Sambúðarvandi strangtrúaðra Gyðinga og hinna sem hneigjast til frjálslegri lífshátta setur mark sitt á allt ísraelska samfélagið. Hér eru strangtrúaðir í biðröð fyrir utan matvörumarkað til að búa sig undir fæðu við hæfi vegna föstu sinnar.
Sambúðarvandi strangtrúaðra Gyðinga og hinna sem hneigjast til frjálslegri lífshátta setur mark sitt á allt ísraelska samfélagið. Hér eru strangtrúaðir í biðröð fyrir utan matvörumarkað til að búa sig undir fæðu við hæfi vegna föstu sinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambúðarvandi bókstafstrúarmanna og veraldlega sinnaðra gyðinga setur svip sinn á flesta þætti ísraelsks samfélags.

Sambúðarvandi bókstafstrúarmanna og veraldlega sinnaðra gyðinga setur svip sinn á flesta þætti ísraelsks samfélags. Flokkar trúaðra komast gjarnan í lykilstöðu í stjórnarmyndunarviðræðum vegna þess hversu lítill munur er á fylgi hægri- og vinstriflokkanna og því njóta trúaðir pólitískra áhrifa sem eru ekki í nokkru samræmi við fjölda þeirra. Sigrún Birna Birnisdóttir hitti þrjár konur, sem tengjast með einhverjum hætti samfélagi bókstafstrúarmanna, forvitnaðist um lífshlaup þeirra og kynnti sér viðhorf þeirra til nokkurra helstu ágreiningsmála samtímans.

Zvia Greenfeld ólst upp í samfélagi Hareidi-bókstafstrúarmanna í Ísrael og býr enn í samfélagi þeirra þó hún sé málsvari ýmissa sjónarmiða sem eru andstæð skoðunum flestra bókstafstrúarmanna. Hún kveðst líta á sig sem Hareidi enda búi hún í samfélagi þeirra og sæki samkomuhús þeirra. "Okkur greinir vissulega á um ýmislegt og það kemur oft til deilna á milli okkar," segir hún. "Því er ekki að neita að samfélag Hareidi-gyðinga er mjög íhaldssamt. En það er ólíkt fólk innan allra samfélaga og þó við séum oft ósammála eigum við líka margt sameiginlegt. Ég held því að ég sé að mestu leyti samþykkt innan samfélagsins þó það vilji ekki gera mig að fulltrúa sínum út á við."

Foreldrar Zviu komu til Ísraels frá Austurríki fyrir seinna stríð. Hún segir að þau hafi verið mjög trúuð en búið að evrópskri hefð sem sé mjög ólík þeirri hefð sem síðar hafi orðið ríkjandi meðal ísraelskra Hareidi-gyðinga og að hún telji sig mjög heppna að hafa alist upp við þá samsetningu.

"Faðir minn var verkfræðingur og þrátt fyrir að hann væri mjög trúaður var hann einnig mjög opinn fyrir nýjum hugmyndum," segir hún. "Með tímanum varð fjölskylda mín íhaldssamari og hægrisinnaðri en ég hef haldið fast í hefðir og gildi foreldra minna." Hún segir þetta vissulega hafa skapað spennu innan fjölskyldunnar en með tímanum hafi hún lært að búa saman.

"Það er auðvitað mismunandi eftir fólki hversu reiðubúið það er að fyrirgefa mér skoðanir mínar," segir hún "en þeir sem þekkja mig vita að ég hef mjög sterkan persónuleika og að ég hef aldrei látið kúga mig. Þá hef ég alltaf verið trú því hegðunarmunstri sem krafist er af konum innan samfélagsins og það hefur auðveldað fjölskyldu minni að sætta sig við skoðanir mínar. Þau eiga hins vegar ennþá erfitt með að sætta sig við að vera dæmd út frá mér þegar þau eru mér ekki sammála."

"Konur njóta fjölbreyttari menntunar en karlar"

Zvia kveðst hafa fengið að lesa allt það sem hún vildi þegar hún var að alast upp. Foreldrar hennar hafi hins vegar lagst gegn því að hún legði stund á háskólanám. Vegna andstöðu þeirra hafi hún frestað háskólanámi um eitt ár en að því loknu ákveðið að halda sínu striki og hefja háskólanám þar sem hún gæti aldrei sætt sig við annað.

Hún segir stöðu konunnar innan samfélags trúaðra vera erfiða en bætir því við að vandamálum trúaðra kvenna svipi mjög til vanda annarra kvenna enda standi konur um allan heim frammi fyrir svipuðum vandamálum. "Helsti vandi trúaðra kvenna er krafa samfélagsins um stórar fjölskyldur," segir hún. "En ég hef trú á því að með aukinni menntun kvenna verði þessi vandi leystur. Menntun er að mínu mati lausn flestra vandamála og þegar ég lít til þess að strangtrúaðar konur hljóta í dag fjölbreyttari menntun en karlar, sem læra bara Biblíuna, get ég ekki verið annað en bjartsýn á þróun mála."

Zvia segist sammála því að rekja megi stærsta hluta sambúðarvanda trúaðra og veraldlega sinnaðra til trúaðra sem vilji ráðskast með aðra þjóðfélagshópa. Þá segir hún að leiða megi rök að því að bókstafstrúarmenn hafi staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun í landinu. "Í stað þess að eyða orkunni í framþróun eyðum við henni í innbyrðis deilur," segir hún. "Rót vandans liggur hins vegar í skilgreiningu Ísraels sem gyðinglegs ríkis. Spurningin snýst ekki um lífsmáta einstaklinganna heldur um það hversu langt ríkið eigi að ganga í því að fylgja lögmálum gyðingdómsins."

Eins og flestir bókstafstrúarmenn er fjölskylda Zviu andsnúin herskyldu. Hún segist hins vegar hafa gert sér grein fyrir mikilvægi þess að gyðingar gætu varið sig þegar hún vann á skjalasafni helfararsafnsins í Jerúsalem. "Í framhaldi af því varð ég eindreginn stuðningsmaður herþjónustu og ákvað að gera allt sem ég gæti til þess að hvetja börnin mín til að sinna herþjónustu," segir hún. "Á sama tíma er ég mikill friðarsinni og finnst það alls ekki þurfa að vera mótsögn. Ég er á móti herjum og stríðum en eftir helförina tel ég okkur ekki hafa haft neitt val. Við verðum að geta varið okkur. Þá tel ég að það einangri bókstafstrúarmenn að þeir gegni ekki herskyldu og víki sér þannig undan því að taka þátt í þeim mannfórnum sem þjóðin þarf að færa."

Zvia kveðst reiðubúin til að skila Gólanhæðunum enda telji hún þær ekki skipta sköpum í vörnum Ísraela. Þá hefur hún barist gegn hersetu Ísraela í Suður-Líbanon sem hún segir algerlega gagnslausa. "Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að verja landið frá okkar eigin landamærum," segir hún. "Enda höfum við margoft séð að þegar Líbanir ætla sér að gera árásir á Ísrael þá gera þeir það þrátt fyrir öryggissvæðið." Þá segir hún tíma til kominn að huga að þjáningum líbönsku þjóðarinnar, jafnvel þó hún sé sammála því að í sumum tilfellum helgi tilgangurinn meðalið. Hersetan hafi hins vegar engu áorkað nema því að gera Líbani að svörnum óvinum Ísraela.

"Að líta á frið sem raunverulegan valkost"

Hún segist telja það verkefni sinnar kynslóðar að semja frið við nágranna Ísraels og er meðal annars einn af stofnendum samtaka trúaðra kvenna fyrir verndun mannslífa. "Við teljum að þjóðinni hafi hlotnast einstakt tækifæri til að semja frið og ákváðum að reyna að stofna til nýrrar vitundar innan samfélags trúaðra um nauðsyn þess að nýta þetta tækifæri," segir hún. "Flestir trúaðir líta á verndun mannslífa sem mikilvægasta boðorðið og við reynum að notfæra okkur það til þess að fá fólk til að líta á frið sem raunverulegan valkost."

Hún kveðst trúa því að Ísraelar og Palestínumenn geti komist að einhvers konar málamiðlun þó hún eigi ekki von á því að þeir verði neinir perluvinir til að byrja með. Hún geti vel skilið að Palestínumenn beri kala í brjósti til Ísraela og að þeir líti svo á að gyðingar eigi engan tilverurétt í þessum heimshluta. Það breyti því hins vegar ekki gyðingar þurfi á föðurlandi að halda. "Það hversu skammarlega þjóðir Evrópu sviku gyðinga í hendur nasistum réttlætti það að við settumst hér að," segir hún. "Nú þegar við höfum þraukað stríð og byggt upp landið höfum við hins vegar ekki lengur ástæðu til að líta á okkur sem fórnarlömb. Það er því er kominn tími til að taka næsta skref og huga að þeim hörmungum sem aðrir hafa þurft að búa við. Þá á ég fyrst og fremst við Palestínumenn. Þeir eru ekki ábyrgir fyrir þeim hörmungum sem við höfum þurft að þola og lentu sjálfir í aðstöðu sem þeir kærðu sig ekkert um."

Zvia telur friðarferlinu standa hvað mest ógn af landnemabyggðum Ísraela á Vesturbakkanum sem Palestínumenn munu aldrei sætta sig við. Fjöldi landnema muni hins vegar aldrei fallast á að yfirgefa heimili sín og það geti reynst stjórnvöldum dýrkeypt að þvinga þá til þess. "Ég hef verið andvíg landnemabyggðum gyðinga á Vesturbakkanum frá upphafi," segir hún. "Ég var þess alltaf fullviss að þær myndu einungis leiða til vandræða og hefði aldrei getað trúað því að þær yrðu enn til staðar 25 árum síðar."

Hún segist líta svo á að landnemarnir hafi mjög rangt fyrir sér. Hún telji þó að viðhorf margra landnema hafi verið að breytast. Vissulega muni margir þeirra berjast gegn því að láta landið af hendi en aðrir hafi smám saman verið að gera sér grein fyrir því að þeir hafi verið á rangri braut og séu farnir að sætta sig við að hluti landnemabyggðanna verði yfirgefinn. "Fólk hefur verið að gera sér grein fyrir því að málstaðurinn nýtur ekki stuðnings þjóðarinnar," segir hún. "Þá tel ég að dauði Rabíns hafi verið mörgum landnemum mikið áfall þar sem þeir hafi séð að barátta þeirra væri gengin út í öfgar. Þetta fólk hefur hins vegar ekki að neinu að hverfa og því get ég ekki annað en fundið til samúðar með þeim, þrátt fyrir að þeir hafi valdið bæði hörmungum og vandræðum með afstöðu sinni."