Rannveig Margrét Gísladóttir fæddist á Gauksstöðum í Garði hinn 6. janúar 1914. Hún lést á elliheimilinu Grund 4. apríl síðastliðinn. Rannveig var dóttir hjónanna Gísla Sveinbjörns Einarssonar, f. 7.11. 1887, d. 8.10. 1933, og Steinunnar Jónsdóttur, f. 10.3. 1885, d. 29.2. 1960, frá Gauksstöðum í Garði. Rannveig var þriðja í röð systkina sinna sem öll eru látin. Þau voru: Sigurjón Óskar, f. 22.8. 1910, d. 25.11. 1986, maki Anna Árnadóttir, f. 13.11. 1913, d. 24.9. 1993; Magnús Ingibjörn, f. 12.11. 1911, d. 24.10. 1967, maki Ástrós Guðmundsdóttir, f. 8.11. 1907, d. 13.11. 1969; Guðrún Una Sigurveig, f. 10.11. 1912, d. 7.10. 1956; hún var nunna í St. Jósepsreglunni; Jón Sveinn, f. 9.8. 1915, látinn, maki Anna Kristensen, f. 23.5. 1915, d. 1.2. 1997; Guðný Fjóla, f. 4.2. 1917, d. 7.10. 1967, maki Ingvar Guðfinnsson, f. 3.11. 1909, d. 22.7. 1993; Oddný Margrét, f. 5.3. 1920, d. 1995, maki Toni Brusella, látinn; þau voru búsett í Bandaríkjunum. Einn fósturbróður áttu þau systkinin, Odd Daníelsson, f. 8.12. 1928, d. 13.12. 1996, maki Bára Sigurjónsdóttir, f. 27.7. 1937, búsett í Kópavogi. Rannveig eignaðist þrjú börn. Þau eru 1) Árni Sveinbjörn, f. 17.10. 1945; hann á tvö börn, Jóhann Geir og Rannveigu, 2) Finnur, f. 18.8. 1949; hann á fjögur börn, Tómas, Einar, Bergrúnu og Gísla auk fóstursonarins Brands, 3) Hjördís Sveina, f. 22.12. 1952; hún á fimm börn, Auðun, Jósep, Guðnýju Maju, Rannveigu Lilju og Hjördísi Lind.

Rannveig var jarðsungin í Fríkirkjunni í Reykjavík í kyrrþey 13. apríl og jarðsett að Útskálum í Garði.

Þá er stundin runnin upp, stundin þegar við kveðjumst að eilífu, elskulega Veiga mín. Það er bæði ljúft og sárt að kveðja fullorðna konu, sem hefur lifað í áttatíu og sex ár. Ljúft vegna minninganna sem ég geymi í huga mínum frá öllum stundunum sem við áttum saman síðustu árin. Það eru viss forréttindi að þekkja gamalt fólk, það þroskar mann að umgangast það. Ég veit að Veiga hefur átt sinn þátt í mínum þroska. Alla ævi mína hef ég umgengist Veigu, hún var systir hennar ömmu minnar, Fjólu. Þær voru mjög samrýndar systur, alltaf saman, hittust nánast daglega. Rannveig var að sumu leyti sérstök kona. Hún var óhrædd við að takast á við erfiðleika, hún var einstæð móðir með þrjú börn. Hún vann alla tíð úti, lengst starfaði hún á Landakoti hjá nunnunum, þar vann hún sem vökukona á næturvöktum. Á efri árum tók hún sig til og útskrifaðist sem sjúkraliði og var hún meðal fyrstu félaga í Sjúkraliðafélagi Íslands. Ég minnist allra stundanna með Veigu, ömmu og Önnu Árna uppi á Landakoti, ferðanna suður í Garð og vestur á Ægissíðu, þegar þær tóku slátur, eða tóku í spil og ásökuðu hver aðra um svindl og hlógu síðan dátt að öllu saman. Það voru þung og erfið spor fyrir Veigu að kveðja þær, eins og svo marga sem hún var búin að kveðja, öll systkini sín og nokkur systkinabörn einnig. Veiga átti marga góða vini og var mikill húmoristi. Fyrir u.þ.b. tveimur árum fór ég með henni í heimsókn í klaustrið í Garðabæ ásamt Valgerði vinkonu hennar, sem nú er nýlátin, að hitta gömlu vinkonur þeirra í St. Jósefsreglunni. Það er ein sú yndislegasta stund sem ég hef upplifað að sitja hjá þeim og hlusta á þær rifja upp gamla daga. Ég vissi ekki að nunnur væru svona miklir húmoristar, en það vissi Veiga og þess vegna var þeim sennilega svo vel til vina. Seinni árin var Veiga minna á ferðinni. Hún lærbrotnaði og náði aldrei fullum bata í fætinum eftir það. Hún elskaði að fara á rúntinn eins og hún kallaði það og var Anna Björns dugleg að fara með gömlu konuna út að keyra og að heimsækja hana; hún naut þeirra stunda. Þrjú börn eignaðist hún eins og fram hefur komið og 13 barnabörn. Hún elskaði þau öll og var mjög hreykin af þeim öllum. Auðunn var mikið með ömmu sinni þegar hann var að alast upp, þvældist með henni um allar trissur. Rannveig litla tók svo við af bróður sínum að fylgja henni og áttu þær mjög náið samband. Það síðasta sem Veiga gerði í þessu lífi var að fara í Fríkirkjuna að sjá nöfnu sína fermast. Ég veit að það hefur verið fullkomin stund hjá henni. Ég má til með að minnast Einars, sem alltaf hefur verið duglegur að kíkja í heimsókn, og Rakel, hafðu þökk fyrir þitt framlag. Elsku Svenni minn, Finnur og Hjördís, ég votta ykkur mína dýpstu samúð, öllum ömmubörnunum og litlu langömmubörnunum. Við hin minnumst Rannveigar Gísladóttur með virðingu. Bless, elsku frænka.

Þín

Fjóla.

Fjóla.