Nýr Hyundai Accent er væntanlegur á markað.
Nýr Hyundai Accent er væntanlegur á markað.
STÆRSTI bílaframleiðandi Kóreu, Hyundai Motor Company, sló fyrri sölumet sín í mars á þessu ári með sölu á u.þ.b. 133.000 bifreiðum. Þar af voru um 59.000 bifreiðar seldar á innanlandsmarkaði og um 74.000 á erlendum mörkuðum.

STÆRSTI bílaframleiðandi Kóreu, Hyundai Motor Company, sló fyrri sölumet sín í mars á þessu ári með sölu á u.þ.b. 133.000 bifreiðum. Þar af voru um 59.000 bifreiðar seldar á innanlandsmarkaði og um 74.000 á erlendum mörkuðum. Með sölu marsmánaðar var sölumet fyrirtækisins, frá í desember á síðasta ári upp á rúmlega 128.000 bifreiðar, slegið. Um er að ræða 23,6 prósenta söluaukningu hjá fyrirtækinu milli mánaðanna febrúar og mars og 22,5 prósenta aukningu á milli ára. Til marks um rífandi söluaukningu hjá fyrirtækinu má nefna að í árslok 1999 var innan við 1% af heildarframleiðslu ársins óseld, að meðtöldum flutningabifreiðum og þungavinnuvélum sem fyrirtækið framleiðir einnig.

Ný lína hlýtur góðar viðtökur

Aukin markaðshlutdeild á erlendum mörkuðum endurspeglast í aukinni sölu þegar í upphafi þessa árs, sem og í hagnaði ársins 1999 upp á tæpar 370 miljónir Bandaríkjadala. Hyundai hefur ákveðið að fylgja árangri síðasta árs eftir með framleiðslu á nýrri línu Hyundai-bifreiða sem eru að flestu leyti betur búnar en þær eldri. Sala á nýju línunni er þegar hafin víða í Evrópu og Bandaríkjunum og sýnir m.a. söluaukningin í mars mjög jákvæðar viðtökur kaupenda þar. Jafnframt hefur nýja línan hlotið mjög góða dóma í dönsku og sænsku bílapressunni.

Nýr og betur búinn Accent á Íslandi

Hér á landi mun B&L, umboðsaðili Hyundai á Íslandi, hefja formlega sölu á nýjum Accent í byrjun maí. Samkvæmt upplýsingum frá B&L endurspeglar nýr Accent allt aðrar og nýjar áherslur í framleiðslu Hyundai. Hann er mun betur búinn ýmsum aukabúnaði en forveri hans og jafnframt rúmbetri, öruggari og þægilegri, en líka sportlegri í útliti. Forsala er hafin á fyrstu sendingu til landsins og er hún þegar uppseld, sem gefur tilefni til að ætla að móttökurnar verði ekki síðri hér á landi en í Evrópu og Bandaríkjunum.