Tónlist er öðrum listum merkilegri fyrir þá sök að hún skapar fegurð og hún skapar ró, hugarró, sem Ellert B. Schram segir kannske það dýrmætasta og nauðsynlegasta í því þjóðfélagi sem við lifum í, þar sem enginn má vera að neinu og lífsgæðakapphlaupið ætlar okkur lifandi að drepa.

ÞEGAR ég var að alast upp um miðja þessa öld var heimur barnanna ólíkur þeim heimi, sem nú blasir við. Engar tölvur, ekkert sjónvarp, engin play station, game boy eða hvað þetta allt heitir. Leikheimur barna voru opin svæði og húsagrunnar og má segja að fótbolti hafi verið eini íþróttaleikurinn, fyrir utan sto og yfir, sem stundaður var af strákum á þessum árum. Stelpurnar stóðu álengdar og léku sér í bimbi, rimbi, rimmbamm.

Og svo var maður sendur í sveit þegar skólanum lauk og dvaldi þar þangað til skólinn byrjaði á ný á haustin. Það gafst lítill tími til inniveru, enda var varla pláss í vistarverum fjölskyldna, sem hlóðu niður börnum og bjuggu við þröngan kost.

Tónlist var lúxus, forréttindi, sem fæstir þekktu. Það var jú hlustað á kanann á unglingsárunum en gamla gufuradíóið spilaði óskalög sjúklinga og sinfóníur til skiptis, óskalögin fyrir almúgann og sinfóníurnar fyrir broddborgarana, þannig að þjóðin kveikti og slökkti á útvarpinu eftir því hvað við átti.

Ég var heppinn að því leyti að á mínu heimili var píanó og mamma lék á það á stundum, þegar færi gafst frá önnum dagsins, þvottinum, staglinu, eldamennskunni, barnagrátinum. Þá fannst mér alltaf hátíð í bæ og raunar merki þess að mömmu liði vel. Og þá leið okkur hinum vel. Hún smitaði út frá sér, húsmóðirin, með lund sinni og undursamlegum tónunum sem bárust úr stofunni. Það voru helgistundir heimilisfólksins.

Sjálfur var ég aldrei hændur að tónlistarnámi og músik var mér framandi. Sú sérkennilega lenska var þá ríkjandi að strákar ættu ekki erindi í tónlistarnám, bara stelpurnar og þannig lærði elsta systir mín á píanó, meðan ég var látinn bera út Moggann. Auk þess fékk ég snemma þá skoðun á mínu tóneyra, að ég hefði hvorki talent til að hlusta né syngja, hvað þá að spila.

Alla tíð síðan hef ég aldrei gert minnstu tilraun til að syngja laglínu, nema þá í óráði eða ölvaður, sem telst ekki með.

Svo gerðist það mörgum kynslóðum síðar að inn í líf mitt kom kona með tónlistaráhuga. Þá fóru aftur að heyrast ljúfir tónar frá píanóinu hennar mömmu og söngur úr eldhúsinu og meðan hún Ágústa mín beið eftir fyrsta barninu, lá hún inni í stofu og hlustaði á Beethoven og Maríu Callas og barnið drakk þetta með móðurmjólkinni og það var heldur ekki laust við að öskrin í króanum og gráturinn væri bæði dimendo og crescendo og unun á að hlusta, ef vel var lagt við hlustir. Það er ekki ónýtt að heyra músikalskar ekkastunur þegar ómálga barn kallar eftir brjóstamjólkinni.

Nú eru börnin okkar tvö orðin átta og tíu ára gömul og hafa stundað tónlistarnám undanfarna vetur. Hún í píanótímum, hann á flautu. Ekki er því að neita að heldur er hún áhugasamari vegna þess að einhvern veginn er það í genunum hjá okkur körlunum að stunda aðra iðju en flautuleik þegar sýna þarf manndóm sinn og karlmennsku og svo er þetta auðvitað þessi stanslausa samkeppni við íþróttir og fótbolta og verst er þó fyrir litla greyið að vera nánast einn í öllum árgangnum sem leggur slíkt nám á sig og ekki alltaf til vinsælda eða aðdáunar hjá átta ára gömlum karlrembum.

Mér er þó ljúft að játa að tónlistarnámið er mér enginn þyrnir í augum. Nema síður sé. Hvað er skemmtilegra en koma heim og heyra leiknar sonnettur og aríur svo undir tekur í íbúðinni og sjá hvernig litla eftirlætinu mínu fer fram með hverjum deginum og tekur próf með láði í tónlistarfræði og les nótur jafn fyrirhafnarlaust og ég tek til matar míns? Hvað er yndislegra en sjá og heyra lítinn átta ára snáða taka fram flautuna og leika af fingrum fram og framkalla þennan tón, sem dillar sér og valhoppar inn og út um stofuna.

Ég er ekki í nokkrum vafa um uppeldisgildi þessa náms. Og jafnvel þótt börnin mín verði aldrei neitt annað en amatörar í faginu og læri kannske aldrei neitt meir um tónana og töfra þeirra, þá er þeim tíma vel varið sem þau hafa lagt á sig í þessari tónmennt.

Tónlist er nefnilega öðrum listum merkilegri fyrir þá sök að hún skapar fegurð og hún skapar ró, hugarró, sem er kannske það dýrmætasta og nauðsynlegasta í því þjóðfélagi sem við lifum í, þar sem enginn má vera að neinu og fólk hrynur niður í kransæðastíflu og magasári, vegna þess að lífsgæðakapphlaupið tekur aldrei enda. Það er okkur lifandi að drepa.

Í þessu umhverfi, við þessar aðstæður, er fátt til varnar. Okkur er sagt að inntak lífsins sé gróði, okkur er kennt að lögmál græðginnar sé mesta dyggðin, okkur er innrætt að gæði lífsins séu fólgin í veraldlegum eignum. Æðri listir, menning, hugarró, nægjusemi, borgaraleg siðmenning, allt á þetta undir högg að sækja. Eftirspurnin eftir menningu, lætur undan síga og kemst ekki að í öllum æðibunuganginum og eltingarleiknum við það að gera það gott, eignast lúxuskerru, eignast villu, eignast hlutabréf, eignast hlut í þeirri veröld, sem er til að sýnast. Gerviheimur, geld veröld, platlíf.

Og hvað er þá til ráða? Ala börnin upp til að takast á við sýndarmennskuna? Kenna þeim að taka þátt í darraðardansinum? Eða eigum við að reyna að sporna við og innræta æskunni þau gildi, sem munu standast tímans tönn. Hin raunveruleg verðmæti sem aldrei geta orðið önnur en þau, sem felast í menningarlegu umhverfi, heilbrigðri hugsun og hreyfingu, án tillits til verðlags eða gróða eða stundargleði.

Hvað sagði ekki Sigurður Nordal:

"Listir eru jafngamlar manninum- eða með öðrum orðum eitt af því sem hefur gert manninn að manni."

Tónlistarnám er ekki til þess að framleiða snillinga úr hverjum þeim einstaklingi sem hefur nám. Tónlistarnámið er til að rækta með nemendum skilning og áhuga á tónlist, bæði til tjáningar og sköpunar.

Auðvitað ætti ástandið að vera þannig að öll börn hefðu tækifæri til að eiga þess kost að stunda tónlistarnám. Þó ekki væri nema til að kynnast því, vegna þess að tónlist á að vera hluti af uppeldi, hluti af þeim grundvelli sem lagður er, áður en börnin verða unglingar og fullorðnar manneskjur. Alveg eins og þau læra að lesa, reikna og skrifa og eru send í leikfimi.

Sem áhugamaður um íþróttir held ég því auðvitað fram að hreyfing og líkamsrækt hverskonar sé nauðysnlegur þáttur í uppeldi og hollu líferni. Stundum er verið að gera upp á milli íþrótta og menningarstarfs, það sé annaðhvort eða. Þessu er ég ósammála. Íþróttir eru raunar menning eins og hvað annað og ég legg það alveg að jöfnu að stunda íþróttir og nema tónlist. Hvort tveggja á að vera skyldunám, fastur liður í uppeldi hvers ungmennis, því hvory tveggja þjálfar hugsun og hreyfingu, þroskar eiginleika og hæfileika og þróar með barninu þá greind og vitneskju að lífið sé meira en saltfiskur.