Elton John er væntanlegur til landsins og mun setjast við flygilinn á Laugardalsvelli.
Elton John er væntanlegur til landsins og mun setjast við flygilinn á Laugardalsvelli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SIR Elton John heldur tónleika á Laugardalsvelli 1. júní næstkomandi og munu þetta vera einir stærstu tónleika sem haldnir hafi verið á Íslandi.

SIR Elton John heldur tónleika á Laugardalsvelli 1. júní næstkomandi og munu þetta vera einir stærstu tónleika sem haldnir hafi verið á Íslandi. Umfang þeirra er mikið, leigt hefur verið stórt svið að utan sem og yfirbreiðsla á grasvöllinn og stórir skjáir sem myndum verður varpað á. Gert er ráð fyrir því að ríflega 3.000 manns komist fyrir í hvorri stúku og um 12.000 manns með góðu móti í stæði.

Undirbúningur tónleikanna hefur staðið í rúmt ár en aðstandendur þeirra eru þau Guðrún Kristjánsdóttir, Ragnheiður Hanson og Halldór Kvaran. Guðrún sagði á blaðamannafundi í gær að þau hefðu lagt upp úr því að kanna áhuga meðal fólks hér á landi á tónleikum með Elton John og meðal annars látið gera skoðanakönnun í þeim tilgangi. Í ljósi niðurstöðu hennar hafi þótt ástæða til að halda tónleikana á Laugardalsvelli, slíkur var áhuginn, og er reiknað með að sú ákvörðun borgi sig, þó að mikill kostnaður fylgi því að halda tónleikana þar.

Miðasala hefst föstudaginn 12. maí og fer fram í hraðbönkum Íslandsbanka. Ragnheiður segir að þetta sé meðal annars gert svo fólk um allt land hafi jafnan aðgang að miðum, en einnig verði hægt að nálgast miða á heimasíðu þeirra, www.samskipti.is/elton., sem opnuð verður á fimmtudag. Miðaverð er 5.600 krónur í stæði og 6.600 krónur í stúku.

Elton John mun flytja um þrjátíu lög sem spanna allan þrjátíu ára feril hans. Hann kemur hingað til lands sama dag og tónleikarnir verða haldnir en kvöldið áður er hann með tónleika í Danmörku. Héðan heldur hann svo til Bretlands.