Trio Elegiaque í g-moll eftir Sergei Rakhmaninov, Tríó í D-dúr op. 70 nr. 2 eftir Beethoven og Píanótríó frá 1953 eftir Artur Malawski. Fimmtudag kl. 20.30.

HÚN virðist stutt leiðin frá Póllandi til Íslands. Hingað koma þeir, Pólverjarnir og sjá okkur fyrir því sem er brýnast í lífinu. Þeir koma og verka oní okkur fiskinn, og sjá okkur svo fyrir tónlist. Þvílíkt lán! Tónlistarlífið hér væri fátækara ef ekki hefði notið við fjölmargra pólskra listamanna. Nokkrir þeirra hafa leikið í Sinfóníuhljómsveit Íslands árum saman; þeir eiga hér frábæra söngkonu, og svo eiga þeir hér tónlistarmenn sem hafa sest að úti á landi til að auðga tónlistarlífið þar. Jacek Tosik-Warszawiak píanóleikari hefur búið í Borgarnesi í átta ár. Þar hefur hann kennt tónlist og starfað með öðrum tónlistarmönnum. Lítið hefur heyrst til hans hér á höfuðborgarsvæðinu; því miður. Nú kemur á daginn að hann er þriðjungur og einn stofnenda píanótríós sem kallar sig Trio Cracowia, en meðlimir þess eru fyrrum skólafélagar úr Tónlistarháskólanum í Kraká. Krakártríóið lék fyrir þunnskipuðum Salnum í Kópavogi, og sárt að svo margir skyldu missa af frábærum leik þess. Fiðluleikarinn Krzysztof Smietana, og sellóleikarinn Julian Tryczynski, félagar Jaceks í tríóinu eru eins og hann, margreyndir tónlistarmenn með langan slóða á eftir sér af alls kyns vegtyllum, viðurkenningum og verðlaunum. Og þótt þeir félagarnir búi hver í sínu landi, og æfingar hljóti þar af leiðandi að vera strjálar, eru þeir langt frá því að vera þrír hljóðfæraleikarar þegar þeir spila saman: þeir eru eitt tríó; - eitt hljóðfæri. Samleikur þessara manna var eins og best er hægt að ímynda sér hann. Þeir höfðu fullkomið næmi hver fyrir öðrum, og öll "artikúlasjón" var algjörlega einróma. Músíkalskur leikur þeirra lyfti þessari kvöldstund hátt upp úr hversdeginum. Tríó elegiaque eftir Rakhmaninov er hrífandi tónsmíð og var frábærlega leikin. Í lok verksins er langt diminuendo þar sem leikið skal með sí-minnkandi styrk. Þessi hending var listilega útfærð og verkið dó út á áhrifamikinn hátt.

Tríó Beethovens nr. 2 úr ópus 70 var samið á einu frjóasta og afkastamesta tímabili á starfsævi tónskáldsins, í lok fyrsta áratugar nítjándu aldarinnar. Þarna er Beethoven sjálfum sér líkastur, frumlegur í hljómrænni framvindu og snilldarlegur í útfærslu stefja og stefbrota. Bráðlátt og snarpt upphaf fyrsta þáttar var svo dýnamískt leikið, að frá byrjun var maður sem festur upp á þráð. Í hægum milliþættinum fór Krakártríóið dásamlega með undurfallegt, mjúkt og veikt upphafsstefið og safaríkur prestóþátturinn var kraftmikil andstæða þessarar blíðu.

Síðasta verkið á efnisskránni var Píanótríó frá 1953 eftir Artur Malawski. Þetta var óvæntasta gleðin á þessum ágætu tónleikum. Í dag er Malawski sennilega best þekktur sem kennari margra helstu tónskálda pólska skólans á þessari öld og frægasti nemandi hans trúlega Krzysztof Penderecki.

Það var fátæklegt að ekkert skyldi vera sagt frá Artur Malawski í prógrammi tónleikanna; því varla hafa margir tónleikagestir þekkt hann og verk hans. Þetta ágæta tónskáld fæddist í Przemysl og stundaði fyrst nám í fiðluleik og tónfræði í heimabæ sínum. 1928 fór hann til Krakár til frekara náms og varð síðarmeir prófessor í hljómsveitarstjórn og tónsmíðum í Kraká. Píanótríóið frá 1953 er mikilsháttar tónsmíð. Stíll hennar er persónulegur og einlægur. Rammir pólýrytmar og djúpur expressjónismi einkenna verkið. Það er hefðbundið í formi; - fjórir þættir, en tónmálið er fallegt og ferðast frumlegar og framandi leiðir út frá tónmiðjunni. Þetta var fín músík; heilsteypt verk, og fantavel spilað af Krakártríóinu.

Nú er bara að bíða og vona að Krakártríóið komi aftur hingað til að spila; - sem fyrst.

Bergþóra Jónsdóttir