Raya Ginzburg
Raya Ginzburg
Raya Ginzburg er fædd í Rússlandi en fluttist með foreldrum sínum til Ísraels þegar hún var barn að aldri. Eftir komuna til Ísraels gengu foreldrar hennar til liðs við bókstafstrúarmenn sem nefna sig Hareidi Leumi.

Raya Ginzburg er fædd í Rússlandi en fluttist með foreldrum sínum til Ísraels þegar hún var barn að aldri. Eftir komuna til Ísraels gengu foreldrar hennar til liðs við bókstafstrúarmenn sem nefna sig Hareidi Leumi. Fjölskyldan settist að í landnemabyggð gyðinga í Hebron þar sem Raya hlaut strangt trúarlegt uppeldi enda segir hún foreldra sína hafa verið óvenju heittrúaða eins og algengt sé meðal fólks sem gengið hefur til liðs við bókstafstrúarmenn en er ekki alið upp í samfélagi þeirra. Foreldrar hennar hafi því tekið því illa þegar hún á unglingsárum fór að spyrja gagnrýnna spurninga.

Raya segir efasemdir sínar fyrst hafa vaknað í sambandi við stöðu konunnar innan samfélags bókstafstrúarmanna. "Ég trúði því ekki að Guð, sem hefði skapað eitthvað jafnstórfenglegt og jörðina, væri að skipta sér af smáatriðum eins og pilsa- eða ermalengd," segir hún. "Mér fannst tilhugsunin hreinlega gera lítið úr Guði."

Hún segist hafa farið að rífast við kennarana sína og krefjast þess að fá að lesa verk á borð við Antígónu. Í framhaldi af því hafi hún fengið á sig orð fyrir að vera vandræðagemlingur og þegar hún var sautján ára var hún rekin úr skóla fyrir að neita að leyfa lækni að ganga úr skugga um að hún væri hrein mey.

Í kjölfarið fór hún að heiman. Hún var á þvælingi í tvo mánuði en gafst þá upp og flutti aftur heim. "Foreldrar mínir voru á þessum tíma að skilja og kenndu álaginu sem ég hafði orsakað um skilnaðinn," segir hún. "Þegar ég kom aftur heim létu þau að því liggja að ég gæti bætt fyrir þann álitshnekki sem ég hafði valdið þeim með því að ganga í hjónaband. Ég hafði verð mjög náin foreldrum mínum og ég stóðst ekki álagið og samþykkti því að gifta mig. Ég vissi innst inni að hjónabandið myndi ekki endast en ákvað að reyna til að græða sár fjölskyldunnar."

"Gáfur ekki taldar konum til hróss"

Raya segir fólk vera verðlagt eftir virðingu á hjónabandsmarkaði bókstafstrúarmanna og þegar hér hafi verið komið hafi hún verið fallin í verði. "Áður en ég fór að heiman hafði ég fengið fimmtán bónorð, þar sem faðir minn var virtur í samfélaginu," segir hún hlæjandi. "En nú heyrðist ekki í símanum."

Eftir nokkra leit féllst þó vinur fjölskyldunnar á að kvænast henni en hann hafði sjálfur tekið gyðingatrú á fullorðinsaldri og átti því ekki kost á betra gjaforði. Raya kveðst hafa vonast til þess að hann hefði meiri skilning á skoðunum hennar vegna bakgrunns síns en svo reyndist ekki vera. Hún segir hann hafa verið mikinn öfgamann og því hafi hún farið fram á skilnað eftir eins árs hjónaband. "Maðurinn minn vildi ekki veita mér skilnað en ég krafðist þess að við færum til rabbínadómstólsins sem sér um að veita skilnaði," segir hún. "Ég mætti þangað í pínupilsi og fleginni skyrtu til að leggja áherslu á að ég hefði gengið af trúnni en maðurinn minn var klæddur á hefðbundinn hátt með svartan hatt og í svartri kápu. Yfirleitt veitir rabbínadómstóllinn ekki skilnað nema báðir aðilar séu honum fylgjandi en þegar rabbíninn sá mig ráðlagði hann manninum mínum að veita mér skilnað þar sem hann sagðist óttast að ég hefði slæm áhrif á hann."

Skilnaðurinn gekk í gegn á tveimur dögum en var þeim skilyrðum bundinn að eiginmaður Rayu fengi allar eigur þeirra en hún tæki á sig allar skuldirnar. Eftir skilnaðinn flutti hún til Jerúsalem þar sem hún leigði herbergi og vann baki brotnu við að greiða upp skuldirnar. Hún segir þetta vissulega hafa verið erfiðan tíma meðal annars vegna þess að fjölskylda hennar hafi neitað að tala við hana. Þegar hér hafi verið komið hafi hún hins vegar verið undir það búin að standa á eigin fótum og taka því sem að höndum bæri og hún hafi aldrei séð eftir því að hafa farið sína leið.

Raya undirbýr sig nú undir háskólanám en sú menntun sem hún hlaut í Hebron stenst engan veginn þær kröfur sem gerðar eru við upphaf háskólanáms. "Við lásum Biblíuna aftur og aftur en lærðun hvorki ensku, stærðfræði né sögu þótt það hafi verið á námskránni þar sem trúaðir líta svo á að stúlkur þurfi ekki á menntun að halda," segir hún. "Gáfur eru ekki taldar trúuðum konum til hróss enda er litið svo á að því minna sem þær kunni því betra."

Hún segist þó telja að samfélag bókstafstrúarmanna henti mörgum konum betur en samfélag veraldlega sinnaðra enda sé líf kvenna innan þess að mörgu leyti einfaldara. Það henti þó ekki öllum og hafi alls ekki hentað henni. Hún segist þó vissulega hafa fundið fyrir einmanaleika á undanförnum árum auk þess sem hún sakni þeirrar samkenndar og þess stuðnings sem ríki innan samfélags trúaðra. "Samfélag trúaðra hefur mjög sterkt stuðningskerfi en í samfélagi veraldlegra sinnaðra verður maður að standa á eigin fótum," segir hún. "Þannig eru til dæmis þeir sem koma inn í samfélag bókstafstrúarmanna umvafðir umhyggju á meðan þeir sem yfirgefa samfélag þeirra og gerast veraldlega sinnaðir fá engan stuðning. Það eru reyndar til samtök sem vinna með þeim en úti í samfélaginu hefur enginn áhuga á þessu fólki."

"Stend ekki lengur í stríði við Guð"

Aðspurð segist Raya enn vera trúuð en að nú trúi hún á Guð á sinn eigin hátt. "Þegar ég var strangtrúuð var ég alltaf í stríði við Guð," segir hún. "Ég átti það jafnvel til að finna til haturs gagnvart honum en nú er ég sátt við hann. Ég get auðvitað ekki verið viss um að trú mín sé rétt en hún er að minnsta kosti samkvæmt minni eigin sannfæringu."

Ólíkt flestum þeim sem hafa yfirgefið samfélag bókstafstrúarmanna er Raya hægrisinnuð og styður landnemabyggðir gyðinga á Vesturbakkanum. Hún segist þó styðja þær af öryggisástæðum en ekki af trúarástæðum eins og fjölskylda hennar geri. "Ég trúi því ekki að við getum keypt okkur frið með því að láta herteknu svæðin af hendi og sé því ekki að það liggi nein lausn í því," segir hún. "Við munum aldrei geta látið Palestínumönnum nógu mikið eftir til þess að þeir sætti sig við veru okkar hér og því sé ég ekki ástæðu til þess að láta þeim neitt eftir, sérstaklega þar sem það mun einungis veikja stöðu okkar."

Hún hefur heldur ekki trú á því að trúuðum og veraldlega sinnuðum muni takast að leysa ágreiningsmál sín á næstunni. "Samkvæmt gyðingatrú hefur hegðun einstaklingsins áhrif á örlög fjöldans og því munu hinir trúuðu aldrei sætta sig við lífsstíl hinna veraldlega sinnuðu," segir hún. Þá segir hún veraldlega sinnaða eiga erfitt með að sætta sig við ýmis lög sem byggð eru á ströngum reglum gyðingdómsins og þau fríðindi sem trúaðir búi við svo sem undanþágu frá herskyldu.

"Ég er sammála því að trúaðir ættu með réttu að sinna herskyldu," segir hún. "Á sama tíma veit ég að það myndi leiða til óteljandi árekstra og því tel ég að við séum jafnvel betur komin án þeirra. Það er ekki vænlegt til árangurs að reka her með hermönnum sem kæra sig ekki um að þjóna landinu."