Jónína Gyða segir að hver dagur með sjúkdóminn sé barátta.
Jónína Gyða segir að hver dagur með sjúkdóminn sé barátta.
ALLTAF annað slagið skýtur því upp í huga minn hvað væri auðveldara að hafa slasast og hlotið sýnilega örkuml til að allir geti séð með berum augum að ég gangi ekki heil til skógar.

ALLTAF annað slagið skýtur því upp í huga minn hvað væri auðveldara að hafa slasast og hlotið sýnilega örkuml til að allir geti séð með berum augum að ég gangi ekki heil til skógar. Ég er með stórt svöðusár á sálinni og utan frá er enginn leið að sjá að nokkuð ami að. Ekki aðeins eiga aðrir erfitt með að gera sér grein fyrir því hvað ég er veik heldur er nánast ómögulegt að útskýra líðan sína fyrir vinum og ættingjum. Í sjálfshjálparhópnum tala ég og tala og veit allan tímann að hinir þurfa ekki annað en að líta í eigin barm til að vita hvað ég meina," segir Jónína Gyða Ólafsdóttir.

Jónína Gyða fór í meðferð vegna þunglyndis fyrir 8 árum. "Annars held ég að þunglyndið hafi búið innra með mér alla tíð. Sterkur baráttuvilji hélt einkennunum í skefjum lengi vel. Ekki síst þegar hvert áfallið rak annað á ákveðnu árabili. Ég varð níu sinnum ófrísk og aðeins tvö börn komust á legg. Verst leið mér eftir að hafa misst viku gamlar tvíburastúlkur. Enginn veitti okkur aðstoð við að axla hinar andlegu byrðar. Einu ráðleggingarnar voru að ég skyldi reyna að hvílast og jafna mig á þremur mánuðum. Innra með mér dó eitthvað með stúlkunum. Depurðin fór að verða meira áberandi og alltaf varð erfiðara og erfiðara að halda haus. Eftir að mamma dó gat ég ekki lengur haldið einkennunum niðri. Við systurnar höfðum setið yfir henni með lítilli hvíld í um sex vikur. Eftir jarðarförina var ég að þrotum komin og lá í rúminu í 2 til 3 vikur. Að lokum hafði ég kjark til að stynja því upp við manninn minn að kostirnir væru aðeins tveir; meðferð eða "auðveldasta" leiðin," segir Jónína Gyða og tekur fram að seinni skilgreiningin feli í sér ákveðinn misskilning þunglyndissjúklinga. "Þunglyndissjúklingar telja sér því miður oft trú um að "auðveldasta" leiðin sé að frelsa fjölskylduna undan sér með sjálfsvígi. Sannleikurinn er auðvitað allt annar því fjölskyldan væri skilin eftir í hræðilegri vanlíðan."

Gríman féll

Jónína Gyða var í meðferð á Landspítalanum í 8 vikur. "Að vinna í sjálfri mér í vernduðu umhverfi sjúkrahússins gerði mér mjög gott. Ég lét grímuna falla. Loksins fór ég að takast á við tilfinningar mínar og byrja að syrgja börnin mín. Eftir sjúkrahúsvistina var ég gersamlega máttvana og gat ekki einu sinni eldað matinn. Stóð fyrir framan eldhúsbekkinn og hafði ekki mátt í mínum beinum til að koma kartöflunum í pottinn. Læknirinn taldi mig á að taka reglulega inn geðlyf til að draga úr áhrifum þunglyndisins. Engu að síður er hver dagur barátta. Að vinna einföldustu húsverk getur verið mér um megn. Eina leiðin er að ég gefi mér góðan tíma og skipuleggi verkin nákvæmleg frá degi til dags. Að hvíla mig á hverjum degi eftir hádegi er mér algjörlega nauðsynlegt. Annars get ég verið alveg hreint þokkalega góð nokkra daga í röð áður en einkennin koma fram, þrekleysi, grátur og lágt sjálfsmat. Ég leggst fyrir og ligg þar til maðurinn minn kemur og rekur mig út." Rekur þig út? "Já, hann veit að ég þarf að fara út að ganga til að ná mér upp aftur. Svipað ferli á sér stað einu sinni til tvisvar sinnum í hverjum mánuði."

Jónína Gyða segist hafa gengið í gegnum djúpa geðlægð eftir að hafa misst vinnuna vegna sjúkdómsins eftir 10 ára starfsferil hjá sama fyrirtæki fyrir 4 árum. "Ég hef haldið mér í þokkalegu jafnvægi með því að forðast umtalsvert erfiði og andleg áföll. Að missa vinnuna kastaði mér niður í dúpt svartnætti. Nú hafði ég ekki lengur ástæðu til að taka mig til og fara út á meðal fólks. Fyrst á eftir var ég gjörsamlega niðurbrotin og þurfti langan tíma til að ná mér aftur upp. Enn stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum hvernig ég byrjaði að feta mig aftur inn í samfélagið. Fyrst aðeins með því að ganga niður götuna. Næsta skref var að fara örlítinn hring hérna niður fyrir og svo tvo og allan tímann gætti ég vandlega að því að missa aldrei sjónar á húsinu hérna. Og - mikið ótrúlega var ég stolt þegar mér tókst að komast hérna niður í bæ! Eftir á var ég gjörsamlega úrvinda og enn þann dag í dag þýðir klukkutíma gönguferð þriggja tíma hvíld á eftir," segir Jónína Gyða og svarar spurnarsvipnum á andliti blaðamannsins. "Ekki af líkamlegu erfiði heldur er ótrúleg andleg áreynsla fólgin í því að undirbúa og fara í gönguferðina."

Hvernig hafa nánustu aðstandendur og vinir tekið því að þú gengur með sjúkdóminn? "Ég missti gjörsamlega fótanna eftir að sjúkdómurinn reið yfir af fullum þunga. Vinir mínir skildu ekki hvernig ég hafði breyst og var ekki lengur til í að gera hitt og þetta eins og áður. Fjölskyldan átti auðvitað mjög erfitt til að byrja með. Smám saman jókst skilningurinn á sjúkdómnum. Eiginmaður minn og börnin tvö hafa staðið með mér eins og klettur. Núna þekkir eiginmaður minn sjúkdóminn, hjálpar, skilur og viðurkennir. Ég skil stundum ekki hvernig hann fer að því að vera mér svona ótrúlega blíður og góður. Hann og börnin mín eru líf mitt."

Jónína segist í mörg ár hafa gengið með hugmyndina um að stofna sjálfshjálparhóp þunglyndra í maganum. "Eins og flestir vita tileinkaði landlæknisembættið janúarmánuð þunglyndi. Ég frétti að Héðinn hefði komið fram í sjónvarpinu og stungið upp á því að stofnaðir yrðu sjálfshjálparhópar fyrir fólk með geðrænan vanda. Fyrstu viðbrögðin voru að ákveða að hringja í Héðin til að ýta á að hugmyndinni yrði hrint í framkvæmd. Eins og oft áður leið og beið þangað til ég loks tók upp tólið. Héðinn bauð mér að koma á fund hjá Geðhvörfum og eftir eina ítrekun komst ég á fund hjá félaginu. Ég er ákaflega stolt af því að hugmyndin skuli hafa orðið að veruleika og hópurinn sé farinn að hittast. Fyrstu skrefin inn á fundinn voru auðvitað þung. Núna finnst mér alveg hreint frábært að fá tækifæri til að hitta aðra með sömu reynslu. Ég get t.a.m. sagt frá því ef mér hefur liðið illa alla vikuna og verið viss um að hinir vita alveg hvernig mér hefur liðið. Annað dæmi gæti falist í því að einhver segði frá því að hann væri að hugsa um að hætta að taka reglulega inn geðlyf. Hinir gætu sagt honum frá sinni reynslu af því að hætta um tíma enda hafa flestir freistast til að reyna að vera án lyfja. Staðreyndin er hins vegar langoftast að best er að vera stöðugt á lyfjum. Annars erum við komin mislangt í að vinna úr einkennunum og gaman að vita til þess að einhverjir gætu lært af minni reynslu. Fyrir utan að ákveðin von hlýtur að felast í því fyrir nýgreinda að sjá hvernig okkur hinum hefur tekist að aðlaga líf okkar sjúkdóminum."

Jónína Gyða tekur fram hversu ómetanlegt hefði verið fyrir hana sjálfa að geta gengið inn í hóp eins og sjálfshjálparhópinn eftir útskriftina af Landspítalanum á sínum tíma. "Núna er ég alveg viss um að mér hefði ekki fundist ég standa jafn ein og ég gerði þá. Við höfum verið um 10 á fundum og oft kemur fyrir að við kjöftum saman heillengi eftir hvern fund, skiptumst á ráðum og myndum vinatengsl. Sjúkdómurinn veitir fólki á mismunandi aldri og báðum kynjum sameiginlegan skilning og reynslu til að leggja grunn að bjartari framtíð."