½ Leikstjórn og handrit: Ron Senkowski. Aðalhlutverk: Rebecca De Mornay og Michael Rooker. (90 mín.) Bandaríkin, 1999. Bergvík. Bönnuð innan 16 ára.

Borð fyrir einn er sjónvarpsmynd sem lýsir ástum og afbrýðisemi, tvöfeldni og geðveiki í lífi Ruth, einmana en kynþokkafullrar húsmóður. Ruth grunar að eiginmaðurinn sé ekki allur þar sem hann er séður og hefur því fyllt húsið af dauðagildrum ef ske kynni að hann reyndi að myrða hana. Hún veit hins vegar ekki að eiginmaðurinn á aðra konu og tvö börn sem hann heimsækir þegar hann segist vera á viðskiptaferðalögum. Það líður að sjálfsögðu ekki á löngu áður en allt fer í handaskolum og því langa og leiðinlega ferli fær áhorfandinn að fylgjast grannt með. Þó eru nokkrir ljósir punktar í öllum lélegheitunum sem varða persónusköpun aðalsöguhetjunnar. Ýmsar ástæður eru gefnar fyrir yfirvofandi sturlun hennar og spilar einmanaleg tilvera heimavinnandi húsmóðurinnar þar stórt hlutverk. Þessi viðleitni nægir að minnsta kosti til að gefa áhorfandanum örlitla samúð með umræddri persónu.

Heiða Jóhannsdóttir