Hinrik Bjarnason
Hinrik Bjarnason
Sjónvarpið frumsýnir myndina Konurnar á ströndinni á skírdag. Mynd þessi byggist að mestu á frásögnum þriggja aldraðra kvenna. Hinrik Bjarnason stjórnaði upptökunum sem myndin byggist á árið 1969. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Hinrik um bakgrunn myndarinnar og hans sjálfs, en hann er Stokkseyringur að ætt og uppruna og þekkti vel konurnar sem fjallað er um í fyrrnefndri mynd.

FYRIR rúmum þrjátíu árum var unnið nokkuð að kvikmyndatöku á Stokkseyri á vegum Sjónvarpsins undir stjórn Hinriks Bjarnasonar. Ætlunin var að gera heimildamynd um hefðbundinn búskap og búsetu í sunnlenskri byggð. Ýmsar aðstæður ollu því að þetta verkefni var lagt til hliðar uns upptökurnar voru teknar fram árið 1990. Þá voru þær teknar til handargagns og eru nú orðnar uppistaða í nýrri kvikmynd sem Sjónvarpið frumsýnir á skírdag klukkan 19.35. Í myndinni er að sögn Hinriks Bjarnasonar brugðið upp augnabliksmyndum af umhverfi, athafnalífi og fólki á Stokkseyri seint á sjöunda áratug tuttugustu aldar en uppistaða þeirra frásagna er frá þremur konum sem nú eru allar látnar. Þær hétu Margrét Júníusdóttir, sem fædd var 19. nóvember 1882 og dó 17. ágúst 1969, Þórunn Tómasdóttir, fædd 20. júlí 1889 og dáin 22. maí 1983, og loks Guðríður Guðlaugsdóttir, sem fæddist 14. september 1876 og dó 2. október 1971.

Árnesingur í ættir fram

"Þær Margrét og Guðríður segja sjálfar frá sínum högum í myndinni en þula fylgir Þórunni eftir," sagði Hinrik Bjarnason þegar hann var spurður nánar um myndina Konurnar á ströndinni. "Ég þekkti þessar konur vel, ég er Stokkseyringur, fæddur og uppalinn á Stokkseyri. Í þessum upptökum frá 1969, sem nú koma loks fyrir almenningssjónir, var ég í raun að gera skil mínu æskuumhverfi. Fólkið sem kemur þarna við sögu er fólk sem ég ólst upp undir handarjaðrinum á - ef svo má segja. Það nafngreinda fólk sem birtist í þessari mynd eru gamlir vinir mínir og foreldra minna. Sterkur partur af því mannlífi sem í myndinni kemur fram var það mannlíf sem ég þekkti á bernskuárum mínum.

Foreldrar mínir voru Bjarni Sigurðsson og Þuríður Guðjónsdóttir. Þau voru bændur þar sem heitir í Ranakoti. Ég er raunar Árnesingur langt í ættir fram. Það þarf að fara alveg aftur á 16. öld til þess að finna ættföður sem kom frá Norðurlandi.

Konurnar þrjár fulltrúar merkilegs menningarumhverfis

Árið 1969 má segja að hafi enn verið til staðar gamli tíminn á Stokkseyri að vissu leyti. Reyndar er nú eins og menn vita mjög erfitt að meta tímann, okkur hættir til að líta á tímann sem eitthvað sem hugsanlega getur stoppað - við látum í veðri vaka að hægt sé að tala um "gamla" og "nýja" tímann, en auðvitað tökum við okkur þar visst "skáldaleyfi". Sú kynslóð á Stokkseyri sem var að renna sitt skeið á enda árið 1969 var í raun fulltrúi merkilegs menningarheims. Það var mjög athyglisverð hefð alþýðumenningar á ströndinni, sem ég kalla, það er milli Ölfusár og Þjórsár, en það var minn partur í tilverunni í æsku. Greiðar leiðir voru þarna á milli og það þróaðist þarna markvert menningar- og mannlíf að ýmsu leyti og hafði raunar gert allt frá aldamótum. Þessa sér stað í frásögn þeirra tveggja kvenna sem segja sögu sína í umræddri mynd, þær koma leynt og ljóst inn á þær hefðir sem ég hef verið að tala um. Þær nafngreina ýmislegt sem hafði áhrif á þær í þessa átt í æsku og á manndómsárum á Stokkseyri. Við getum tekið sem dæmi að þær minnast báðar á þann þátt sem Ísólfur Pálsson átti í þeirra menningaruppvexti, en Margrét Júníusdóttir var reyndar bróðurdóttir hans. Það kemur bæði fram í frásögn þeirra og hvernig þær haga sínu máli hvernig fulltrúar þær eru fyrir sitt umhverfi. Margrét var reyndar frænka mín, af Bergsætt eins og ég. Þórunn og Guðríður voru nágrannar og vinkonur foreldra minna og mínar. Sambýliskona Þórunnar, Bjartey Halldórsdóttir, kemur við sögu í myndinni líka. Þessi myndfrásögn var gerð í júní 1969 og elsta konan, sem hér er um að ræða, dó síðsumars það ár, tvær aðrar voru látnar áður en umrætt ár var liðið, sú sem lengst lifði dó 1983.

Var snúningastelpa hjá móður Hannesar Hafstein

Svo langt seilist þessi frásögn til baka að elsta konan, Guðríður Guðlaugsdóttir, segir lítillega frá embætti sínu á æskuheimili Hannesar Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrans. Guðríður ólst upp í Reykjavík og var snúningastelpa hjá móður Hannesar og segir frá honum og systkinum hans sem ungu fólki - eins og það var er hún kynntist því í vistinni. Margrét segir frá því eins og hverjum öðrum sjálfsögðum hlut þegar hún var að hefja sitt ævistarf um 1905. Með öðrum orðum spannar frásögn þeirra í raun tvær aldir - þetta eru sannarlega tveggja alda konur.

Margrét og Guðríður segja sjálfar frá, þær voru báðar greindar konur og vel máli farnar. Guðríður var húsmóðir, átti nokkur börn og frá henni er komin töluverð ætt, hún sinnti almennum daglaunastörfum og segir frá því í myndinni hvernig hún vann fyrir sér sem ung kona og einnig síðar. Hvað varðar Þórunni þá er frásögnin um hana byggð á athöfnum og umhverfi hennar, farið var inn á heimili hennar og sambýliskonu hennar, Bjarteyjar, en þær voru mágkonur og bjuggu lengi saman, Bjartey var ekkja, Þórunn giftist ekki en á afkomendur.

Hinrik Bjarnason er löngu þjóðþekktur maður, bæði fyrir æskulýðsstörf sín en þó öllu fremur störf sín á vettvangi fjölmiðla.

"Ég fór frá Stokkseyri um fermingu, og þá til náms og starfa í Reykjavík, fór að læra og vinna fyrir mér jafnhliða þar til ég hafði lokið kennaraprófi. Ég hóf störf hjá Sjónvarpinu á fyrstu árum þess. Á árunum 1966 til 1970 stjórnaði ég og gerði handrit að mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en mest af þessu efni var innan ramma barnaefnis. Á þessum tíma var sjónvarpsefnisgerð því ríkur þáttur í minni vinnu, ég gerði milli 20 og 30 myndir í allt. Síðan þróuðust mín mál inn á aðrar brautir og ég fjarlægðist þetta verk. Ég varð árið 1970 framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur og varð svo dagskrárstjóri Sjónvarps 1979. Það er ekki fyrr en núna, eftir að ég er orðinn eftirlaunamaður, að ég gat sinnt þessu verkefni þegar það aftur skaut upp kollinum. Ég vann þetta með mönnum sem ég staraði mikið með í lok sjöunda áratugarins, Þórarinn Guðnason kvikmyndatökumaður og ég unnum vel saman sem teymi. Oddur Gústafsson annaðist hljóð 1969. Auðvitað er myndin svart-hvít eins og gerðist á þessum tíma. Þessar myndir voru allar teknar í svart-hvítu," segir Hinrik. Þess ber að geta að hljóðvinnslu myndarinnar Konurnar á ströndinni annaðist Agnar Einarsson. Tónlist í myndinni er eftir þá feðga Ísólf Pálsson og Pál Ísólfsson. Þulir eru Guðmundur Ingi Kristjánsson og Ragnheiður Elín Clausen. Grafík er í höndum Guðrúnar Ragnarsdóttur og um klippingu sér Ragnheiður Thorsteinsson.

Menningarlíf var blómlegt á Stokkseyri

En hvað með arfleifðina frá Stokkseyri? "Menningarumhverfið á Stokkseyri hafði óneitanlega mikil áhrif á mig," segir Hinrik. "Að sínu leyti til, miðað við stöðu mála í landinu á fyrri hluta aldarinnar, var á Stokkseyri blómlegt og nokkuð frumlegt menningarlíf á mínum uppvaxtarárum og raunar hafði svo verið allt frá því um aldamótin 1900. Þarna voru nokkuð margir aðilar sem höfðu metnað og getu til að skila frá sér menningarverki, þráin var sterk hjá sumu þessu fólki til þess að afkasta einhverju á því sviði. Ísólfur Pálsson er góður fulltrúi þessa fólks og sá sem náði lengst í þessum efnum, en frændur hans og bræður voru í sama hópi. Ég kynntist ekki Ísólfi en ég kynntist konu hans Þuríði, hún var mjög eftirminnileg kona. Í myndinni Konurnar á ströndinni er flutt tónlist þeirra feðga, Ísólfs og Páls.

Myndin kannski eftirtektarverðari núna en fyrir 30 árum

Konurnar í myndinni voru allsendis ótengdar innbyrðis. Frásögn þeirra átti frá upphafi að vera hryggjarliður í þessari umfjöllun sem átti síðan að festa töluvert hold á, minna varð úr þessu í upphafi en áætlað var, en myndin gerir eigi að síður grein fyrir hvert markmiðið var með þessari upptöku. Það er ákaflega ánægjulegt að Sjónvarpið skuli hafa látið ljúka þessu. Efnislega hefur ekkert verið tekið upp í viðbót við gömlu tökurnar nema hvað við fórum austur í sumar sem leið og í vetur og tókum myndir til tengingar þessum köflum sem til voru frá 1969. Engin söguskýring er í myndinni frá öðrum en þessum konum sjálfum, þær eru sögumenn og frásegjendur og ég leyfi mér að segja að þær séu eftirminnilegar sem slíkar. Þrjátíu ár er langur tími í mannsævi, og líka langur tími í list, ekki síst er hann langur í sögu sjónvarps á Íslandi. Núna finnst mér þetta vera nokkuð ánægjuleg málalok - hefði myndinni verið lokið á þeim tíma sem áætlað var hefði hún verið sýnd árið 1971. En ég er ekki frá því að hún sé að sumu leyti eftirtekarverðari núna en hún hefði verið þá - hún á kannski enn meira erindi nú en hún hefði átt þá."