Alma Elísabet Hansen fæddist á Siglufirði 20. júní 1935. Hún lést á kvennadeild Landspítalans 22. mars síðastliðinn og fór útför hennar fram í kyrrþey.

Hún var fyrsta vinkonan sem ég eignaðist. Við vorum sex ára stelpur á Siglufirði - bjuggum báðar við ást og umhyggju í foreldrahúsum. Veröldin var fjörðurinn okkar fagri umkringdur fjöllunum háu. Í minningunni var lífið litríkt - sumrin heit og sólrík og þó að hvítur snjórinn setti flestallt í kaf á veturna, gaf hann möguleika til margs konar leikja og félagslífið blómstraði.

Hún var lágvaxin og grönn, ljóshærð og bláeygð, brosmild og blíð. Samt bjó þessi netta kona yfir ótrúlegum dugnaði og viljastyrk. Mér er minnisstætt heimili Hansenshjónanna, enda var ég heimagangur þar. Þau voru samhent hjónin, Margrét og Rudolf, um að búa börnunum fimm gott heimili. Það var skemmtilegt og líflegt að sækja þau heim, enda gestkvæmt og átti tónlistin stóran þátt í því. Börnin lærðu að spila á hljóðfæri og sum þeirra höfðu það að ævistarfi að kenna þá leikn.

Við vorum samrýndar vinkonurnar og varla leið sá dagur að við ekki hittumst. Okkur kom afar vel saman, sennilega hefur ljúfa skapið hennar Ölmu átt stóran þátt í því. Við vorum nýbyrjaðar í skóla þegar fjölskylda hennar ákvað að flytja til höfuðborgarinnar. Mér fannst veröldin hrynja, svo mikill var söknuðurinn eftir vinkonunni góðu. Ég man vel, stuttu eftir að þau voru farin, að ég stóð á skólalóðinni, fannst ég fjarska einmana, horfði til fjallanna og óskaði þess að Alma kæmi fljúgandi yfir þau til mín. Nokkrum árum seinna fluttumst við, eins og svo margir aðrir á þeim árum, til Reykjavíkur og þá tókum við upp þráðinn á ný. Hún bjó á Nýlendugötunni, en ég í Laugarnesinu, svo langt var að fara á milli. Ekki voru bílar á heimilunum og gekk strætó aðeins niður á Lækjartorg. Við létum það samt ekki á okkur fá, en fengum stundum að gista hvor hjá annarri.

Leiðir okkar skildust, þegar ég fluttist til annarrar álfu, en hún fór til Þýskalands stuttu eftir stúdentspróf og nam fiðluleik og listasögu, enda hafði hún yndi af öllu því sem tilheyrði list. Öðru hverju skrifuðumst við á og hún sendi mér stúdentsmyndina af sér og hana geymi ég vel. Þó að bréfaskriftir yrðu ekki miklar, slitnaði í raun og veru aldrei vináttan. Löngu seinna, þegar hún var orðin veik, höfðum við samband aftur. Þrátt fyrir veikindi sín, bar hún mig og mitt fólk mikið fyrir brjósti og minntist okkar í bænum sínum. Alma var trúuð kona og bænheit. Fyrir síðustu jól sendi hún mér jólakort, þar sem hún bað mér og fjölskyldu minni blessunar og minntist með þakklæti áranna löngu liðnu og einnig hinna þegar við endurnýjuðum vináttuna. Nú er hún farin, vinkonan góða, en minningin um hana lifir og þakklætið fyrir kærleika hennar og vináttu. Ég og fjölskylda mín vottum systrum hennar okkar innilegustu samúð og biðjum þeim blessunar Guðs.

Ebba Sigurðardóttir.

Ebba Sigurðardóttir.