12. maí 2000 | Innlendar fréttir | 276 orð

Pétur H. Blöndal um frumvarp um afnám skattfríðinda forseta Íslands

"80-90% líkur á að þetta frumvarp verði samþykkt"

FRUMVARP til laga um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands var lagt fram á Alþingi í gær. Flutningsmenn þess eru Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, Árni Steinar Jóhannsson, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, Guðjón A.
FRUMVARP til laga um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands var lagt fram á Alþingi í gær. Flutningsmenn þess eru Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, Árni Steinar Jóhannsson, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, Guðjón A. Kristjánsson, Frjálslynda flokknum, og Ólafur Örn Haraldsson, Framsóknarflokki.

Forseti Alþingis hefur ákveðið að setja frumvarpið á dagskrá Alþingis í dag og segist Pétur H. Blöndal gera sér miklar vonir um að frumvarpið verði að lögum. "Ég held að það séu 80-90% líkur á að þetta frumvarp verði samþykkt," sagði hann.

Að sögn Péturs fékkst enginn þingmaður Samfylkingarinnar til að að vera meðal flutningsmanna frumvarpsins. "Mörgum þeirra var boðið að vera með en þeir vildu það ekki," sagði Pétur.

Í greinargerð frumvarpsins segir að á undanförnum árum hafi oftsinnis kviknað umræða í þjóðfélaginu um að óeðlilegt sé að forseti lýðveldisins sé undanþeginn greiðslu skatta og opinberra gjalda. Í síðustu forsetakostningum hafi einnig allir forsetaframbjóðendur lýst því yfir í sjónvarpsumræðum að þeir væru hlynntir því að skattfrelsi forseta og maka hans yrði afnumið.

Heppilegur tími nú

Pétur sagði að ástæða þess að frumvarpið væri lagt fram nú væri sú að nú væri heppilegur tími til að afnema skattfríðindin þar sem kjörtímabili forseta væri að ljúka. Skv. lögum er óheimilt að breyta launakjörum forseta á kjörtímabili hans.

Pétur sagði að sumir hefðu gagnrýnt það hvað frumvarpið kæmi seint fram og því gæfist ekki mikill tími til að ræða efni þess. Hann sagðist ekki telja mikla þörf á löngum umræðum um frumvarpið því málið væri í sjálfu sér mjög einfalt og varðaði það hvort forsetinn ætti að greiða skatta eins og aðrir borgarar landsins eða ekki.

"Ég hef engan heyrt, að einum eða tveimur undanskildum, mæla með því að forsetinn sé skattfrjáls," sagði Pétur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.