Þorsteinn Helgason hefur sett saman sinfóníu lita í Galleríi Fold.
Þorsteinn Helgason hefur sett saman sinfóníu lita í Galleríi Fold.
Eldur og ís etja kappi á málverkasýningu Þorsteins Helgasonar í Galleríi Fold. Orri Páll Ormarsson heilsaði upp á Þorstein sem starfar sem arkitekt.

ÓVÍÐA á jarðkringlunni takast eldur og ís, hiti og kuldi, á með jafn afgerandi hætti og á Íslandi. Eldfjöllin, þessar elskur, gjósa upp í opið geðið á jöklunum, eins og ekkert sé sjálfsagðara og umheimurinn starir á í forundran. Furðar sig á innbyrðis fangbrögðum sköpunarverksins.

Það eru þessar andstæður sem Þorsteinn Helgason listmálari og arkitekt dregur fram á sýningu sem stendur yfir í Galleríi Fold þessa dagana. Hefur hann þar sett saman óhlutbundna sinfóníu, þar sem litirnir eiga allir sínar einleiksstrófur, hver með sínum hætti.

Sérstaklega leikur guli liturinn lausum hala. Er hann ekki tákn bjartsýni?

Athygli vekur að verkin bera öll sömu yfirskriftina, Náttúruabstraktion, númeruð frá 1 til 29. "Menn hafa skammað mig fyrir þetta. Það þurfa víst allir skapaðir hlutir að heita eitthvað hér á landi. Mér finnst hins vegar ágætt að leyfa fólki að glíma sjálfu við nafngiftina. Menn geta lesið svo ótal margt út úr málverkum," segir Þorsteinn.

Hann er arkitekt að mennt, brautskráður frá Arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn 1988, og rekur teiknistofuna Arcus í samvinnu við aðra. Unir þar hag sínum vel. Hvað er hann þá að daðra við málverkið?

Hálfgerð tilviljun

"Ég hef alltaf teiknað mikið, eins og raunar fleiri í ættinni. Teikningin er undirstaðan, án hennar er ekki auðvelt að mála myndir. Annars var þetta hálfgerð tilviljun. Konan mín gaf mér liti fyrir nokkrum árum og þetta hefur bara þróast í þessa átt," segir Þorsteinn sem hélt sína fyrstu einkasýningu í Galleríi Borg fyrir tveimur árum. Hefur síðan tekið þátt í samsýningum, auk þess að vera einn fimm Íslendinga sem áttu verk í úrslitum málverkasamkeppni Winsor & Newton, eins kunnasta framleiðanda myndlistarvara í heiminum, á síðasta ári. Verkið var á sýningu fyrirtækisins í Lundúnum og Stokkhólmi fyrr á þessu ári og heldur senn áleiðis til New York.

"Það var mjög uppörvandi að fá þessa viðurkenningu. Þetta var mjög skemmtileg keppni en formaður dómnefndar og verndari var enginn annar en Karl Bretaprins."

Talandi um uppörvun þá veitir blaðamaður því athygli að veggir Foldar eru útbíaðir í rauðum deplum. Þorsteinn hefur bersýnilega selt vel.

"Já, ég held að um helmingur verkanna hafi selst. Það er auðvitað góð viðurkenning. Undirtektir hafa almennt verið góðar, þar sem ég hef sýnt - kannski er málverkið að koma aftur?"

Þorsteinn segir arkitektúr og listmálun að ýmsu leyti skyld fög. Margt bragðið úr byggingarlistinni nýtist honum við trönurnar og öfugt. Ekki þarf til dæmis listfræðing til að greina að myndbygging málverka hans, kassar á víð og dreif, á sér rætur í arkitektúrnum.

"Arkitektinn býr við meiri aga, auk þess sem ferlið er yfirleitt lengra hjá honum. Það getur tekið nokkur ár að byggja hús. Listmálarinn er frjálsari, fær fleiri tækifæri til að sleppa fram af sér beislinu, þó svo arkitektinn geti stundum gert það líka. Báðir hafa þeir yndi af því að glíma við fallega hluti."

Býr sér til tíma

Þorsteinn sækir vinnu sína á teiknistofuna dags daglega en málar í frístundum - enn sem komið er að minnsta kosti. En er hann með trönurnar tilbúnar á teiknistofunni ef andinn kemur yfir hann?

"Nei, það er ég ekki. Þótt hugmyndin sé ágæt. Ég mála meira á kvöldin og snemma á morgnana, áður en ég fer til vinnu. Reyni að búa mér til tíma. Ég geri þetta yfirleitt í skorpum."

Málverkið byrjaði sem tómstundagaman en hefur undið upp á sig. Meiri alvara er hlaupin í spilið. "Það verður ekki aftur snúið úr þessu," segir Þorsteinn og brosir. "Ætli ég haldi ekki áfram að sinna þessu tvennu jöfnum höndum í framtíðinni. Það á ágætlega við mig."

Sýningin stendur til 14. maí.