Tvær ungar konur hafa ásamt fleirum komið á fót sjálfshjálparhópi aðstandenda geðsjúkra. Hvorug vill láta nafn síns getið enda hafa hinir sjúku aðstandendur hvorugur viðurkennt sjúkdóm sinn.

Tvær ungar konur hafa ásamt fleirum komið á fót sjálfshjálparhópi aðstandenda geðsjúkra. Hvorug vill láta nafn síns getið enda hafa hinir sjúku aðstandendur hvorugur viðurkennt sjúkdóm sinn. Aðeins hafa verið haldnir nokkrir fundir og er ætlunin að hefja hópastarfið af fullum krafti næsta haust.

Konurnar segja að hugmyndin sé að hefja hópastarfið með opnum fræðslufundi. Í kjölfarið fari áframhaldandi hópastarf og reynt verði að fá gesti til að fræða aðstandendur um ýmsar hliðar geðrænna vandamála. Sterklega komi til greina að skipta hópnum upp í framtíðinni. Ekki aðeins af því að hópur aðstandenda geðsjúkra sé ótrúlega stór heldur af því að þarfir og væntingar til hópastarfsins séu ólíkar. Í ljós hefur komið að aðstandendur sækjast eftir því að styrkja sjálfa sig, fræðast og mynda þrýsting gagnvart aðgerðum stjórnvalda í tengslum við aðbúnað geðsjúkra.

Stöllurnar tala um að oft sé skortur á upplýsingastreymi til aðstandenda og ekki hvað síst þegar sjúklingur viðurkennir ekki sjúkdóminn. Læknar þurfa að tryggja að afneitun sjúklingsins komi ekki í veg fyrir að aðstandendum berist nauðsynlegar upplýsingar. Ekki sé heldur eðlilegt að aðstoð til aðstandenda sé undir því komin að sjúklingurinn viðurkenni sjúkdóminn. Sjálfshjálparhópurinn gefur aðstandendum tækifæri til að miðla af eigin reynslu. Með því veita þeir hver öðrum styrk til að vinna sig út úr erfiðleikum og stuðla að eigin vellíðan. Önnur markmið hafa verið að skiptast á gagnlegum upplýsingum og rjúfa einangrun með því að tengjast öðrum með svipaða reynslu á herðunum.

Ungu konurnar voru beðnar að nefna dæmi um hvernig geðsjúkdómar koma niður á nánustu aðstandendum hinna sjúku. Önnur hefur reynslu af því að eiga geðsjúkt foreldri. "Á yfirborðinu var alltaf allt slétt og fellt á heimilinu. Undir niðri kraumuðu ótrúleg átök. Við skömmuðumst okkar, lugum og vildum ekki fá aðra krakka í heimsókn af ótta við að allt kæmist upp. Við bjuggum heldur ekki við sömu ást og umhyggju og hinir krakkarnir."

Hin á veikt systkini. "Ég varð aldrei fyrir sérstökum fordómum vegna veikindanna. Allir í þorpinu vissu hvers kyns var og tóku því eins og sjálfsögðum hlut. Hins vegar fór ekki hjá því að okkur hinum systkinunum fyndist við vera sett til hliðar á meðan veika systkininu var sinnt."

Báðar segjast nokkuð vissar um að afar mikið sé um hjónaskilnaði meðal geðsjúkra. "Geðsjúkdómar breyta makanum og valda ýmiss konar erfiðleikum í hjónabandinu. Sambandið þarf að vera ótrúlega gott til að halda í gegnum þykkt og þunnt. Stundum vill sá heilbrigði ekki taka af skarið um skilnað af ótta við hvað verði um hinn sjúka. Hugsunin getur verið að ekki sé betra að umönnunin lendi á börnunum. Börnin hafi þegar þolað nóg."