandinn af tilfinningalegum toga og getur falist í ákveðnum árekstrum við umhverfið, t.d. í tengslum við vinnu," segir Þóra Kolbrún. "Stundum þorir fólk ekki að segja vinnuveitendum sínum frá sjúkdómnum af ótta við fordóma og jafnvel uppsögn. Ein stúlka sagði frá því að hún hefði veikst og verið lögð inn á geðdeild. Þar fékk hún heimsókn frá vinnuveitanda sínum. Hann sagði henni upp starfinu og bauð henni annað í lægri metum hjá sama fyrirtæki. Annars konar reynsla er auðvitað að maður nokkur sagði frá því að umhverfið hefði talsverð áhrif á gang sjúkdómsins. Ef svo er hefði ég haldið að hann þyrfti að vinna betur í sínum málum," segir Þóra Kolbrún og tekur fram að í um 20 manna hópi sé fólk ákaflega misjafnlega á vegi statt. "Samt eru flestir búnir að fá greiningu og eru að vinna með sjúkdóminn. Að mínu mati eru geðlæknar aðeins lyflæknar. Sjúklingurinn verður sjálfur að finna leið til að byggja sig upp á eigin forsendum."