13. maí 2000 | Aðsent efni | 317 orð

Umræðuþáttur

Skapofsi Kolbrúnar til skammar

Reiði og skapofsi Kolbrúnar Halldórsdóttur var til hábor- innar skammar, segir Ragnar Sigurðsson, og ekki þingmanni sæmandi.
SUNNUDAGINN 30. apríl sl. átti sér stað umræða um ættleiðingar samkynhneigðra í þættinum "Silfur Egils" á Skjá Einum. Þar áttust við Árni Johnsen þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður vinstri grænna og upp hófst opinská umræða um þetta frumvarp sem liggur fyrir Alþingi. Kolbrún Halldórsdóttir var með en Árni Johnsen á móti og svo sem hef ég ekkert útá það að setja en reiði og skapofsi Kolbrúnar Halldórsdóttur var til háborinnar skammar og ekki þingmanni sæmandi.

Í þessum umrædda þætti sakaði Kolbrún menn eins og Árna Johnsen um að bera ábyrgð á sjálfsmorðum samkynhneigðra með því að viðhalda fordómum, og persónulega finnast mér þetta vera vanhugsuð orð og ósanngjörn í garð Árna Johnsen. En í mánudagsblaði Dagblaðsins reynir hún að bjarga andliti sínu, með því að segjast hafa sagt að þau bæru ábyrgð á umræðunni sem slíkri, en ef ég man rétt spurði Árni Kolbrúnu hvort hún hefði ekki gengið of langt með því að ráðast svona á sig og hún sagði hreint út "nei", þannig að Kolbrún fer hreinlega með ósannindi í blaðinu.

Mér finnst þessi orð sem Kolbrún fleytti af sér um Árna vera ósæmandi og ættu ekki að heyrast á meðal alþingismanna.

Ég verð að benda á það, að í þessari mikilvægu umræðu finnst mér fólk vera hrætt við að segja skoðun sína og tel ég það vera út af því hversu orðið "fordómar" er orðið algengt í íslenskri tungu, og finnst mér fólk oft hlaupa of geyst í að segja að menn séu fordómafullir, bara þegar þeir tala um skoðun sína á málinu, og var umræðan á sunnudaginn hjá Skjá Einum gott dæmi um það.

Með fullri virðingu fyrir Kolbrúnu, sem er hinn ágætasti alþingismaður, finnst mér hún hafa misst sig og ætti hún að virða skoðun Árna með því að biðja hann og aðra kjósendur sem horfðu upp á þetta reiðikast háttsettrar þingkonu fyrirgefningar á orðum sínum.

Höfundur er í stjórn Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.