Erla Lárusdóttir fæddist í Reykjavík 11. nóvember 1935. Hún lést 8. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Kotstrandarkirkju í Ölfusi 18. janúar.

Mamma, nú er komin þín hvíld og ró, af hjarta léttir þér. Sofir þú nú djúpt og vært, elsku mamma mín.

Elsku mamma mín, nú eru rúmir þrír mánuðir liðnir frá því þú fórst svo snögglega frá okkur. Það eru margir sem sakna þín hér frá Denver, eins og heima á Íslandi. Eitt af því sem þú kenndir okkur systkinunum og þér fannst mikilvægt, var að hjálpa þeim sem áttu erfitt, enda varst þú alltaf að hjálpa fólki sem kom til þín, bæði skyldfólki og öðrum.

Ég er svo hrygg yfir því að hafa ekki átt tök á að koma heim með fjögur yngri börnin mín og leyfa þeim að sjá þig í "Sigga Sveit", þau hefðu haft gaman af því. Kristín, Shanda, Ashley og Travis fannst svo gaman þegar þú komst til Denver síðast. Travis litli vissi að þegar hann langaði í "nammi" , þá var amma alltaf með eitthvað í pokanum fyrir hann. Þegar þú hringdir í okkur frá Íslandi, var Travis litli oftast heima og vildi segja "hæ, amma hvað ertu að gera". Núna segja þau öll að amma sé í himnaríki með Jögga langafa og þau hafi það gott hjá Jesú og Guði.

Mamma,

nú er komin þín hvíld og ró,

af hjarta léttir þér.

Sofir þú nú djúpt og vært,

elsku mamma mín.

Magga og fjölskylda í Denver.

Kveðið á Sandi

Yfir kaldan eyðisand

einn um nótt ég sveima.

Nú er horfið Norðurland,

nú á ég hvergi heima.

(Kristján Jónsson.)

Ég man eftir þér sem mjög góðri ömmu.

Ég man þegar þú komst hingað einu sinni um jól, hvað við skemmtum okkur konunglega og hlógum mikið.

Síðast þegar þú hringdir í okkur, var ég sú eina sem var vakandi og man ég hvert einasta orð sem þú sagðir við mig. Þú fórst svo snögglega frá okkur, þú munt alltaf vera í hjarta mínu og í huga mínum.

Hvern einasta dag hugsa ég til þín og ég er stolt og glöð að hafa átt þig fyrir ömmu. Þú varst mín besta amma. Ég veit þú munt alltaf vera með okkur um ókomin ár.

Þín

Kristín Erla.

Það sem ég man um ömmu mína, var að þú varst alltaf góð við okkur.

Hvert skipti sem þú komst hingað til Denver, þá varst þú alltaf með eitthvað handa okkur. Ég mun sakna þín og mér fannst svo mikið vænt um þig. Þótt ég hafi ekki alltaf skilið vel það sem þú sagðir, þá bað ég mömmu um að þýða það fyrir mig. Ég kallaði þig alltaf ömmu, en ekki "grandma", af því þú áttir heima á Íslandi.

Þín

Shanda Ann.

Amma, ég man eftir því að þú varst alltaf svo góð við okkur.

Oft þegar þú komst hingað til okkar, þá fórum við í búðir til að versla m.a. handa krökkunum á Íslandi, þá gafst þú okkur alltaf eitthvað fallegt líka. Ég man að þér fannst gott að fá góðan bolla af kaffi með mömmu, þótt mamma gerði kaffið ekki alltaf nógu sterkt fyrir þig.

Ég man þig alltaf og sakna þín, amma mín.

Þín

Ashley Marie.

Magga og fjölskylda í Denver.