Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra kynnir skýrslu nefndarinnar ásamt nefndarmönnum á blaðamannafundi.
Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra kynnir skýrslu nefndarinnar ásamt nefndarmönnum á blaðamannafundi.
NEFND á vegum dómsmálaráðherra sem hefur undanfarið ár unnið að undirbúningi reglna um DNA-rannsóknir í þágu rannsókna alvarlegra sakamála, s.

NEFND á vegum dómsmálaráðherra sem hefur undanfarið ár unnið að undirbúningi reglna um DNA-rannsóknir í þágu rannsókna alvarlegra sakamála, s.s nauðgunar- og morðmála, leggur til í skýrslu sinni, að hér á landi verði hafin kerfisbundin skráning upplýsinga um erfðagerð manna, fengnar úr lífsýnum þeirra, sem tekin hafa verið í þágu rannsóknar opinberra mála.

Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra segist munu leggja áherslu á að samið verði lagafrumvarp sem byggir á tillögum nefndarinnar, sem lagt verði fyrir Alþingi í haust.

Formaður nefndarinnar var Ragnheiður Harðardóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara, en í nefndinni sátu auk hennar Arnar Þór Jónsson lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Bjarni J. Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn, Gunnlaugur Geirsson prófessor í réttarlæknisfræði, Haraldur Briem yfirlæknir og Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri.

Rannsóknarhagsmunir mestir í alvarlegum sakamálum

Í niðurstöðum skýrslu nefndarinnar er horft til þess að með aðgengilegum upplýsingum aukist möguleikar lögreglu til samanburðarrannsókna, sem væri til þess fallið að auðvelda rannsókn tiltekinna alvarlegra afbrota. Rannsóknarhagsmunir myndu samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar vera mestir í alvarlegum kynferðisbrota-, líkamsárása- og manndrápsmálum, þar sem einna mestar líkur eru á að brotamaðurinn skilji eftir sig líffræðileg spor.

Nefndin leggur áherslu á það að við reglusetningu DNA-skrár verði gætt grundvallarreglna um vernd persónuupplýsinga og upplýsingar skráðar og notaðar einvörðungu við rannsókn og meðferð opinberra mála.

Fleiri en sakamenn skráðir í DNA-skrána

Nefndin leggur m.a. til að ákveðið verði með lögum að lögreglu skuli heimilt að skrá upplýsingar um DNA-snið þeirra sem hlotið hafa refsidóma fyrir brot, sem hafa í för með sér almannahættu samkvæmt XVIII. kafla almennra hegningarlaga, kynferðisbrot samkvæmt XXII. kafla sömu laga og manndráp og líkamsmeiðingar samkvæmt XXIII. kafla laganna. Einnig leggur nefndin til að lögreglu verði heimilt að skrá DNA-snið þeirra sem hafa hlotið refsidóma fyrir stórfelldan þjófnað samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga og líkamlegt ofbeldi eða hótanir um beitingu ofbeldis samkvæmt 252. gr. sömu laga. Skráningin á samkvæmt tillögum nefndarinnar einnig að ná yfir þá sem hafa gert tilraun til brota á 244. og 252. gr. hegningarlaga.

Nefndin leggur til að heimilt verði að skrá upplýsingar um einstaklinga þótt viðkomandi hafi verið sýknaðir vegna sakhæfisskorts og þá sem ekki verður refsað samkvæmt 14. gr. hegningarlaga, en ríkissaksóknari telur upplýst að hafi framið kynferðisbrot, manndráp eða líkamsárás.

Í tilefni þess að nefnt hefur verið að mörgum myndi reynast þungbært og niðurlægjandi að vera á skránni, bendir nefndin á að réttarvörslukerfið færi þegar kerfisbundið upplýsingar um afbrot einstaklinga. Nægi þar að nefna að upplýsingar um ákærumál eru færðar í málaskrár dómstóla og upplýsingar um refsidóma í sakaskrá ríkisins samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt tillögum nefndarinnar á ríkislögreglustjóri að halda skrána en lagt er til að heimilt verði að veita lögreglustjórum, ríkissaksóknara, dómsmálaráðuneytinu, erlendum dómsmálayfirvöldum, umboðsmanni Alþingis og rannsóknarstofu sem annast DNA-greiningu samkvæmt samningi við dómsmálaráðuneytið, upplýsingar úr henni.

Að sögn Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra verður lögð áhersla á að semja lagafrumvarp á grundvelli tillagna nefndarinnar, sem lagt verði fyrir Alþingi í haust. "Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál og að DNA-skráningin muni flýta fyrir rannsóknum sakamála," segir Sólveig. Hún segir að á grundvelli upplýsinga úr DNA-skránni verði unnt að koma upp um alvarleg afbrot mun fyrr en ella og skýrari hætti en áður.

"DNA-skráningin felur ekki einvörðungu í sér að menn verði dæmdir sekir heldur getur notkun hennar fyrirbyggt það að saklausir menn verði sakfelldir fyrir brot sem þeir hafa ekki framið," segir Sólveig. Hún segist sjá fyrir sér að DNA-rannsóknir í íslenskum sakamálum sem hingað til hafa farið fram erlendis, geti farið fram hérlendis í framtíðinni samhliða hinni kerfisbundnu DNA-skráningu enda séu erfðarannsóknir á mjög háu stigi hérlendis. "Við höfum alla burði til að vinna þetta verkefni mjög vel. Við eigum mjög góða vísindamenn hér á landi og jafnvel er ekki útilokað að þeir gætu tekið að sér DNA-rannsóknir fyrir aðrar þjóðir, þar sem málafjöldinn er miklu meiri en hérlendis og biðtíminn lengri."